Ása Sigríður Þórisdóttir 14. des. 2023

Bleikasta slaufan sló í gegn

  • Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu, Lovísa Halldórsdóttir Olesen, by lovisa, Unnur Eir Björnsdóttir, Meba og EIR eftir Unni Eir, og Ása Sigríður Þórisdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Gríðarlega góðar viðtökur við Bleiku slaufunni í ár, salan sló öll met.

Bleika slaufan í ár var hönnuð af gullsmíðameisturunum Lovísu Halldórsdóttur Olesen (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (hjá Meba og EIR eftir Unni Eir). Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Salan á slaufunni gekk afar vel og seldust um 40.000 almennar slaufur og 700 Sparislaufur. Sparislaufurnar eru viðhafnarslaufur og seldar í takmörkuðu upplagi. Þær Lovísa og Unnur gáfu alla sína vinnu við hönnun og framleiðslu á slaufunni og afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

„Við erum ótrúlega stoltar og þakklátar fyrir hversu vel salan á slaufunum gekk. Það er mikill heiður að hafa fengið tækifæri til að hanna slaufuna á ný, en við hönnuðum einnig slaufuna árið 2016. Það er eitthvað einstakt við að hanna grip eins og Bleiku slaufuna, maður setur sig í sérstakar stellingar og er mjög meðvitaður um mikilvægi þess að vel takist til. Við lögðum upp með að slaufa ársins yrði sú bleikasta sem verið hefur og er óhætt að segja að sú hafi verið raunin. Það var afar ánægjulegt að finna að fólk beið spennt eftir að sjá slaufu ársins og eignast hana. Sjá kraftinn í samstöðunni og sjá samfélagið í raun allt umlykjast bleikum ljóma í október“ segja þær Lovísa og Unnur.

Bleikaslaufan_Clean_Saman-frettamynd

Allur ágóði Bleiku slaufunnar 2023 rennur til fjölbreyttar starfsemi Krabbameinsfélagsins sem byggir alfarið á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Fyrir ágóðann getur Krabbameinsfélagið meðal annars verið til staðar fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur með ókeypis ráðgjöf og stuðning, sinnt öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi og fjölbreyttu vísindastarfi.

Bleika slaufan var til sölu á rúmlega 300 sölustöðum um land allt en Sparislaufan var seld hjá Krabbameinsfélaginu, by lovisa og hjá Mebu.

„Krabbameinsfélagið þakkar þeim Lovísu og Unni innilega fyrir stuðninginn og ánægjulegt og farsælt samstarf. Við erum afar þakklát og meyr yfir frábærum viðbrögðum við slaufunni í ár, sem fóru fram úr okkar björtustu vonum og þeirri miklu velvild og stuðningi sem almenningur og fyrirtæki sýndu félaginu. Staðreyndin er að starfsemi Krabbameinsfélagsins er öll rekin fyrir söfnunarfé, svo stuðningur fólks í Bleiku slaufunni skiptir gríðarlegu máli. Á hverju ári greinast rúmlega 900 konur á Íslandi með krabbamein og um síðustu áramót voru á lífi tæplega 9600 konur sem fengið hafa krabbamein segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Hannar þú næstu Bleiku slaufu?

Leit er hafin af hönnuðum slaufunnar 2024. Ef þú hefur áhuga á að hanna Bleiku slaufuna 2024 hafðu þá samband við okkur sem fyrst á bleikaslaufan@krabb.is

https://youtu.be/V1-mWWB3MCI


Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira