Birna Þórisdóttir 28. maí 2019

Hagnýt ráð í sólinni

Útfjólublá geislun sólar getur valdið margvíslegum skaða og eykur hættu á húðkrabbameini. Á Íslandi er sólin sterkust í júní og júlí en huga þarf að sólarvörnum frá miðjum apríl og fram í seinnipart september. Þessa dagana er sólin sterk og mikilvægt að verja sig.

Hvenær er sólin sterkust?

Um hásumar
Á Íslandi er sólin sterkust í júní og júlí en huga þarf að sólarvörnum frá miðjum apríl og fram í seinnipart september.

Um miðjan daginn
Á Íslandi er sólin sterkust klukkan rúmlega 13 og stór hluti varasamrar geislunar dagsins á sér stað milli klukkan 10 og rúmlega 16.

Ekki láta blekkjast af skýjuðum himni
Allt að 80% af útfjólublárri geislun sólar berst í gegnum ský.

Geislun til fjalla
Útfjólublá geislun eykst með aukinni hæð yfir sjávarmáli.

Mundu eftir endurkastinu frá vatni, sandi og snjó
Sem dæmi má nefna að snjór endurkastar allt að 85% af útfjólublárri geislun. Endurkastið getur skaðað húðina jafnmikið og bein geislun.

Kíktu á UV-stuðulinn
UV-stuðullinn er mælikvarði á magn útfjólublárrar geislunar. Veðurstofa Íslands birtir spágildi fyrir UV-stuðul í Reykjavík á hverjum degi. Þar sést m.a. sveifla UV-stuðuls frá morgni til kvölds. Einnig birta Geislavarnir ríkisins UV-stuðul í Reykjavík og á Egilsstöðum í kringum hádegi á hverjum degi. Verja þarf húðina sé UV-stuðullinn 3 eða hærri og fyrir ljósa og viðkvæma húð frá UV 2.

Hvernig ver ég mig?

Skuggi
Sækjum í skugga þegar sólin er sterkust. Athugum að oft kemst talsverð sól gegnum skugga, t.d. af trjám, og ekki er nóg að hluti líkamans sé í skugga.

Höfuðfat
Barðastórir hattar og önnur höfuðföt verja andlit, eyru og hnakka, en þessir staðir sólbrenna oft. Derhúfur og buff gera sitt gagn en verja ekki jafn marga staði og góður sólhattur.

Föt
Í sterkri sól er skynsamlegt að klæðast fötum sem hylja handleggi og fótleggi og ekki má gleyma öxlum og bringu.

Sólgleraugu
Góð sólgleraugu draga stórlega úr áreiti sólar á augun.

Sólarvörn
Engin sólarvörn veitir fullkomna vörn gegn geilsum sólar og líta ætti á hana sem viðbót við aðrar leiðir, svo sem að sitja í skugga, nota sólhatt, sólgleraugu og hyljandi fatnað, en ekki í stað þeirra. Nota skyldi sólarvörn sem verndar gegn bæði UVA og UVB geislum sólar með stuðulinn SPF 30 eða hærri. Sólarvörn á að bera á líkamann hálftíma áður en farið er í sól og endurtaka á 2-3 klukkustunda fresti, oftar ef maður þurrkar sér með handklæði eða er lengi í vatni. Svæði sem gleymast oft eru eyru, hnakki, bringa, axlir, hársvörður og handarbök. Gott er að nota varasalva með sólarvörn.

Verum klár á þessu

Sólbruni er augljóst merki um skaða af völdum sólar en það er möguleiki á skaða áður en húð hefur brunnið.

Börn og unglingar
Öll ráðin að ofan gilda einnig fyrir börn og unglinga, sem eru viðkvæmari gegn skaða af völdum sólar en fullorðnir. Því þarf að gæta sérstaklega að sólarvörnum fyrir börn og unglinga, þ.e. passa að þau séu í skugga, í fötum sem skýla fyrir sólinni og noti sólarvörn. Börn undir eins árs ættu aldrei að vera í beinu sólarljósi.

Skoðaðu húðina og fylgstu með breytingum
Ef þú tekur eftir fæðingarblettum sem breyta um stærð, lögun eða lit, eru ósamhverfir, með hrúður eða sár, þig klæjar í eða nýr blettur myndast með þessum einkennum ættir þú að hafa samband við lækni. Sjá nánar á www.krabb.is/einkenni.

Forðumst ljósabekki
Ljósabekkir auka hættu á húðkrabbameinum, meðal annars sortuæxla sem eru alvarlegasta tegund húðkrabbameina. Notkun ljósabekkja er bönnuð fyrir börn og ungmenni undir 18 ára  og allir gera vel með því að forðast ljósabekkjanotkun.


Birt í maí 2019. Yfirfarið í apríl 2021.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?