Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 31. jan. 2020

Tvöfalt fleiri konur í fyrstu skimun

Fjöldi þeirra kvenna sem þáði boð um fyrstu skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins tvöfaldaðist fyrstu níu mánuði ársins 2019 miðað við sama tímabil 2018. 

Árangurinn er afar ánægjulegur og langt fram úr væntingum. Svo virðist sem tilraunaverkefni sem félagið stóð fyrir eigi stóran þátt í þessari aukningu, en konum sem fá í fyrsta skipti boð í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini var boðin gjaldfrjáls skimun á árinu 2019. Félagið ákvað að ráðast í verkefnið vegna vísbendinga um að skoðunargjaldið hindri ákveðinn hóp kvenna í að nýta sér boðið. 

Með skimun fyrir leghálskrabbameini er nánast hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn, og með skimun fyrir brjóstakrabbameini er hægt að draga verulega úr dauðsföllum greinist meinið á byrjunarstigi.

Almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini milli áranna 2018 og 2019 um 14% og komum í skimun fyrir brjóstakrabbameinum fjölgaði um 24%. 

„Við þökkum þennan frábæra árangur einnig auglýsingum á samfélagsmiðlum og hvatningu til Vinkonuklúbbs Krabbameinsfélagsins, sem fær reglulega pósta með fræðslu og hvatningu um mætingu í skimun,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri á Leitarstöðinni. 

Almennt greiða konur 4.900 krónur fyrir leghálsskimun. Gjaldið er ákvarðað af stjórnvöldum. Tilraunin var alfarið fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu. 

Aldur skiptir máli 

Í könnun sem lögð var fyrir konurnar í tilraunaverkefninu kom fram að 95% þeirra kvenna sem eru í fyrsta sinn boðaðar í leghálsskimun, 23 ára, sögðu ókeypis skimun hafa hvatt þær til að mæta. Konur eru eldri þegar þær eru fyrst boðaðar í brjóstaskimun, eða 40 ára. 70% þeirra sögðu að gjaldfrjáls skimun hefði hvatt þær til að taka þátt. Þá sögðu 23% (82 konur) sem svöruðu könnuninni um leghálsskimun og 9% (29 konur) sem svöruðu um brjóstaskimun að þær hefðu ekki komið hefðu þær þurft að borga. 

Árangurinn af tilraunaverkefninu er mjög mikill, því tæplega tvöfalt fleiri 23ja ára konur, eða 664 hafa þegið boð um leghálsskimun á Leitarstöðinni á þessu ári (fram til 15.9) miðað við 346 í fyrra. Í brjóstaskimun hefur komum 40 ára kvenna á Leitarstöð fjölgað úr 407 í 774 á tímabilinu. Rannsóknir sýna að konur sem mæta í fyrsta sinn í skimun eru líklegri til að mæta reglulega eftir það þegar þær fá boð í skimun. 

„Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að kostnaður við skimunina skipti máli. Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimun verði gerð gjaldfrjáls, líkt og hún er í langflestum nágrannalöndunum, einkum til að tryggja jafnt aðgengi að skimun,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 

„Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún ætli að gera skimunina gjaldfrjálsa, og niðurstöður tilraunaverkefnisins eru á þá leið að það blasir við að það verði gert sem allra fyrst.“ 

Leitarstöðinni barst vegleg erfðagjöf frá Láru Vigfúsdóttur, sem gerir félaginu kleift að halda verkefninu áfram á árinu 2020.

Viltu vita hvenær þú komst síðast? 

Konur geta nú skoðað upplýsingar um boð og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Boð í skimun er sent í pósthólf viðkomandi og til stendur að niðurstöður skimana verði einnig birtar þar. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?