Ása Sigríður Þórisdóttir 15. okt. 2023

Krabbameinsfélagið - samstaðan tryggir metnaðarfullt og fjölbreytt starf

Grein birtist á Visir.is 13. október 2023.

Að greinast með krabbamein er ein stærsta áskorunin í lífi fólks. Í kringum hvern sem veikist má gera ráð fyrir að séu að minnsta kosti tíu aðstandendur og í ljósi þess að í dag eru á lífi um 17.500 einstaklingar sem fengið hafa krabbamein jafngildir það því að krabbamein séu í nánasta umhverfi hálfrar þjóðarinnar. Þá er ótalinn sá mikli fjöldi fólks sem hefur misst ástvini úr krabbameinum.

Í októbermánuði ár hvert stendur Krabbameinsfélagið fyrir árvekni- og fjáröflunarátakinu Bleiku slaufunni til að vekja athygli á krabbameini hjá konum. Slaufan og bleikur október hefur að minnsta kosti þríþætta þýðingu í samfélaginu; þær konur sem hafa fengið krabbamein finna og sjá samstöðu og stuðning, fólk fær tækifæri til að styðja málstaðinn og leggja sitt af mörkum og Krabbameinsfélagið, sem er alfarið rekið fyrir styrki frá almenningi og fyrirtækjum, safnar fé. Í Bleiku slaufunni safnar félagið stórum hluta síns rekstrarfjármagns sem það nýtir til fjölbreyttrar starfsemi félagsins. Starfsemin miðar öll að því að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, að fjölga þeim sem lifa af og bæta líf þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra.

Picture1_1697390789692

Sambærilegt átak, Mottumars, fer fram í marsmánuði til að vekja athygli á krabbameini hjá karlmönnum.

Krabbameinsfélagið er 72 ára og hefur frá upphafi beitt sér gegn krabbameinum með margvíslegum hætti. Þrátt fyrir miklar framfarir fer áskorununum ekki fækkandi.

Á næstu árum mun krabbameinstilfellum hér á landi fjölga mjög mikið í takt við aukna fólksfjölgun og að þjóðin eldist og því er spáð að tilvikum fjölgi um 52% úr 1854 tilvikum á ári í dag, í 2800 tilvik árið 2040. Því fylgja stór og krefjandi verkefni fyrir samfélagið allt. Til að árangur verði eins góður og mögulegt er þarf bæði metnaðarfullar og fjölþættar aðgerðir.

Til þess að takast á við óvininn þarf að þekkja hann.

Vísinda- og rannsóknarstarfsemi er nauðsynleg forsenda þess að árangur náist. Sérfræðingar Krabbameinsfélagsins vinna fjölda rannsókna, bæði innnlendar og fjölþjóðlegar, sem margar byggja á krabbameinsskrá, sem félagið rekur fyrir embætti landlæknis. Skráin skapar þekkingu um orsakir og eðli krabbameina og er meðal annars grunnur að faraldsfræðirannsóknum hér á landi. Stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins var bylting í íslenskum krabbameinsrannsóknum þegar hann var stofnaður og úr honum hafa 47 íslenskar krabbameinsrannsóknir hlotið 455,5 milljónir í styrki. Vísindastarf, grunnrannsóknir, klínískar rannsóknir og faraldsfræðilegar rannsóknir eru forsenda framfara.

Þekkingu um krabbamein þarf að miðla út í samfélagið. Krabbamein snerta flesta í samfélaginu og mikilvægt er að fólk þekki einkenni, áhættuþætti, hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á að fá krabbamein og hvað hægt er að gera til að bæta líðan sína og annarra í tengslum við krabbamein. Margir þættir spila inn í; mataræði, hreyfing, svefn, hugrænir og tilfinningalegir þættir og svo má lengi telja. Fræðslu- og forvarnarstarfsemi félagsins fer fram með fræðsluerindum, málþingum, ráðstefnum og námskeiðum auk þess sem fjölbreytt fræðsluefni er aðgengilegt á heimasíðum félagsins, samfélagsmiðlum og í margs konar útgefnu efni.

Fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra býður Krabbameinsfélagið ókeypis ráðgjöf og stuðning. Sjö fagaðilar; sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar (einn pólskumælandi) eru til taks fyrir fólk sem þarf að takast á við nýjar aðstæður og læra að lifa með afleiðingum veikinda og meðferðar til skemmri og lengri tíma. Sjálfboðaliðar sem hafa hlotið sérstaka þjálfun eru tilbúnir til að veita stuðning fólki í svipaðri stöðu. Félagið stendur einnig fyrir viðburðum sem einkennast af samhug, samkennd og samstöðu. Með hagsmunagæslu félagsins er meðal annars unnið að bættum aðstæðum og réttindum og að greining og meðferð sé eins og best gerist.

Bleika slaufan og bleikur október er stór liður í starfi Krabbameinsfélagsins og baráttunni gegn krabbameinum hér á landi.

Allur ágóði Bleiku slaufunnar rennur til fjölbreyttar starfsemi Krabbameinsfélagins svo hægt sé að vera til staðar fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur, sinna öflugri fræðslu og forvörnum og stunda rannsóknir. Þannig næst betri árangur í baráttunni gegn krabbameinum.

Bleika slaufan fæst í öllum helstu verslunum og í vefverslun Krabbameinsfélagsins.

Nánari upplýsingar um starf Krabbameinsfélagsins má finna á www.krabb.iswww.bleikaslaufan.iswww.mottumars.iswww.karlaklefinn.iswww.styrkleikarnir.is


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?