Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 21. jan. 2020

Karlaklefinn: Gæðasvæði

Nýtt vefsvæði fyrir karlmenn - ný nálgun á fræðsluefni til karla á vegum Krabbameinsfélagsins

Karlaklefinn er nýlegur vefur á vegum Krabbameinsfélagsins þar sem fjallað er um karla og krabbamein á karllægan hátt. Þar er að finna fræðsluefni af ýmsum toga sem sérstaklega er ætlað karlmönnum. Karlaklefinn er enn í þróun en honum er ætlað að verða gæðasvæði fyrir karla á öllum aldri. 

Sturtuvörðurinn vill alvöru strákastöff 

„Við karlmenn leitum okkur síður upplýsinga en konur varðandi margt sem snertir heilsufar okkar. Við bregðumst síður við einkennum og leitum seinna til læknis. Þess vegna var mikilvægt að hanna vefinn sérstaklega með karlmenn í huga til að auka áhuga þeirra á því að afla sér upplýsinga,“ segir Guðmundur Pálsson sem er hugmyndasmiður verkefnisins og stundum kallaður í gríni „sturtuvörðurinn“ af samstarfsfólki. 

„Markmið Krabbameinsfélagsins með Karlaklefanum er að auka áhuga karla á fróðleik og upplýsingum um heilbrigðan lífsstíl. Einnig að miðla upplýsingum um krabbamein og sjúkdómsferli, réttindamál, stuðning og viðbrögð aðstandenda og vinnufélaga svo dæmi séu tekin,“ segir Guðmundur. 

Reynslusögur karlmanna hafa slegið í gegn 

Fyrstu skref Karlaklefans voru fjármögnuð með söfnunar- og vitundarvakningu Mottumars 2018 og hafa þúsundir landsmanna nú þegar notið þess efnis sem þar er að finna. Í fyrstu útgáfu vefsins lögðu nokkrir karlar til reynslusögur sínar og hafa þær frásagnir vakið landsathygli. Þessir karlar eiga það allir sameiginlegt að hafa glímt við krabbamein á einn eða annan hátt og deila reynslu sinni í máli og myndum í Karlaklefanum. 

Matur er mannsins megin 

Á meðal efnis í Karlaklefanum er umfjöllun um fæðuval en fjölbreytt fæði skiptir máli fyrir alla. Hollt og fjölbreytt mataræði og regluleg hreyfing bætir heilsu og líðan, hefur jákvæð áhrif á líkamsþyngdina og minnkar áhættu á krabbameinum og öðrum sjúkdómum. 

Karlaklefinn er í nánu samstarfi við marga sérfræðinga og þeirra á meðal er Bragi Guðmundsson matreiðslumaður. „Samstarfið við Braga er tær snilld. Hann er mikill reynslubolti og hefur starfað í ríflega 30 ár sem matreiðslumaður, verkefnastjóri og forstöðumaður í eldhúsum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Bragi þekkir krabbamein af eigin raun og leggur verkefninu lið með einföldum og bráðhollum mataruppskriftum” segir Guðmundur. 

Næstu skref? 

Aðspurður um næstu skref Karlaklefans segir Guðmundur margt vera í undirbúningi. „Ég get til dæmis nefnt að síðustu mánuði hefur verið unnið hörðum höndum að þýðingu og forritun á veflausn sem getur hjálpað körlum að taka ákvörðun um hvort þeir vilji láta skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli. Þessi umfangsmikla viðbót við Karlaklefann fer í loftið fljótlega á árinu,“ segir Guðmundur.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020 .


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?