Ása Sigríður Þórisdóttir 5. júl. 2023

Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

En hvað með þá ófáu íslensku sumardaga þegar hitinn nær ekki tveggja stafa tölu, það blæs hressilega og himininn er alskýjaður? Þarf þá ekki bara helst að huga að því að klæða af sér sumarkuldann til að forkelast ekki, varla þarf að hafa áhyggjur af sólargeislum enda virðist þeim meinaður aðgangur þessa daga?

Ójú kæri lesandi. Ekki láta blekkjast þó blási nokkuð kalt og sólina sé hvergi að sjá. Staðreyndin er sú að allt að 80% sólargeislunar getur borist í gegnum ský. Yfir sumarmánuðina, þegar sólin er hæst á lofti er því sannarlega hægt að sólbrenna á Íslandi þrátt fyrir skýjahulu.

Hérlendis ætti að huga að sólarvörnum frá miðjum apríl og fram í september, þá er sólin sterkust og hætta á sólbruna, líka þegar skýjað er. Hugum sérstaklega vel að börnum því þau eru með viðkvæmari húð en fullorðnir.

Útfjólublá geislun sólar getur valdið skemmdum á húð sem auka líkur á húðkrabbameinum ásamt því að ýta undir öldrun húðarinnar.

Verum skynsöm í sólinni – líka þegar hún felur sig á bakvið skýin.


Fleiri nýir pistlar

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira

1. des. 2022 : Jólamolar Krabbameinsfélagsins

Njótum aðventunnar og jólanna, höfum það notalegt og hlúum að okkur. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

21. mar. 2022 : Hvað borða Íslendingar og hvernig fer það saman við ráðleggingar um mataræði til að draga úr líkum á krabbameinum?

Ný landskönnun sýnir að á 10 árum hefur mataræði landsmanna tekið breytingum sem sumar eru jákvæðar á meðan annað mætti bæta. 

Lesa meira