Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 9. maí 2018

Aðalfundur 2018 skorar á stjórnvöld

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn í Skógarhlíð 8 þann 8. maí síðastliðinn. Fimm ályktanir voru samþykktar á fundinum þar sem skorað er á stjórnvöld að að efla forvarnir og lýðheilsu og beita sér í frekara mæli í þágu krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Í sjöttu ályktuninni er ávirðingum um að félagið hafi misfarið með fé og unnið gegn hagsmunum kvenna hafnað. Ályktanirnar eru eftirfarandi:

Tryggt aðgengi að sérhæfðri líknarþjónustu í heimahúsum

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn þann 5. maí 2018 skorar á heilbrigðisyfirvöld að tryggja þeim sjúklingahópi sem þarfnast sérhæfðrar líknarþjónustu í heimahúsum öruggt aðgengi að þjónustu til framtíðar. Áframhaldandi öruggt aðgengi skiptir sköpum um lífsgæði sjúklinganna og aðstandenda þeirra. Óvissa um framboð þjónustunnar til framtíðar er sérstaklega til þess fallin að valda afar viðkvæmum hópi fólks óöryggi, kvíða og vanlíðan. 

Íslensk krabbameinsáætlun

Krabbameinsáætlun með skilgreindum markmiðum um forvarnir, greiningu, meðferð, endurhæfingu og líkn er lykilatriði í því að ná tilætluðum árangri í baráttunni gegn krabbameinum. Reynsla frá öðrum löndum staðfestir það.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn 5. maí 2018 ítrekar enn á ný áskoranir sínar til heilbrigðisyfirvalda um að ljúka þeirri vinnu sem hafin er við íslenska krabbameinsáætlun svo að stefnumótun og framkvæmd geti tekið mið af henni, tryggt framþróun og skapað stöðugleika til framtíðar. Krabbameinsfélag Íslands er tilbúið til að leggja yfirvöldum lið í þeirri vinnu.

Forvarnir gegn krabbameinum

Þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og nýleg könnun sýnir að 80% þjóðarinnar eiga nákominn ættingja eða vin sem greinst hefur með krabbamein. Staðreyndin er sú að hægt er að koma í veg fyrir fjölda krabbameina. Þar skipta heilbrigðir lífshættir mestu máli og því er mikilvægt að setja heilsueflandi og fyrirbyggjandi þætti í öndvegi í nærsamfélagi fólks. 

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn 5. maí 2018 skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir forvörnum gegn krabbameinum sem felast meðal annars í hvatningu til heilbrigðra lífshátta. Mikilvægt er að yfirvöld sýni frumkvæði og stuðli þannig að því að færri greinist með krabbamein, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands skorar á stjórnvöld að gefa lýðheilsu meira vægi með því meðal annars að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum og mötuneytum á vegum hins opinbera
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu 

Endurhæfing alla leið

Á hverju ári greinast um 1600 manns með krabbamein og þeim fer fjölgandi með hækkandi aldri þjóðarinnar. Á Íslandi eru í dag um 15.000 manns á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fjölgar stöðugt með batnandi greiningar- og meðferðarmöguleikum. Jafnframt lifa margir með aukaverkanir og fylgikvilla þungrar meðferðar eða krabbamein sem langvinnan sjúkdóm. Afar mikilvægt er að gera allt sem hægt er til að auka möguleika fólks á endurkomu til starfa og til að njóta sem mestra lífsgæða þrátt fyrir veikindi og afleiðingar þeirra.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn þann 5. maí 2018 skorar á heilbrigðisyfirvöld að hafa forgöngu um hugarfarsbreytingu í samfélaginu með því að að leggja fram stefnumótun og fjármagnaða aðgerðaráætlun varðandi endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein, allt frá greiningu. Þannig getur Ísland markað sér sess meðal þeirra þjóða sem eru fremstar á þessu sviði.

Skimun fyrir krabbameinum

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands fagnar umræðu um mikilvægi skimunar og fyrirkomulag hennar enda er afar brýnt að skimun sé hagað með þeim hætti að hún þjóni hagsmunum almennings best.

Félagið hvetur konur á aldrinum 23 til 69 ára til að mæta í skimun þegar þær fá boð um það, því þannig er hægt að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina.

Vinna þarf með öllum ráðum að því að auka þátttöku kvenna í skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og með skimun er hægt að greina sjúkdóminn snemma og draga þannig úr dauðsföllum. Með skimun fyrir leghálskrabbameini hefur tekist að lækka nýgengi og draga verulega úr dánartíðni af völdum þess.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn 5. maí 2018 skorar á stjórnvöld að gera lýðgrundaða skimun gjaldfrjálsa.

Krabbameinsfélagið hefur sinnt skimun fyrir krabbameinum áratugum saman með góðum árangri. Frá árinu 2013 hefur félagið sinnt verkefninu á grunni þjónustusamnings við Sjúkratryggingar Íslands sem framlengdur hefur verið til skamms tíma í einu. Slíkt fyrirkomulag skapar óvissu um framkvæmd skimunarinnar.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn 5. maí 2018 skorar á heilbrigðisyfirvöld að ganga þegar í stað til samninga við félagið um umsjón með lýðgrundaðri skimun til að minnsta kosti þriggja ára. Með því móti er unnt að vinna að aukinni þátttöku í skimun og framþróun hennar. Á meðan gefst stjórnvöldum gott tóm til ákvörðunar framtíðarfyrirkomulags skimunar fyrir krabbameinum í landinu.

Ávirðingum á hendur félaginu hafnað

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands 2018 hafnar alfarið ávirðingum á hendur félaginu sem fram komu í Kveik, fréttaskýringaþætti RÚV, þriðjudaginn 24. apríl síðastliðinn. 

Alvarlegastar eru endurteknar fullyrðingar um að misfarið hafi verið með fé frá hinu opinbera til krabbameinsskimunar. Með slíkum fullyrðingum er vegið að heilindum félagsins. Krabbameinsfélag Íslands vísar þessum fullyrðingum alfarið á bug enda eru þær alrangar eins og endurskoðaðir reikningar félagsins sýna.

Stjórnvöld hafa í langan tíma falið Krabbameinsfélagi Íslands að sjá um skimun fyrir krabbameinum með nákvæmum kröfum og þjónustusamningum. Allan þann tíma hafa eftirlitsaðilar ekki gert neinar athugasemdir við reikninga félagsins sem eru ávallt endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum, birtir á heimasíðu félagsins og sendir viðeigandi aðilum eins og samningar, lög og reglur kveða á um.


 

Adalfundur2018-allir


Fleiri nýjar fréttir

21. okt. 2021 : Fjölsótt málþing skorar á heil­brigðis­yfir­völd að setja brjósta­heilsu í for­gang

Málþing um brjóstakrabbamein fór fram miðvikudaginn 20. október að viðstöddu fjölmenni. Auk þess var fylgst með dagskránni í gegnum streymisveitu Krabbameinsfélagsins á ríflega 100 stöðum um land allt.

Lesa meira

21. okt. 2021 : Tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins

Nýverið birtist íslensk vísindagrein í American Journal of Epidemiology um áhrif vaxtarhraða á unglingsárunum á áhættuna að greinast með krabbamein í brjóstum og í blöðruhálskirtli síðar á ævinni.

Lesa meira

15. okt. 2021 : Bleiki dagurinn er í dag

Við finnum fyrir mikilli stemmningu í samfélaginu fyrir deginum og til að mynda hafa fjölmörg fyrirtæki komið við hjá okkur og keypt slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið.

Lesa meira

14. okt. 2021 : VERUM TIL - mál­þing um brjósta­krabba­mein

Bleikt málþing um brjóstakrabbamein fer fram miðvikudaginn 20. október kl. 17:00-18:15 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna,Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

14. okt. 2021 : Lífið breytir um lit

Bleikur október er runninn upp. Það er táknrænt að skipta um lit í október, í mánuðinum sem helgaður er krabbameinum hjá konum, því oftar en ekki er það líkast því að lífið skipti um lit þegar fólk greinist með krabbamein.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?