Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 1. feb. 2020

„Ég þakka Allah og ég þakka ykkur“

Amina Gulamo greindist með hnút í brjósti þegar hún lék í auglýsingamyndatöku fyrir Krabbameinsfélagið síðastliðið vor. 

„Ég er svo þakklát fyrir að meinið uppgötvaðist, sérstaklega vegna þess að það voru svo margar tilviljanir sem urðu til þess að ég fór í brjóstamyndatökuna,“ segir Amina sem er af portúgölskum uppruna.

Auglýsingar fyrir konur af erlendum uppruna

Félagið hefur síðustu misseri lagt áherslu á að koma skilaboðum til kvenna af erlendum uppruna um mikilvægi skimana. Í herferð sem gerð var fyrir samfélagsmiðla voru fengnar konur af mismunandi kynþáttum og meðal annars haft samband við Stórmoskuna á Íslandi og óskað eftir konu úr söfnuðinum til að taka þátt í auglýsingunni. Fyrir misskilning sendi Moskan þrjár konur, en ekki eina, og félagið þurfti að velja úr þeim hópi á staðnum. 

„Fyrsta tilviljunin var sú að Moskan skyldi biðja mig og svo að ég skildi vera valin úr hópnum þegar myndatakan var að hefjast á Leitarstöðinni,“ segir Amina sem hefur búið á Íslandi frá árinu 2013. Dóttir hennar hafði þá búið hér á landi um tíma og Amina flutti hingað eftir að fyrirtækið sem hún vann hjá í heimabænum Miratejo skammt frá Lissabon var lagt niður. Hún starfaði fyrst í fiski, síðan sem hótelþerna og þar til nýverið í eldhúsi Landspítalans en hún er hætt störfum vegna aldurs, 67 ára. 

Amina með Guðrúnu Birgisdóttur, geislafræðingi á Leitarstöð.

Í myndatökunni var hún spurð um hversu langt væri síðan hún hefði farið brjóstamyndatöku og þá kom í ljós að 12 ár voru liðin frá myndatöku í Portúgal. Í staðinn fyrir að leika að hún væri að fara í myndatöku eins og hinar konurnar, var henni því boðið að fara í „alvöru“ myndatöku á Leitarstöðinni, sem hún þáði.

Amina ásamt dóttur sinni og Sigríði Sólan Guðlaugsdóttur, kynningarstjóra Krabbameinsfélagsins.

Nokkrum dögum síðar var hún boðuð í sérskoðun þar sem hnútur hafði fundist, en í ljós kom að hann var þess eðlis að ekki þurfti að grípa inn í, en fylgjast þarf vel með þróuninni. 

„Stundum bara græt ég af þakklæti, ég þakka Allah, ég þakka félaginu,“ segir Amina að lokum. „Ég er staðráðin í því að lifa heilbrigðu lífi til að reyna að halda meininu sofandi sem allra lengst.“

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?