Ása Sigríður Þórisdóttir 29. feb. 2024

Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

 Öll hreyfing gerir gagn. Það þarf bara koma hjartanu aðeins af stað. Í átakinu er lögð áhersla á að virkja máttinn í samstöðunni og bróðerni karlmanna og hvetja þá til að nýta skriðþungann í Mottumars til að keyra sig og sína kalla í gang.

Mottumarshlaup á hlaupársdegi

Það er því mjög vel við hæfi að opnunarviðburður átaksins sé Mottumarshlaupið sem nú er haldið í fyrsta sinn í dag, 29. febrúar, á hlaupársdegi og ræst við Fagralund í Kópavogi. Boðið er upp á 5 km löglega mælda braut, með eða án tímatöku. Allir geta tekið þátt og farið á sínum hraða og jafnvel stytt sér leið, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Aðalatriðið er að vera með. 

Hönnuðir sokkanna í ár eru As We Grow

Mottumarssokkarnir hafa fest sig rækilega í sessi og margir bíða í ofvæni á hverju ári eftir því að sjá sokka ársins. Sokkarnir í ár eru hannaðir hjá As We Grow . Þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. Hönnunin byggir á Mottumarsskegginu sem hefur tekið á sig abstrakt yfirbragð glaðlegs símynsturs í hinu hefðbundna litaþema átaksins. Símynstrið vísar í þá staðreynd að einn af hverjum þremur karlmönnum getur vænst þess að greinast einhvern tímann á lífsleiðinni með krabbamein.

https://youtu.be/S2frQ4Q1XU8

Þegar við klæðumst sokkunum sýnum við ekki einungis stuðning í verki heldur minnum við hvert annað líka á hve málið er brýnt og varðar okkur einfaldlega öll.

Forsetinn fékk fyrsta parið

Sjöunda árið í röð fékk forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson fyrsta sokkaparið. Krabbameinsfélagið þakkar forsetanum fyrir að vera einn af fáum embættismönnum sem talað hefur af alvöru fyrir lýðheilsu og fyrir að hafa sýnt gott frumkvæði og fordæmi í gegnum árin í þeim efnum. 

Nældu þér í par

Mottumarssokkana færðu í vefverslun Krabbameinsfélagsins, hjá As We Grow og á 400 sölustöðum um land allt. Sokkarnir fást í tveimur stærðum: 36-41 og 42-47.


Sokkar_2

Skeggkeppni Mottumars

Skeggkeppnin er á sínum stað og stendur til 31. mars. Það er því ekki eftir neinu að bíða, nema kannski skeggvextinum, skráðu þig til keppni. Skartaðu mottu og safnaðu áheitum með því að hvetja vini og vandamenn til að heita á þig og leggja góðu málefni lið. 

Sofnun_1200x600at2x-100

Fjölbreytt fræðsla og viðburðir

Í Mottumars verða fjölbreyttir viðburðir og fræðsla í tengslum við karlmenn og krabbamein á döfinni hjá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögunum.

Stuðningur og velvild almennings skiptir máli

Árlega greinast að meðaltali 937 karlmenn með krabbamein. Í árslok 2022 voru 7.907 karlmenn á lífi sem greinst hafa með krabbamein. Starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir alfarið á stuðningi frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum undir starfsemi félagsins.

Verkefni-fjaraflanir-nov-2023

Með stuðningi þínum gerir þú félaginu kleift að:

  • styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.
  • styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
  • sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.
  • sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.

Starfsemi Krabbameinsfélagsins má kynna sér nánar á krabb.is.

Allar nánari upplýsingar um átakið má finna á Mottumars.is

Logo_Dokkt


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?