Ása Sigríður Þórisdóttir 3. júl. 2023

Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Hreinlæti

Hreinlæti við meðhöndlun matvæla er grundvallaratriði. Mikilvægt er að þvo hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og tryggja að öll áhöld sem notuð eru séu hrein. Meðhöndlun kjöts ætti að miðast við að í því geti leynst sjúkdómsvaldandi bakteríur. Bakteríur geta borist milli matvæla ef ekki er rétt farið að, til dæmis úr hráum mat yfir í mat sem er tilbúinn til neyslu. Þannig geta bakteríurnar borist ofan í þann sem borðar matinn.

Sérstaklega þarf að passa að kjötsafi eða blóð úr hráu kjöti berist ekki í fulleldað kjöt. Best er því að nota tvö sett af ílátum og áhöldum, annars vegar fyrir hrátt kjöt og hins vegar fyrir fulleldaðan mat. Ef blóðvökvi hefur lekið frá kjöti er best að þurrka hann upp með eldhúspappír. Ef borðtuska er notuð þarf að þvo hana áður en hún er notuð aftur. Mengun úr hráu kjöti í hrávöru eins og grænmeti getur haft alvarlegar afleiðingar. Notið því sérstakt skurðarbretti og áhöld fyrir grænmeti. Á heilum kjötstykkjum eru bakteríur fyrst og fremst á yfirborði. Þær drepast því fljótt við grillun þó kjöt sé ekki gegnumsteikt. Hins vegar er alltaf mikilvægt að gegnumsteikja fuglakjöt og svínakjöt og hakkað kjöt sömuleiðis. Þegar kjöt er hakkað berast bakteríur frá yfirborði þess um allt kjötið og þess vegna er einnig nauðsynlegt að gegnsteikja hamborgara og aðra rétti úr hakki. En um leið og það er mikilvægt að gegnumsteikja fuglakjöt og hakkað kjöt (hamborgara) þarf að passa að ekkert brenni.

Við grillið

Við grillun er mikilvægt að gefa sér góðan tíma og varast skal að láta loga leika um matinn. Fita frá kjöti eða marineringu á það til að drjúpa niður og lendi fitan í eldinum myndast reykur með tjöruefnum sem sest á kjötið. Hægt er að forðast að fita drjúpi niður í eldinn með því að setja álpappír undir matinn eða velja marineringu án olíu. Ef logar undir matnum er mikilvægt að færa hann frá loganum. Brenni yfirborð matarins spillir það bragðinu og þá geta skaðleg efni myndast sem geta leitt til krabbameins í ristli og endaþarmi. Því er mikilvægt að skera frá alla brennda hluta af kjöti áður en þess er neytt. Þetta á bæði við um mat sem grillaður er yfir gasi og á kolagrilli.

Ef kjöt er grillað við háan hita og það nær að kolast, þá myndast efnasambönd sem geta verið stökkbreytandi þegar þeirra er svo neytt. Þessi efnasambönd eru m.a. fjölhringja sambönd sem myndast við bruna á amínósýrum (prótein), kreatíni og öðrum efnum sem finnast í vöðvum. Fjölhringja sambönd myndast sérstaklega þegar kjöt eða kjötvörur eru látnar sitja lengi á grillinu við háan hita. Það fer svo eftir því hversu lengi kjötið er á grillinu og hversu hár hitinn er, hve mikið magn af þessum efnum myndast. Einnig virðist skipta máli hvað er grillað en þegar sjávarfang eða grænmeti brennur á grillinu, þá myndast mun minna af þessum efnum en þegar kjöt kolast. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að þessi efni geti valdið krabbameini og þá sérstaklega í ristli, eins og áður sagði.

Hvað er best að fari á grillið?

 • Notið magurri kjötvörur frekar en feitari.

 • Notið fisk frekar en aðrar próteinvörur.

 • Prófið ykkur áfram með grænmeti því þó grænmeti brenni þá myndast nánast ekkert af ofangreindum efnasamböndum.

Hvernig skal hafa matinn til?

 • Marinerið kjötvörur áður en þið grillið. Þó að marinerað sé einungis rétt áður en grillað er minnkar það til muna líkurnar á því að þessi fjölhringja efnasambönd myndist (kjötið brennur síður).

 • Reynið að hafa kjötið í smáum sneiðum því smærri sneiðar og þynnri á grillið þýða minni tíma á grillinu.

 • Gott getur verið að “loka” kjötinu með því að grilla það í smástund en færa það svo inn í ofn og ljúka elduninni með aðstoð kjöthitamælis.

Hvernig skal grilla?

 • Ef valið stendur milli gas- eða kolagrills, þá er betra að velja gasgrill því hitanum er betur stjórnað á gasgrilli.

 • Ef nota skal kolagrill, þá er best að nota minna frekar en meira af kolum. Minna kolamagn þýðir minni hiti.

 • Grillið við mest 180°C. Ef hitinn á grillinu fer yfir 210°C þá eykst hættan á myndun ofangreindra efna.

 • Reynið að láta ekki loga í matnum. Ágæt aðferð er að hafa kolin ekki beint undir matnum heldur t.d. hægra megin í grillinu og matinn þá vinstra megin.

 • Látið matinn ekki brenna. Grillið kjötið ekki of stutt en ekki heldur of lengi. “Medium” til “Medium-well” er ákjósanlegt til að minnka myndun efnanna.

Að lokum

 • Skerið kolaða/brennda hluta ávallt í burtu. Svartir bitar innihalda langmest magn þessara fjölhringja efnasambanda.

 • Borðið kjöt í hæfilegu magni og fáið ykkur því meira grænmeti (munið að lítið sem ekkert efnanna myndast við að grilla grænmeti).

 • Grillum ekki yfir logandi kolum, bíðum þar til eldurinn slokknar og kolin glóa.

 • Gætum þess að hakkað kjöt (hamborgarar) og fuglakjöt sé gegnumsteikt.

 • Látum hráan kjötsafa ekki berast á mat tilbúinn til neyslu.

 • Látum kjötið ekki brenna.

 • Látum fitu ekki leka niður á kolin.


Fleiri nýir pistlar

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

1. des. 2022 : Jólamolar Krabbameinsfélagsins

Njótum aðventunnar og jólanna, höfum það notalegt og hlúum að okkur. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

21. mar. 2022 : Hvað borða Íslendingar og hvernig fer það saman við ráðleggingar um mataræði til að draga úr líkum á krabbameinum?

Ný landskönnun sýnir að á 10 árum hefur mataræði landsmanna tekið breytingum sem sumar eru jákvæðar á meðan annað mætti bæta. 

Lesa meira