Ása Sigríður Þórisdóttir 6. jún. 2020

Ályktanir aðalfundar

Krabbameinsfélags Íslands samþykkti eftirfarandi ályktanir á aðalfundi félagsins sem haldinn þann 6. júní í Skógarhlíð 8.

Grafalvarleg staða brjóstaskimana frá næstu áramótum

Allt stefnir í að skimanir fyrir brjóstakrabbameinum falli niður tímabundið í að minnsta kosti fjóra mánuði frá næstu áramótum.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri taki við brjóstaskimunum frá næstu áramótum en Landspítali hefur óskað eftir að því verði frestað til 1. maí.

Samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið um skimanir rennur út um áramót og ekki liggur fyrir hver muni sinna skimununum þar til Landspítali er tilbúinn til að taka við verkefninu.

Ef skimanir fyrir brjóstakrabbameinum falla niður í fjóra mánuði má gera ráð fyrir að greining og meðferð sjúkdómsins dragist úr hófi fram fyrir tugi kvenna.

Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein hjá konum. Árlega greinast að meðaltali 220 konur með sjúkdóminn á ári hér á landi. Meðalaldur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein er 63 ár. Batahorfur eru mjög góðar hér á landi, sérstaklega ef sjúkdómurinn greinist snemma. Um 90% kvenna eru á lífi eftir 5 ár og um 80% geta vænst þess að vera á lífi eftir 10 ár. Að meðaltali deyja 49 konur á ári úr sjúkdómnum.

Árangur varðandi brjóstakrabbamein hefur verið með ágætum hér á landi, en ef við viljum halda í þann góða árangur má hvergi slaka á.

Sú staða sem blasir við í nánustu framtíð er fullkomlega óásættanleg.

Áskorun um innleiðingu íslensku krabbameinsáætlunarinnar

Heilbrigðisráðherra samþykkti íslenska krabbameinsáætlun í upphafi síðasta árs. Slíkar áætlanir hafa sannað gildi sitt í öðrum löndum og verið lykill að árangri í baráttunni við krabbamein.

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins, haldinn 6. júní 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að hraða vinnu við forgangsröðun markmiða í áætluninni og leggja hið fyrsta fram tímasetta og fjármagnaða framkvæmdaáætlun.

Í slíkri vinnu er samstarf við sjúklingasamtök mikilvægt. Krabbameinsfélagið ítrekar áður framkominn vilja til að leggja heilbrigðisyfirvöldum lið við verkefnið. Niðurstöður vinnufundar félagsins um krabbameinsáætlunina liggja fyrir og eru mikilvægt innlegg í slíka forgangsröðun ráðherra.

Ristilskimun átti að hefjast árið 2017

Samkvæmt samkomulagi Krabbameinsfélagsins og Velferðarráðuneytisins frá árinu 2016 stóð til að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi haustið 2017. Félagið og ráðuneytið undirbjuggu verkefnið í sameiningu og lögðu í það 45 milljónir.

Þrátt fyrir vandaðan undirbúning hafa heilbrigðisyfirvöld frestað því ítrekað að hefja skimunina og enn liggur ekki fyrir hvenær hún hefst.

Krabbamein í ristli og endaþarmi er í hópi algengustu krabbameina og fer nýgengið vaxandi. Þau eru meðal þeirra fáu krabbameina þar sem hægt er með skimun, að finna forstig sjúkdómsins og koma þannig í veg fyrir meinið. Meðferð og fylgikvillar verða einnig minni ef meinið greinist snemma.

Málið er því afar brýnt. Í hverri einustu viku deyja að meðaltali 2 einstaklingar úr sjúkdómunum en á hverju ári greinast að meðaltali 184 einstaklingar hér á landi með krabbamein í ristli og endaþarmi.

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins, haldinn 6. júní 2020, skorar á heilbrigðisráðherra að setja þegar í stað fram tímasetta og fjármagnaða áætlun um að hefja skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi síðar á þessu ári.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?