Sigurlaug Gissurardóttir 1. mar. 2016

Mottumars: Björgun á sjó og landi

  • Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í opnun Mottumars
    Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í opnun Mottumars

Mottumars, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum, er formlega hafið í tíunda sinn.

Fulltrúar Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi auk fulltrúa nokkurra félagasamtaka Kiwanis, Lions, Rotary, Oddfellow og fleiri fengu heimboð í varðskipið Þór á Faxaflóa í dag. Tilefnið var opnun Mottumars 2016 með afhendingu á björgunarboxi Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi til áhafna skipa SFS og félaga í klúbbum sem eru að stærstum hluta karlmenn. 

Skilaboð Mottumars 2016 eru að hvetja karlmenn til að vera vakandi fyrir einkennum krabbameins í blöðruhálskirtli. Kjörorð herferðarinnar í ár eru "Ekki farast úr karlmennsku. Lærðu að þekkja einkennin. Það er ekkert mál." Skilaboðunum er ætlað að vekja karlmenn til umhugsunar um að huga vel að eigin heilsu, hlusta á líkamann og harka ekki allt af sér heldur leita aðstoðar láti einkenni á sér kræla.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið meðal karla. Ár hvert greinast að meðaltali um 200 karlar með meinið. Meðalaldur við greiningu er um 70 ár en karlmenn þurfa að vera vakandi fyrir einkennum frá 50 ára aldri, eða fyrr ef fjölskyldusaga er um krabbameinið. 

Björgunarboxið getur bjargað mannslífum

Björgunarboxið inniheldur ný fræðslumyndbönd um einkenni, orsakir, greiningu og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli. Einnig fylgja stutt myndskeið þar sem þvagfæraskurðlæknar svara spurningum í stuttu máli. Að auki má finna í boxinu bæklinga og skilaboð til karla um almenn einkenni krabbameins og þær leiðir sem taldar eru geta komið í veg fyrir þriðja hvert krabbamein. 

"Leiðir til björgunar frá krabbameini eru fyrst og fremst árvekni og þekking á helstu einkennum og áhættuþáttum. En það er áskorun að gera slíka fræðslu áhugaverða og ná að koma henni til skila. Þess vegna höfum við unnið nýtt myndrænt fræðsluefni og komum því beint til margra þeirra sem við teljum að geti einna helst haft gagn af fræðslunni, eins og til dæmis áhöfnum skipa og félögum klúbba þar sem menn hittast reglulega. Allt fræðsluefni okkar er aðgengilegt á nýrri vefsíðu Krabbameinsfélagsins krabb.is og það sem tengist átakinu í ár er líka á mottumars.is. Ég hvet alla karlmenn til að gefa sér nokkrar mínútur til að bjarga sér með því að læra að þekkja einkenni krabbameins," - segir Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélagsins.  

SFS

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru aðalstyrktaraðili Mottumars og hafa að leiðarljósi að efla fræðslu og forvarnir og hvetja til heilbrigðra lífshátta meðal starfsmanna fyrirtækja samtakanna.

Landhelgisgæslan og Mottumars

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa undanfarin ár sett mikinn svip á Mottumars.  Starfsmenn gæslunnar söfnuðu áheitum í Mottukeppninni 2014 og heiðruðu minningu góðs vinar og samstarfsfélaga, Vilhjálms Óla Valssonar - Villa, stýrimanns og sigmanns hjá Landhelgisgæslunni, sem lést þann 30.mars 2013 eftir stranga baráttu við krabbamein, 41 árs að aldri.  Villi varð sigurvegari Mottumars árið 2013 og safnaði hann áheitum fram á síðasta dag.

"Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er málefnið kært og skylt og við minnumst margra samstarfsfélaga og vina sem fallið hafa fyrir þessum skæða sjúkdómi. Okkar skilaboð til karlmanna er að við höfum allir á okkar valdi að bjarga okkur sjálfir með læra að þekkja einkenni krabbameins og lifa heilbrigðu lífi," - segir Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra varðskipsins Þórs. 

Mottukeppnin haldin í síðasta sinn en Mottumars lifir áfram

Krabbameinsfélagið, SFS og Landhelgisgæslan hvetja alla karlmenn til að rækta mottuna í sjöunda og síðasta sinn og taka þátt í Mottumars.

Hægt er að leggja málefninu lið með því að heita á keppendur í Mottukeppninni, gerast velunnari með mánaðarlegu framlagi, hringja eða senda SMS í styrktarnúmer eða kaupa Mottuvörur í vefverslun Krabbameinsfélagsins. 

Upp með motturnar!

Á vefsíðunni mottumars.is eru upplýsingar um átakið og einnig er þar margvíslegt fræðsluefni um karla og krabbamein.  Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins veitir ráðgjöf í síma 800 4040 alla virka daga. 


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?