Anna Margrét Björnsdóttir 14. ágú. 2023

Kökusamsæti til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þann 28. júlí síðastliðinn hefði Sesselja Ásgeirsdóttir orðið 91 árs og í minningu hennar ákvað Einar Ólafsson, sonur hennar, að efna til kökusamsætis í garðinum heima hjá sér. Tekið var við frjálsum framlögum sem runnu óskipt til Krabbameinsfélagsins.

Einar Ólafsson lýsir móður sinni sem hæglátri og hjartahlýrri konu sem kvartaði sjaldan og opnaði gjarnan heimili sitt fyrir fólki. „Það fór lítið fyrir henni, en hjartað var hins vegar stórt. Hún tók öllum vel, hvort sem það voru krakkar sem við systkinin komum með heim eða drykkjumenn. Þeir vissu að þeim yrði ekki vísað á dyr hjá henni Sellu. Svona var mamma.“

Einari fannst því vel við hæfi að hafa viðburðinn opinn gestum og gangandi. „Það er gamall íslenskur siður að bjóða fólki inn og gefa öllum að borða, og algjörlega í anda mömmu. Svo ég bauð bara öllum sem ég þekkti og auglýsti líka opið hús. Mestmegnis var þetta fólk sem ég þekkti en ein ókunnug kona kom bara inn af götunni. Hún var sjálf nýbúin að klára krabbameinsmeðferð og langaði til að taka þátt.“

Hinsta kveðjan

Sesselja lést úr lungnakrabbameini fyrir þrjátíu árum síðan, á meðan Einar lærði arkítektúr í Bandaríkjunum. „Ég vissi ekki um miðjan ágúst þegar ég fór út til náms að við myndum ekki sjást aftur, en ég man að mér fannst hún standa á tröppunum og veifa óvenju lengi á eftir bílnum. Seinna áttaði ég mig á því að þetta var hinsta kveðjan.“

Einar hefur misst fleiri skyldmenni úr krabbameini, en systir hans dó einnig úr lungnakrabbameini og bróðir hans eftir að hafa fengið heilaæxli. Málefnið er Einari því mjög skylt og ásamt félaga sínum, Óskari Páli Sveinssyni, hefur hann einnig tvisvar sinnum staðið fyrir áheitasöfnun fyrir Ljósið. „Við höfum kallað þetta Gengið í ljósið, en við erum á gönguskíðum í heilan sólarhring á lengsta degi ársins.“

Þykir gaman að baka

Æska Einars og uppeldi einkenndist af ást, umhyggju og mat, eins og hann orðar það sjálfur. „Það voru alltaf til snúðar, pönnukökur, alls konar formkökur og súkkulaðikökur. Stundum Dísudraumur og brauðterta.“ Bestu dagarnir í eldhúsinu voru síðan dagarnir eftir að saumaklúbbur hafði staðið yfir. „Seinna um kvöldið læddumst við upp stigann, skutumst inn í eldhús og gæddum okkur á afgangsveitingunum.“

Það þarf því engan að undra að Einar hafi að mestu séð um að töfra fram veitingarnar fyrir kaffisamsætið. „Mér finnst gaman að baka eins og ég á kyn til og þetta voru einhverjar 15 sortir sem ég bakaði flestar sjálfur. Það mættu um 50 manns í samsætið og veðrið lék við okkur.“ Veitingarnar voru eins og áður sagði í boði hússins, en tekið var við frjálsum framlögum og söfnuðust rúmlega 160.000 krónur til styrktar Krabbameinsfélaginu. Félagið þakkar hlýhuginn og óskar Einari til hamingju með velheppnaðan viðburð.

Test


Fleiri nýjar fréttir

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?