Anna Margrét Björnsdóttir 9. okt. 2023

Frábærar viðtökur og Bleika slaufan að seljast upp

Verum bleik – fyrir okkur öll eru skilaboð Krabbameinsfélagsins í Bleiku slaufunni í ár. Þjóðin hefur sannarlega tekið Bleiku slaufuna upp á sína arma, það sjáum við ár eftir ár og erum alltaf jafn hrærð og þakklát yfir viðtökunum sem í ár hafa verið ótrúlega góðar. Nú er svo komið að Bleika slaufan er víða að seljast upp og hver að verða síðastur að næla sér í eintak.

Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu segist sannfærður um að áherslan á stuðning og samstöðu sem Bleika slaufan stendur fyrir í ár skili sér í viðtökunum við slaufunni. „Það að upplifa stuðning samfélagsins skiptir þá sem eru veikir og aðstandendur þeirra mjög miklu máli og það að sjá samstöðuna í verki með því að sjá fólk bera slaufuna gerir ennþá meira.“

„Það er okkur hjá Krabbameinsfélaginu alveg augljóst miðað við viðtökurnar að öll viljum við vera bleik, fyrir okkur öll,“ segir Árni Reynir. „Við erum að sjá aukinn áhuga í mjög mörgu tilliti, til dæmis í fjölda samstarfsaðila sem vilja leggja átakinu lið, eða þeim fyrirtækjum sem óska eftir fræðsluerindum fyrir sitt starfsfólk. Þessi áhugi þarf ekki að koma okkur á óvart í ljósi þess að einn af hverjum þremur getur reiknað með því að fá krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og meirihluti hinna eru aðstandendur, margir oftar en einu sinni.“

Þakklæti efst í huga

Þessar frábæru viðtökur eru afskaplega þýðingarmiklar fyrir félagið. Að meðaltali greinast 916 konur með krabbamein á ári og á lífi eru 9.586 konur sem hafa fengið krabbamein. Þrátt fyrir miklar framfarir deyja enn um 303 konur á ári úr krabbameinum. Áskoranirnar framundan hljóða upp á 52% fjölgun nýrra krabbameinstilfella til ársins 2040. Slík aukning, sem er fyrst og fremst vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, hefur í för með sér mikla aukningu í þjónustuþörf.

Þeim sem nýttu ókeypis ráðgjöf sérfræðinga Krabbameinsfélagsins fjölgaði um 10% á milli 2021 og 2022 og 600 nýir skjólstæðingar hafa leitað til félagsins það sem af er þessu ári. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir söfnunarfé og stuðningur við félagið skilar sér í öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi, endurgjaldslausum stuðningi við fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra, til vísinda og krabbameinsrannsókna, og gerir félaginu kleift að sinna hagsmunagæslu af heilindum og í virku samtali við alla hlutaðeigandi.

„Við erum fyrst og fremst ótrúlega hrærð og langar að koma á framfæri þökkum til allra sem taka undir með félaginu í átakinu, hvort sem er með kaupum á Bleiku slaufunni eða með öðrum hætti,“ segir Árni Reynir. „Svona viðtökur veita okkur byr undir báða vængi og hvetja okkur til að stefna alltaf hærra, með það að markmiði að ná enn betri árangri. Þótt slaufan sé að verða uppseld er átakið rétt hálfnað og enn hægt að leggja því lið með margvíslegum hætti. Svo má ekki gleyma því að Bleiki dagurinn er enn framundan, en samstaðan er aldrei jafn áþreifanleg í samfélaginu eins og á Bleika deginum. Það er dagurinn til að klæðast bleiku, gæða sér á bleikum veitingum, halda bleikt boð og fylla alla samfélagsmiðla af bleiku. Verum bleik – fyrir okkur öll.“ 


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?