Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. apr. 2020

Aukin þjónusta Krabbameinsfélagsins á Austurlandi

Krabbameinsfélagið hefur ráðið Margréti Helgu Ívarsdóttur, lækni, til starfa á Austurlandi í samvinnu við aðildarfélög sín á svæðinu, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Fljótsdalshérað. 

Margrét Helga mun sinna ráðgjöf, forvarnar- og fræðslustarfi og stuðningi við fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Ráðgjöf og stuðningur hefur lengi verið í boði hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík en markmiðið er að bjóða upp á sambærilega þjónustu um allt land. Slík þjónusta er þegar í boði á Akureyri og að hluta til á Selfossi.

„Nú er komið að heimabyggð Austfirðinga því við vitum hve miklu það skiptir að geta fengið þjónustu án þess að þurfa að fara um langan veg. Krabbameinsmeðferð er í auknum mæli veitt fyrir austan og félaginu þykir eðlilegt að taka þátt í að styrkja umhverfi þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra á Austurlandi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Í Bleiku slaufunni árið 2017 var lögð áhersla á ráðgjöf og stuðning um allt land en afrakstur söfnunarinnar það árið rann til ráðgjafarþjónustunar. Félagið reiðir sig alfarið á stuðning almennings og framlög Velunnara auk þess sem vegleg erfðagjöf frá íbúa á Austurlandi gerir félaginu þetta mögulegt.

„Þetta er auðvitað mikið fagnaðarefni og afar spennandi að geta boðið íbúum Austurlands upp á ráðgjöf og stuðning í sinni heimabyggð. Ég hlakka til að geta þróað starfið í samráði við íbúa, heilbrigðisstarfsfólk og félögin okkar á svæðinu og hvet fólk til að hafa samband með hugmyndir sem geta bætt þjónustuna,“​ segir Margrét Helga.

Í ljósi aðstæðna verður starfsemi takmörkuð til að byrja með, til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar samkvæmt ráðleggingum Almannavarna og einungis boðið upp á símaráðgjöf í síma 831-1655 milli kl. 9 og 16 en einnig er hægt að hafa samband í tölvupósti á austur@krabb.is


Fleiri nýjar fréttir

29. maí 2020 : Evrópska krabba­meins­vikan #5

Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn 31. maí.
Börn og ungmenni eru markhópur tóbaks- og nikótíniðnaðarins

Lesa meira

28. maí 2020 : Evrópska krabba­meins­vikan #4

Lífið eftir krabbamein

Lesa meira

27. maí 2020 : Evrópska krabbameinsvikan #3

Krabbameinsrannsóknir hafa leitt til stórkostlegra framfara í greiningu og meðferð krabbameina. Verkinu er þó hvergi nærri lokið.

Lesa meira

27. maí 2020 : Sumar­happdrætti Krabba­meins­félagsins - stuðningur við marg­þætta starfsemi

Fræðsla um krabbamein og krabbameins­varnir, útgáfa fræðslurita, tóbaksvarnir og stuðningur við krabbameinssjúklinga eru allt þættir í starfsemi félagsins sem byggjast á fjárhagsstuðningi við félagið.

Lesa meira

26. maí 2020 : Evrópska krabbameinsvikan #2

Taktu góðar ákvarðanir fyrir þig og þína! 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?