Ávinningur og áhætta vegna skimunar fyrir legháls­krabba­meini

Skimun (skipulögð hópleit) fyrir leghálskrabbameini byggir á því að skoða frumusýni frá leghálsi heilbrigðra kvenna svo finna megi frumubreytingar og koma þannig í veg fyrir dauðsföll af völdum leghálskrabbameins.

Sýnt hefur verið fram á að skimun fyrir leghálskrabbameini leiðir til þess að allt að 90% færri konur deyja úr sjúkdómnum. 

Konur ráða sjálfar hvort þær þiggi boð í skimun fyrir leghálskrabbameini

Konum er í sjálfsvald sett hvort þær þiggi boð í skimun eða ekki. 

Eftirfarandi upplýsingar hafa þann tilgang að upplýsa og aðstoða konur sem fengið hafa boð um þátttöku við að ákveða hvort þær vilji þiggja boðið.

Hvert er markmið og ávinningur skimunarinnar?

Auknar líkur á snemmgreiningu sem leiðir til færri dauðsfalla

Markmið skimunar fyrir leghálskrabbameini er að finna eins fljótt og hægt er þær konur sem hafa frumubreytingar (sem eru forstig leghálskrabbameins) eða krabbamein á snemmstigi. Því fyrr sem hægt er að bregðast við og fjarlægja þess háttar frumubreytingar því betra. Þannig er komið í veg fyrir að krabbamein nái að myndast. Minni líkur eru á að konur sem mæta reglulega í leghálsskimun deyi úr leghálskrabbameini.

Auknar líkur á að minna inngrip nægi og meiri líkur á lækningu

Uppgötvist slæmar frumubreytingar er hægt að fjarlægja þær með svokölluðum keiluskurði sem er tiltölulega lítið og einfalt inngrip. Í langflestum tilfellum er þannig komið í veg fyrir að þær þróist yfir í krabbamein. Hafi krabbamein hins vegar náð að myndast getur þurft stærra inngrip og líkurnar á lækningu eru ekki eins miklar.

Skimun getur veitt hugarró

Það getur veitt konum hugarró að fylgst sé með heilsufari þeirra,  þær fari í skoðun og ekkert óeðlilegt finnist.

Mögulegir áhættuþættir

Öllum rannsóknum og prófunum fylgja bæði kostir og gallar. Engar rannsóknir geta heldur gefið óyggjandi svör í öllum tilfellum. Þetta á einnig við um skimun fyrir leghálskrabbameini.

Hætta á svokölluðum fölskum greiningum

Flest tilfelli frumubreytinga hverfa af sjálfu sér og sé aðeins um vægar breytingar að ræða er konan boðuð í þéttara eftirlit til að fylgjast með hvort það gerist. Þróist þær hinsvegar yfir í verri breytingar er oftast mælt með keiluskurði. Jafnvel slæmar frumubreytingar ganga þó til baka í mörgum tilvikum. Hins vegar er ekki hægt að vita hjá hvaða konum breytingarnar muni ganga til baka og hjá hverjum þær verða að krabbameini. Þannig munu sumar konur gangast undir aðgerð sem hefði í raun ekki verið nauðsynleg. Þannig má jafnvel tala um ofmeðhöndlun.

  • Í sumum tilfellum virðast frumubreytingar vera í frumusýni sem tekið hefur verið, en þegar konan er kölluð til nánari rannsókna kemur í ljós að leghálsinn er eðlilegur. Þá er um að ræða svokallaða falska jákvæða greiningu sem getur leitt til ofmeðhöndlunar.
  • Stundum uppgötvast frumubreytingar eða leghálskrabbamein EKKI, þrátt fyrir skimun, og er slíkt kallað falskt öryggi.

Hætta á að konur upplifi kvíða, vanlíðan og ótta

Konur geta fundið til kvíða og andlegrar vanlíðunar í tengslum við sjálfa skimunina og hræðslu við að frumubreytingar eða krabbamein komi til með að finnast.

Upplifun í sjálfri sýnatökunni

Flestum konum finnst lítið mál að mæta í skoðunina en einhverjar gætu fundið til óöryggis í aðstæðunum. Sýnatakan tekur þó aðeins skamma stund og aðeins fáar konur finna til óþæginda og í undantekningartilfellum til sársauka. 


Var efnið hjálplegt?
Var efnið hjálplegt?