Ása Sigríður Þórisdóttir 16. sep. 2020

Áhættan hefur minnkað

Heimild: Grein Höskuldar Daða Magnússonar sem birtist í Morgunblaðinu 16. september 2020.

  • Grein Höskuldar Daða Magnússonar sem birtist í Morgunblaðinu 16.09.2020

Framfarir í meðferð, ásamt greiningu á lægri stigum, hafa aukið til muna lífslíkur þeirra sem greinast með krabbamein en þeir eru að jafnaði um 1.600 árlega hér á landi. Yfir fimmtán þúsund manns sem greinst hafa með krabbamein eru nú á lífi á Íslandi.

Bættir lífshættir hafa aukið lífslíkur

„Greiningum hefur fjölgað en hættan á að hver einstaklingur fái krabbamein hefur aftur á móti minnkað,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins.

Fólki fjölgar hér á landi og þjóðin er að eldast. Fyrir vikið fjölgar greiningum enda eykst nýgengi krabbameina með aldrinum. Hins vegar hefur hættan á að fá krabbamein minnkað með árunum með breyttum og betri lífsháttum; hollara mataræði og minni reykingum, auk skimunar fyrir forstigum leghálskrabbameins.

Framfarir í meðferð, ásamt greiningu á lægri stigum, hafa aukið til muna lífslíkur þeirra sem greinast með krabbamein en þeir eru að jafnaði um 1.600 árlega hér á landi. Yfir fimmtán þúsund manns sem greinst hafa með krabbamein eru nú á lífi á Íslandi.

Lægsta dánartíðni í heimi

Laufey bendir á að dánartíðni af völdum krabbameina hafi stöðugt lækkað hér á landi síðustu tvo áratugi, hjá báðum kynjum. Nýgengislækkun hafi þó stöðvast hjá körlum, alla vega í bili. Vert er að halda til haga þeim árangri sem náðst hafi í baráttu gegn leghálskrabbameini hér frá því leit hófst árið 1964, að mati Laufeyjar. Bæði nýgengi og dánartíðni hafi lækkað mikið og nú sé svo komið að Ísland sé í hópi þeirra landa sem hafa lægsta dánartíðni í heiminum af völdum leghálskrabbameins, eða minna en tvö dauðsföll árlega á hverjar 100.000 konur. Deilum við þeim árangri með hinum Norðurlandaþjóðunum og Norður-Ameríku en í Evrópu er dánartíðnin tæplega fjórir af 100.000 og í öðrum heimsálfum er hún enn hærri.

Gæðaskráning innleidd

Alþjóðadagur krabbameinsrannsókna er í næstu viku, 24. september. Laufey segir í samtali við Morgunblaðið að af því tilefni sé gaman að greina frá því að nýverið hafi Krabbameinsfélagið gert samkomulag við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri varðandi gæðaskráningu á greiningu og meðferð krabbameina. Gæðaskráning felst í söfnun og skráningu klínískra gagna á samræmdan rafrænan hátt og hefur hún í síauknum mæli verið notuð á Norðurlöndunum. Með slíkri skráningu fæst yfirlit yfir greiningar- og meðferðarferli krabbameinssjúklinga frá aðdraganda greiningar til loka fyrstu meðferðar en einnig er fylgst með sjúklingum að meðferð lokinni fram að endurkomu sjúkdóms.

„Við erum nú komin af stað með gæðaskráningu á stöðugt fleiri krabbameinum og er hún að sænskri fyrirmynd, svo við getum borið okkur saman við þá. Svíar hafa verið með slíka gæðaskráningu um áratugaskeið og þeirra kerfi er mjög þróað og flott,“ segir Laufey.

Hún segir að stefnt hafi verið að þessu í allmörg ár og að lengi hafi verið góð samvinna um þetta mál á milli Krabbameinsfélagsins og Landspítalans. „Þegar svona gæðaskráning er komin færist starfsemin til enn betra horfs, því þarna er byggt á alþjóðlega samþykktum gæðavísum. Þannig er gæðaskráningin mikilvægt hagsmunamál þeirra sem greinast með krabbamein.“

Heimild: Grein Höskuldar Daða Magnússonar sem birtist í Morgunblaðinu 16. september 2020.

 

 


Fleiri nýjar fréttir

_C3A0757_minni

22. jan. 2021 : Lífið er núna - vitundarvakning of fjáröflun Krafts

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, verður með vitundarvakningu og fjáröflunarherferð dagana 21. janúar til 4. febrúar. Markmið herferðarinnar er að vekja athygli á hversu marga krabbamein hefur áhrif á, selja húfur til styrktar félaginu og starfsemi þess sem og afla styrkja fyrir félagið.  

Lesa meira

21. jan. 2021 : Mottukeppnin snýr aftur

Mottumars er handan við hornið og í ár ætlar Krabbameinsfélagið að endurvekja Mottukeppnina. Nú söfnum við í góða mottu og kætum maka okkar og vini en söfnum um leið áheitum fyrir góðu málefni. 

Lesa meira

13. jan. 2021 : Breytingum á neðri aldursmörkum fyrir brjóstaskimun frestað

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breytingar á neðri mörkum skimunaraldurs fyrir brjóstakrabbameinum verði frestað. Hefja átti boðun í brjóstaskimun um 50 ára aldur, en nú verður horfið aftur til fyrra kerfis, þar sem 40-49 ára konur verða áfram boðaðar. 

Lesa meira

11. jan. 2021 : Fréttatilkynning vegna breytinga á skimunum fyrir krabbameinum

Nýtt fyrirkomulag skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum tók gildi 1. janúar 2021. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á virkt samtal við konur og alla þjóðina þegar kemur að skimunum. Skimunaraldri fyrir brjóstakrabbamein hefur verið breytt úr 40-69 í 50-74. 

Lesa meira
Áfengi

8. jan. 2021 : Því minna áfengi, því betra

Metsala var á áfengi í Vínbúðum árið 2020. Jafnvel þótt skýringuna megi finna í færri ferðum á veitingastaði eða Fríhöfnina, er rétt að staldra við og minna á að áfengisneysla er áhættuþáttur þegar kemur að krabbameinum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?