Erfðagjafir

erfdagjafir

Hinsta ósk margra felst í stuðningi við málefni eða samtök sem þeim eru kær. Á undanförnum árum og áratugum hafa margir óskað eftir því að styðja við baráttuna gegn krabbameinum með því að gefa erfðagjöf til Krabbameinsfélagsins. Erfðagjafir bera vott um einstakan hlýhug og velvilja í garð félagsins.

Að ráðstafa erfðafé til góðgerðar- og mannúðarsamtaka að lífshlaupi loknu er valkostur sem er í boði fyrir okkur öll. Þú getur arfleitt félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum að hluta eða öllum eignum þínum í þágu málefnis sem þér er kært og þannig haft áhrif til framtíðar.

Samkvæmt lögum er þér heimilt að ráðstafa þriðjungi eigna þinna með erfðaskrá þegar skylduerfingjar eru til staðar. Séu skylduerfingjar ekki til staðar er þér frjálst að ráðstafa öllu fé þínu eins og þú kýst en til þess að tryggja að arfur berist þangað sem þú vilt þarft þú að gera erfðaskrá.

Hugtök til skýringar

Arfleifandi er sá sem lætur eftir sig eignir sem erfast eftir andlát hans.

Skylduerfingjar eru maki og börn arfleifanda. Þegar arfleifandi á skylduerfingja á lífi er honum einungis heimilt að ráðstafa þriðjungi eigna sinna til annarra með erfðaskrá.

Lögerfingjar eru skylduerfingjar en þegar arfleifandi lætur ekki eftir sig maka eða börn eru það önnur skyldmenni.

Þegar hvorki skylduerfingjar né lögerfingjar eru til staðar og ef ekki hefur verið gerð erfðaskrá rennur arfur í ríkissjóð.

Erfðaskrá

Erfðaskrá er yfirlýsing arfleifanda um hvernig eigi að ráðstafa eignum hans að honum látnum. Til að tryggja lögmæti hennar er gott að leita til fagaðila. Erfðaskráin þarf að uppfylla ákveðin formskilyrði til að teljast gild:

  • Vera dagsett og skýrt orðuð þannig að það sé þeim ljóst sem les hver vilji arfleifanda hafi verið við gerð hennar.
  • Vera vottuð af tveimur vitundarvottum.

Unnt er að breyta og/eða afturkalla erfðaskrá hvenær sem er svo lengi sem arfleifandi er svo heill heilsu andlega að hann sé hæfur til að gera erfðaskrá.

Enginn erfðafjárskattur af erfðagjöfum til Krabbameinsfélagsins

Samkvæmt breytingu á lögum um erfðafjárskatt í desember 2015 er enginn erfðafjárskattur af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.

Þú getur haft áhrif til góðs

  • Arfleiða má félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum að þriðjungi eigna sinna þegar arfleifandi á maka eða börn eða að öllum eignum þegar skylduerfingjar eru ekki til staðar.
  • Arfur til slíkra félaga er undanþeginn erfðafjárskatti.
  • Nauðsynlegt er að gera erfðaskrá til að tryggja að arfur berist þangað sem arfleifandi óskar.
  • Erfðaskrá má gera hvenær sem er og breyta að vild. Best er þó að gera erfðaskrá fyrr en seinna.
  • Gott er að varðveita erfðaskrá á tryggum stað, svo sem í bankahólfi eða hjá einhverjum sem treyst er fyrir því að varðveita hana þar til hennar verður þörf.

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem stutt hafa við starfsemi félagsins með því að minnast þess í erfðaskrá. Krabbameinsfélagið leggur sérstaka áherslu á að fara í hvívetna að fyrirmælum arfleifanda varðandi ráðstöfun erfðagjafar. 

Nánari upplýsingar veitir fjármálastjóri Krabbameinsfélagsins í síma 540 1900.

Kynntu þér bæklinginn um ráðstöfun erfðafjár til góðgerðar-og mannúðarsamtaka hér að neðan.