Ása Sigríður Þórisdóttir 9. okt. 2023

Enginn faraldur krabbameina hjá ungu fólki á Íslandi

Höfundar: Sérfræðingar á Rannsókna- og skáningarsetri Krabbameinsfélags Íslands.

Aukn­ing í ný­gengi krabba­meina hjá ungu fólki mæl­ist minni á Norð­ur­lönd­um held­ur en á heimsvísu. Sér­fræð­ing­ar á Rann­sókna- og skrán­ing­ar­setri Krabba­meins­fé­lags Ís­lands rýna hér í töl­urn­ar.

Nýlega var birt grein í BMJ Oncology eftir Zhao og meðhöfunda sem lýsti á heimsvísu 80% aukningu á nýgengi krabbameina hjá einstaklingum á aldrinum 15-49 ára á árunum 1990-2019. Þegar nánar er rýnt í greinina kemur fram að eins mikla aukningu í nýgengi krabbameina er ekki að sjá á Norðurlöndunum.

Með hjálp NORDCAN gagnagrunnsins , sem er opinn öllum og birtir tölfræði um krabbamein á Norðurlöndunum, höfum við reiknað út nýgengi krabbameina á Íslandi í aldurshópnum 15-49 ára og borið saman við hin Norðurlöndin. Þegar skoðað er nýgengi allra greindra krabbameina í aldurshópnum 15-49 ára á árunum 1990-2021 (Mynd 1) sést að nýgengi krabbameina er algengara hjá konum en körlum í þessum aldurshópi, sem skýrist aðallega af því hversu margar konur greinast árlega með brjóstakrabbamein.

Fimm algengustu krabbamein hjá þeim 132 konum á aldrinum 15-49 ára sem greindust árlega á Íslandi (meðaltal áranna 2018-2022) eru brjóstakrabbamein, 50 talsins, ristil- og endaþarmskrabbamein, 10 talsins, krabbamein í heila og miðtaugakerfi, 9 talsins, leghálskrabbamein, 9 talsins og sortuæxli í húð, 8 talsins.

Til samanburðar greindist árlega að meðaltali 71 karlmaður á aldrinum 15–49 ára með krabbamein á Íslandi og voru algengustu meinin eistnakrabbamein, 10 talsins, ristil- og endaþarmskrabbamein, 8 talsins, krabbamein í heila og miðtaugakerfi, 8 talsins, eitilfrumuæxli (Non-Hodgkins), 5 talsins, nýrnakrabbamein, 4 talsins og sortuæxli í húð, 4 talsins.

Við sjáum einnig á myndinni að aukning varð í aldursstöðluðu nýgengi krabbameina hjá konum á Íslandi á árunum 1990 -2021 sem nam 36% en hjá karlmönnum hefur orðið um 5% lækkun. Aukningin í nýgengi hjá konum sést aðallega á árunum fram til aldamóta en hefur lítið breyst eftir það. Svipar það mjög til þeirrar þróunar á nýgengi sem orðið hefur á Norðurlöndunum öllum en er mun lægri en það sem Zhao og meðhöfundar lýstu á heimsvísu. Ein ástæða minni aukningar er að dregið hefur mjög úr reykingum á Norðurlöndunum og þar með hætti nýgengi reykingatengdra meina að aukast sem sést vel hjá yngra fólki. Ekki hefur verið sama góða þróun á þessu sviði í öllum löndum heims.

Graf-helgiMynd 1: Nýgengi og dánartíðni krabbameina hjá körlum og konum, á aldrinum 15-49 ára, á Íslandi og öllum Norðurlöndunum, árin 1990-2021, skilgreint sem fjöldi tilfella á hverja 100.000 íbúa. Notaður er Norrænn aldursstaðall og sléttun milli ára.

Ef skoðuð er dánartíðni fyrir sama aldurshóp og greiningartímabil (Mynd 1) sjáum við lækkun í dánartíðni krabbameina hjá konum á Íslandi, sem var 41 tilfelli á hverja 100.000 íbúa (Norrænn aldursstaðall og sléttun milli ára) árið 1990 en 23 tilfelli á hverja 100.000 íbúa árið 2021. Dánartíðni hefur því lækkað um 44%. Hjá karlmönnum er lækkun á dánartíðni um 51%. Þessi þróun er mjög svipuð og á Norðurlöndunum í heild.

Samantekið er ekki að sjá að neinn faraldur hafi orðið í aukningu krabbameina hjá ungu fólki síðustu þrjá áratugina á Norðurlöndunum að Íslandi meðtöldu sem er ólíkt því sem lýst hefur verið á heimsvísu. Á þessum tíma hefur fjöldi krabbameinstilfella aukist mikið á Íslandi en það skýrist fyrst og fremst af fjölgun einstaklinga í eldri aldurshópum þar sem krabbameinsáhætta er mun meiri.

Lækkandi dánartíðni gefur til kynna framfarir í greiningu og meðferð krabbameina á Íslandi.

Mikilvægt er að hvetja áfram til heilsusamlegs lífernis sem minnkar krabbameinsáhættu og að auka þátttöku kvenna í skimun sem greinir brjósta- og leghálskrabbamein á lægri og læknanlegri stigum.

 


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?