Guðmundur Pálsson 21. okt. 2021

Fjölsótt málþing skorar á heil­brigðis­yfir­völd að setja brjósta­heilsu í for­gang

Málþing um brjóstakrabbamein fór fram miðvikudaginn 20. október að viðstöddu fjölmenni. Auk þess var fylgst með dagskránni í gegnum streymisveitu Krabbameinsfélagsins á ríflega 100 stöðum um land allt.

Horfur eftir greiningu brjóstakrabbameins hér á landi hafa verið mjög góðar en nú eru vísbendingar um að Ísland sé að dragast aftur úr miðað við hin Norðurlöndin.

Brynja Björk Gunnarsdóttir, formaður Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, setti málþingið og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja annaðist fundarstjórn. Lára Guðrún Jóhönnudóttir deildi reynslu sinni með gestum en önnur erindi voru þessi:

Horfur íslenskra kvenna með brjóstakrabbamein: Helgi Birgisson yfirlæknir á Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins

Gæðaskráning – hagur krabbameinsgreindra: Hrefna Stefánsdóttir sérfræðingur á Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins

Brjóstaheilsa á tímamótum – Brjóstakrabbamein, mikilvægi skimunar og reynsla erlendis: Ólöf Kristjana Bjarnadóttir krabbameinslæknir á Landspítalanum

Brjóstaheilsa á tímamótum – Sjúkdómar í brjóstum / Aðgengi að sérfræðingsþjónustu og framtíðarsýn: Svanheiður Lóa Rafnsdóttir brjóstaskurðlæknir á Landspítalanum

Áskorun til heilbrigðisyfirvalda

Eftirfarandi áskorun var borin upp og samþykkt:

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á Íslandi. Í hverri viku greinast fjórir til fimm einstaklingar með brjóstakrabbamein, langflestir eru konur, 235 á hverju ári. Að meðaltali deyja 50 konur hér á landi á ári úr brjóstakrabbameini. Til að lækka dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins og minnka likur á endurkomu þess er mikilvægt að greina krabbameinin á byrjunarstigi.

Þátttakendur málþingsins „Verum til” skora á heilbrigðisyfirvöld að setja brjóstaheilsu í forgang,

Í því felst til dæmis:

  • að tryggja að aðgengi fólks sem hafa einkenni í brjóstum að sérhæfðri skoðun sé gott og ferlið, frá því einkenni koma fram, þar til rannsókn er gerð, skýrt og einfalt.
  • að unnið sé markvisst að því að auka þátttöku kvenna í skimunum fyrir brjóstakrabba-meinum, til dæmis með skipulagðri hvatningu til kvenna, að skimun sé ókeypis og að gott aðgengi sé að henni í nærumhverfi. Vel skipulögð og framkvæmd skimun bjargar mannslífum og lækkar dánartíðni um 20-30%.

Við búum í fámennu landi sem ætti að gera okkur auðveldara að búa til kerfi þar sem fólkið og bætt þjónusta við það er í forgrunni.

Stór hluti þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein eru hraustir einstaklingar í blóma lífsins. Mikið er í húfi að greina meinin sem fyrst, sem eykur líkur á að þeir lifi áfram góðu lífi.

Sofnum ekki á verðinum, tökum brjóstaheilsu alvarlega. 

Upptaka frá málþinginu

Upptaka frá málþinginu er aðgengileg í streymisveitu Krabbameinsfélagsins:


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?