Björn Teitsson 24. nóv. 2020

Breytt fyrirkomulag krabbameins­skimana frá 1. janúar

Áhersla verður lögð á að yfirfærsla verkefnisins frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar valdi sem minnstri röskun á þjónustu. Tímapantanir í skimun samkvæmt breyttu fyrirkomulagi hefjast í byrjun janúar.

Breytingar verða á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um næstu áramót. Landspítali í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri tekur þá að sér framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í brjóstum og heilsugæslan um allt land framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í leghálsi. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur annast þetta verkefni um áratuga skeið og unnið mikilvægt brautryðjandastarf í baráttunni við krabbamein hér á landi. Markmið breytinganna er að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja enn frekar öryggi og gæði og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Embætti landlæknis mun fara með stjórn hópleitarinnar og bera ábyrgð á henni, sinna gæðaeftirliti og halda skimunarskrá.

Landlæknir kynnti fyrir heilbrigðisráðherra í byrjun árs 2019 tillögur að framtíðarskipulagi krabbameinsskimana. Tillögurnar voru í samræmi við niðurstöður skimunarráðs og tillögur þess um að færa framkvæmd skimana inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra fól verkefnastjórn að útfæra tillögurnar og tók formlega ákvörðun um að hrinda breytingunum í framkvæmd 1. janúar 2021.

Áhersla verður lögð á að yfirfærsla verkefnisins frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar valdi sem minnstri röskun á þjónustu. Tímapantanir í skimun samkvæmt breyttu fyrirkomulagi hefjast í byrjun janúar.

Upplýsingar um framkvæmd skimana frá áramótum

Reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn ætluð einkennalausum konum. Finni konur fyrir einkennum frá brjóstum eða kvenlíffærum er þeim ráðlagt að leita til læknis.

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana

Sett hefur verið á fót Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Meðal verkefna hennar er að boða konur í reglubundna skimun og veita upplýsingar um niðurstöður skimana. Samhæfingarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.

Skimun fyrir krabbameini í brjóstum

  • Tímapantanir: Frá 6. janúar 2021 geta konur pantað tíma í skimun hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana sem tekur við öllum tímapöntunum vegna þessarar þjónustu.
  • Staðsetning þjónustu: Þjónustan verður áfram veitt í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð þar til á vormánuðum 2021 þegar hún flyst á Eiríksgötu 5. Við Sjúkrahúsið á Akureyri verður staðsetning þjónustunnar óbreytt.
  • Nánari upplýsingar um tímapantanir o.fl. eru á vef samhæfingar· miðstöðvarinnar.

Skimun fyrir leghálskrabbameini – landsbyggðin

  • Tímapantanir: Frá 4. janúar geta konur pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á www.heilsuvera.is eða hjá heilsugæslustöðinni sinni.
  • Framkvæmdin: Fyrirkomulag skimana á landsbyggðinni verður óbreytt.

Skimun fyrir leghálskrabbameini – höfuðborgarsvæðið

 

  • Tímapantanir: Frá 4. janúar geta konur pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á www.heilsuvera.is eða hjá heilsugæslustöðinni sinni.
  • Staðsetning þjónustu: Þjónustan verður veitt á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Sem fyrr geta konur sem það kjósa leitað til kvensjúkdómalæknis vegna sýnatöku.
  • Framkvæmd: Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar, sem hafa hlotið sérstaka þjálfun, munu annast sýnatöku, líkt og ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa gert á heilsugæslustöðvunum á landsbyggðinni frá árinu 2015.

Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?