Anna Margrét Björnsdóttir 14. ágú. 2023

Kökusamsæti til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þann 28. júlí síðastliðinn hefði Sesselja Ásgeirsdóttir orðið 91 árs og í minningu hennar ákvað Einar Ólafsson, sonur hennar, að efna til kökusamsætis í garðinum heima hjá sér. Tekið var við frjálsum framlögum sem runnu óskipt til Krabbameinsfélagsins.

Einar Ólafsson lýsir móður sinni sem hæglátri og hjartahlýrri konu sem kvartaði sjaldan og opnaði gjarnan heimili sitt fyrir fólki. „Það fór lítið fyrir henni, en hjartað var hins vegar stórt. Hún tók öllum vel, hvort sem það voru krakkar sem við systkinin komum með heim eða drykkjumenn. Þeir vissu að þeim yrði ekki vísað á dyr hjá henni Sellu. Svona var mamma.“

Einari fannst því vel við hæfi að hafa viðburðinn opinn gestum og gangandi. „Það er gamall íslenskur siður að bjóða fólki inn og gefa öllum að borða, og algjörlega í anda mömmu. Svo ég bauð bara öllum sem ég þekkti og auglýsti líka opið hús. Mestmegnis var þetta fólk sem ég þekkti en ein ókunnug kona kom bara inn af götunni. Hún var sjálf nýbúin að klára krabbameinsmeðferð og langaði til að taka þátt.“

Hinsta kveðjan

Sesselja lést úr lungnakrabbameini fyrir þrjátíu árum síðan, á meðan Einar lærði arkítektúr í Bandaríkjunum. „Ég vissi ekki um miðjan ágúst þegar ég fór út til náms að við myndum ekki sjást aftur, en ég man að mér fannst hún standa á tröppunum og veifa óvenju lengi á eftir bílnum. Seinna áttaði ég mig á því að þetta var hinsta kveðjan.“

Einar hefur misst fleiri skyldmenni úr krabbameini, en systir hans dó einnig úr lungnakrabbameini og bróðir hans eftir að hafa fengið heilaæxli. Málefnið er Einari því mjög skylt og ásamt félaga sínum, Óskari Páli Sveinssyni, hefur hann einnig tvisvar sinnum staðið fyrir áheitasöfnun fyrir Ljósið. „Við höfum kallað þetta Gengið í ljósið, en við erum á gönguskíðum í heilan sólarhring á lengsta degi ársins.“

Þykir gaman að baka

Æska Einars og uppeldi einkenndist af ást, umhyggju og mat, eins og hann orðar það sjálfur. „Það voru alltaf til snúðar, pönnukökur, alls konar formkökur og súkkulaðikökur. Stundum Dísudraumur og brauðterta.“ Bestu dagarnir í eldhúsinu voru síðan dagarnir eftir að saumaklúbbur hafði staðið yfir. „Seinna um kvöldið læddumst við upp stigann, skutumst inn í eldhús og gæddum okkur á afgangsveitingunum.“

Það þarf því engan að undra að Einar hafi að mestu séð um að töfra fram veitingarnar fyrir kaffisamsætið. „Mér finnst gaman að baka eins og ég á kyn til og þetta voru einhverjar 15 sortir sem ég bakaði flestar sjálfur. Það mættu um 50 manns í samsætið og veðrið lék við okkur.“ Veitingarnar voru eins og áður sagði í boði hússins, en tekið var við frjálsum framlögum og söfnuðust rúmlega 160.000 krónur til styrktar Krabbameinsfélaginu. Félagið þakkar hlýhuginn og óskar Einari til hamingju með velheppnaðan viðburð.

Test


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?