Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. maí 2018

Bjargið Íslendingi

Loksins er veturinn liðinn og flest hlökkum við til að sjá meira af Sólinni. Hún er uppspretta alls lífs og 15-20 mínútna sólbað hefur góð áhrif á sálarlífið og hleður okkur upp af lífsnauðsynlegu D-vítamíni.

Sólbit

Flestir vita að það ber að varast sólina milli klukkan 11.00-15.00, sérstaklega á suðlægum slóðum. Þá er best að sitja í skugga. Heimamaður á lítilli eyju á suðlægum slóðum gaf sig á tal við þann sem þetta skrifar fyrir mörgum árum. „Hvers vegna vegna situr þú ekki í skugganum, ungi maður?“ Ég svaraði: „Sólin er sterkust núna og ég ætla bara að sóla stutt og svo ekkert meira í dag.“ Maðurinn horfði á mig og hristi höfuðið. „Færðu þig í skuggann, vinur. Sólin bítur á þessum tíma dags.“

Sólvit

Það er ekki óalgengt að fólk (ekki síst karlfólk) sem býr á norðlægum slóðum hugsi eins og ég gerði þarna um árið. Danska krabbameinsfélagið gerir stólpagrín að þessari hegðun í herferð þar sem innfæddir sólarlandabúar eru hvattir til að „bjarga Dana“ (e. help a Dane). Þessi gálgahúmor hefur grafalvarlegan undirtón, forvörn gegn húðkrabbameini. Það er beinlínis hættulegt að steikja sig í stuttan tíma, þegar sólin er sem sterkust og nota morgnana til að geta sofið út og eftirmiðdagana í eitthvað annað.

Sólvörn

Verið aldrei í sólinni án þess að nota sólvarnaráburð með sólvarnarstuðli 30 (SPF30), eða hærri ef húðin er mjög hvít. Notið sólgleraugu sem verja augun fyrir svokölluðum UVR-geislum. Notið sólvarnaráburð og sólgleraugu, jafnvel þó þið sitjið í skugga. Skugginn ver okkur ekki fyrir endurvarpi geisla frá vatni eða ljósum sandi. Berið á ykkur sólvarnaráburð með 2-3 tíma millibili. Notið líka léttan klæðnað og höfuðföt og sterkari sólvörn á viðkvæm svæði eins og varir, eyru og nef. Notið aldrei sólvarnaráburð sem aðalvörn til að geta verið sem lengst í sólinni. Sólvarnaráburðurinn ver okkur ekki fyrir vissum hættulegum geislum sólarinnar þó hann komi í veg fyrir sólbruna.

Ljósabekkir

Sumir halda að þeir geti undirbúið húðina fyrir sólböðin með því að fara nokkrum sinnum í ljósabekki áður en farið er í sólina. Þetta er rangt. Það ver ekki húðina fyrir skaðlegum sólargeislum þó hún sé brún eftir ljósabekkjanotkun.

Sólskinsbörn

Það er afar mikilvægt að verja börnin okkar fyrir skaðlegum bruna. Berum vel og reglulega á þau sterkan sólvarnaráburð. Haldið þeim í skugga milli 11.00-15.00 og klæðið þau í létt hlífðarföt. Börn sem eru sex mánaða og yngri eiga alltaf að vera í skugga.

Ásgeir R. Helgason

fræðslufulltrúi Krabbameinsfélagsins

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi .


Fleiri nýjar fréttir

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?