Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. apr. 2020

Aukin þjónusta Krabbameinsfélagsins á Austurlandi

Krabbameinsfélagið hefur ráðið Margréti Helgu Ívarsdóttur, lækni, til starfa á Austurlandi í samvinnu við aðildarfélög sín á svæðinu, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Fljótsdalshérað. 

Margrét Helga mun sinna ráðgjöf, forvarnar- og fræðslustarfi og stuðningi við fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Ráðgjöf og stuðningur hefur lengi verið í boði hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík en markmiðið er að bjóða upp á sambærilega þjónustu um allt land. Slík þjónusta er þegar í boði á Akureyri og að hluta til á Selfossi.

„Nú er komið að heimabyggð Austfirðinga því við vitum hve miklu það skiptir að geta fengið þjónustu án þess að þurfa að fara um langan veg. Krabbameinsmeðferð er í auknum mæli veitt fyrir austan og félaginu þykir eðlilegt að taka þátt í að styrkja umhverfi þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra á Austurlandi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Í Bleiku slaufunni árið 2017 var lögð áhersla á ráðgjöf og stuðning um allt land en afrakstur söfnunarinnar það árið rann til ráðgjafarþjónustunar. Félagið reiðir sig alfarið á stuðning almennings og framlög Velunnara auk þess sem vegleg erfðagjöf frá íbúa á Austurlandi gerir félaginu þetta mögulegt.

„Þetta er auðvitað mikið fagnaðarefni og afar spennandi að geta boðið íbúum Austurlands upp á ráðgjöf og stuðning í sinni heimabyggð. Ég hlakka til að geta þróað starfið í samráði við íbúa, heilbrigðisstarfsfólk og félögin okkar á svæðinu og hvet fólk til að hafa samband með hugmyndir sem geta bætt þjónustuna,“​ segir Margrét Helga.

Í ljósi aðstæðna verður starfsemi takmörkuð til að byrja með, til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar samkvæmt ráðleggingum Almannavarna og einungis boðið upp á símaráðgjöf í síma 831-1655 milli kl. 9 og 16 en einnig er hægt að hafa samband í tölvupósti á austur@krabb.is


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?