Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 24. apr. 2018

KÍ fagnar umræðu um fyrirkomulag skimana

Í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld var fjallað um stöðu skimunar fyrir krabbameinum á Íslandi. Krabbameinsfélagið fagnar umræðu um mikilvægi skimunar, en dregið hefur úr þátttöku í henni síðustu ár. Um er að ræða mikilvægt mál sem snertir heilsu kvenna um land allt.

„Minnkandi mæting í skimun er vissulega áhyggjuefni og helsta áskorun okkar felst í því að fá aukna þátttöku og sú vinna er í fullum gangi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins; „Við hvetjum allar konur á aldrinum 23 til 65 ára til að mæta í skimun þegar þær fá boð um það, því þannig drögum við úr dauðsföllum af völdum krabbameina. Krabbameinsfélagið vill eins og víða hefur komið fram hafa það fyrirkomulag á skimun sem hentar konum best og skilar mestum árangri í að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina.“

Nú þegar eru til skoðunar hjá félaginu ýmis atriði sem rædd voru í þættinum og snúa m.a. að minnkandi þátttöku kvenna. Krabbameinsfélagið ber hagsmuni kvenna í landinu fyrir brjósti og hyggst áfram vera í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir bættum forvörnum gagnvart öllum tegundum af krabbameini.

Mikilvægt er að leiðrétta það sem fram kom í þættinum um að félagið láti greiðslur ríkisins renna til óskyldrar starfsemi. Svo er að sjálfsögðu ekki. Greiðslur ríkisins renna að fullu til leitarsviðsins, en ekki til óskyldrar félagsstarfsemi Krabbameinsfélagsins á borð við fræðslu, ráðgjöf, rekstur íbúða og og fleira, eins og haldið var fram í þættinum. Leitarsviðið greiðir, eins og önnur svið félagsins, hluta af sameiginlegum kostnaði í samræmi við umfang, starfsmannafjölda, stærð húsnæðis sem undir hana fer og svo framvegis. Miðað við þessar forsendur og endurskoðuð uppgjör þá hefur verið halli á starfsemi Leitarstöðvarinnar síðustu ár sem Krabbameinsfélagið hefur borið. Umsjónarmanni Kveiks voru sendar sundurgreindar tölur um tekjur og gjöld Leitarstöðvarinnar síðustu ár en þær voru því miður ekki birtar í þættinum. Í þeim kemur fram að hallinn á leitarstarfinu nam til að mynda 55 milljónum króna árið 2017 og 86 milljónum króna árið 2016.

Þá má einnig nefna að Krabbameinsfélagið hefur reglulega óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands og Velferðarráðuneytið að gerð verði kostnaðargreining á starfi leitarstöðvarinnar út frá þeim kröfum sem stjórnvöld gera til skimunarinnar.

Núverandi þjónustusamningur Sjúkratrygginga Íslands og Krabbameinsfélags Íslands um skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er frá árinu 2013 og hefur verið framlengdur síðan frá árinu 2015 til minna en eins árs í einu. 

Vegna umfjöllunar í þættinum um kostnað við auglýsingar í fjáröflunarátökum skal tekið fram að söfnunarátök félagsins eru ávallt tvíþætt, annars vegar snúa þau að fjáröflun og hins vegar að fræðslu, sem er stór þáttur í starfsemi félagsins. Útgjöld til auglýsingagerðar og -birtinga eru liður í fræðslustarfinu. Gott dæmi er lag rakarakvartettsins í auglýsingum í nýliðnum Mottumars sem fól í sér beina fræðslu til almennings um einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli.

Íslendingar standa vel að vígi miðað við Norðurlöndin


Þó að dregið hafi úr mætingu í skimun fyrir leghálskrabbameini hér á landi hefur sú staðreynd góðu heilli ekki birst í aukinni dánartíðni og standa Íslendingar enn vel að vígi í samanburði við hin Norðurlöndin. Upplýsingar frá norrænu krabbameinsskránum sýna að aldursstaðlað nýgengi krabbameins í leghálsi er hið sama hér og í Svíþjóð, eða um 8 af 100.000, sem er lægra en í Danmörku og Noregi. Dánartíðni er lág og nánast hin sama í öllum löndunum, nema í Finnlandi þar sem hún er lægst. Tilviljunarsveiflur einkenna hins vegar íslensku tölurnar vegna þess hve þær eru litlar í okkar fámenna þýði.

Í Kveik í gær var vísað í skýrslu frá OECD um aukna dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins á Íslandi milli áranna 2005 og 2015. Svo er ekki, raunin er að dánartíðni hefur farið lækkandi hér á landi frá miðjum 10. áratugnum, líkt og á hinum Norðurlöndunum. Alkunnar tilviljanasveiflur spila hér inn í og geta leitt til ofangreindrar niðurstöðu.

Áskorun og undirskriftasöfnun

Krabbameinsfélagið hefur undanfarna mánuði staðið fyrir undirskriftasöfnun og skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir forvörnum gegn krabbameinum. Fyrir síðustu alþingiskosningar svöruðu fulltrúar flokkanna spurningum um stefnu í málefnum er varða krabbamein. Flokkarnir voru undantekningalaust á þeirri skoðun að greiðsluþátttaka í skimun skyldi ekki vera hindrun og sumir vildu gera skimun gjaldfrjálsa í áföngum. Félagið hvetur almenning til að skrifa undir áskorunina.

Mikilvæg skilaboð til kvenna

Krabbameinsfélagið hvetur allar konur til að nýta sér tækifæri til skimunar fyrir krabbameinum. Konur á aldrinum frá 23 til 65 ára fá boðun um skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti. Hægt er að fara í skoðun á heilsugæslustöðvum, hjá kvensjúkdómalæknum og á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Konur á aldringum frá 40 til 69 ára fá boðun um skimun fyrir krabbameini í brjóstum annað hvert ár. Skoðun fer fram á Leitarstöð félagsins og völdum stöðum á landsbyggðinni.

 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?