Björn Teitsson 24. nóv. 2020

Breytt fyrirkomulag krabbameins­skimana frá 1. janúar

Áhersla verður lögð á að yfirfærsla verkefnisins frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar valdi sem minnstri röskun á þjónustu. Tímapantanir í skimun samkvæmt breyttu fyrirkomulagi hefjast í byrjun janúar.

Breytingar verða á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um næstu áramót. Landspítali í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri tekur þá að sér framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í brjóstum og heilsugæslan um allt land framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í leghálsi. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur annast þetta verkefni um áratuga skeið og unnið mikilvægt brautryðjandastarf í baráttunni við krabbamein hér á landi. Markmið breytinganna er að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Embætti landlæknis mun fara með stjórn hópleitarinnar og bera ábyrgð á henni, sinna gæðaeftirliti og halda skimunarskrá.

Landlæknir kynnti fyrir heilbrigðisráðherra í byrjun árs 2019 tillögur að framtíðarskipulagi krabbameinsskimana. Tillögurnar voru í samræmi við niðurstöður skimunarráðs og tillögur þess um að færa framkvæmd skimana inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra fól verkefnastjórn að útfæra tillögurnar og tók formlega ákvörðun um að hrinda breytingunum í framkvæmd 1. janúar 2021.

Áhersla verður lögð á að yfirfærsla verkefnisins frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar valdi sem minnstri röskun á þjónustu. Tímapantanir í skimun samkvæmt breyttu fyrirkomulagi hefjast í byrjun janúar.

Upplýsingar um framkvæmd skimana frá áramótum

Reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn ætluð einkennalausum konum. Finni konur fyrir einkennum frá brjóstum eða kvenlíffærum er þeim ráðlagt að leita til læknis.

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana

Sett hefur verið á fót Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Meðal verkefna hennar er að boða konur í reglubundna skimun og veita upplýsingar um niðurstöður skimana. Samhæfingarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.

Skimun fyrir krabbameini í brjóstum

  • Tímapantanir: Frá 6. janúar 2021 geta konur pantað tíma í skimun hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana sem tekur við öllum tímapöntunum vegna þessarar þjónustu.
  • Staðsetning þjónustu: Þjónustan verður áfram veitt í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð þar til á vormánuðum 2021 þegar hún flyst á Eiríksgötu 5. Við Sjúkrahúsið á Akureyri verður staðsetning þjónustunnar óbreytt.
  • Nánari upplýsingar um tímapantanir o.fl. eru á vef samhæfingar· miðstöðvarinnar.

Skimun fyrir leghálskrabbameini – landsbyggðin

  • Tímapantanir: Frá 4. janúar geta konur pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á www.heilsuvera.is eða hjá heilsugæslustöðinni sinni.
  • Framkvæmdin: Fyrirkomulag skimana á landsbyggðinni verður óbreytt.

Skimun fyrir leghálskrabbameini – höfuðborgarsvæðið

 

  • Tímapantanir: Frá 4. janúar geta konur pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á www.heilsuvera.is eða hjá heilsugæslustöðinni sinni.
  • Staðsetning þjónustu: Þjónustan verður veitt á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Sem fyrr geta konur sem það kjósa leitað til kvensjúkdómalæknis vegna sýnatöku.
  • Framkvæmd: Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar, sem hafa hlotið sérstaka þjálfun, munu annast sýnatöku, líkt og ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa gert á heilsugæslustöðvunum á landsbyggðinni frá árinu 2015.

Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?