Þegar foreldri deyr

Sérfræðingar hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins bjóða fagfólki skóla og heilsugæslu ráðgjöf og stuðning varðandi sorgarúrvinnslu barna.

Sérfræðingar hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins bjóða fagfólki skóla og heilsugæslu ráðgjöf og stuðning varðandi sorgarúrvinnslu barna.

Alþingi samþykkti í júní 2019 nýjar lagagreinar þar sem réttindi barna í kjölfar fráfalls foreldris eru betur skilgreind en áður var.

Þegar einstaklingur deyr ber lækni sem gefur út dánarvottorð að kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal viðkomandi læknir eins fljótt og unnt er tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barnið á lögheimili. Heilsugæslan skal, í samráði við félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldri eða forsjáraðila, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins. Þótt verkferlar séu nú skýrari en áður skortir enn nokkuð upp á að sérfræðiþekking og reynsla sé fyrir hendi á hverjum stað. Það er því mikilvægt að byggja upp miðlægan stuðning og ráðgjöf fyrir fagfólk í heilsugæslu og skólum sem er aðgengileg alls staðar á landinu.

Skólinn og sorgin

Skólinn og sorgin Í nýlegri athugun, sem Krabbameinsfélagið lét gera í nokkrum skólum á Norðausturlandi, kom fram að langflestir fagaðilar í skólunum töldu að verklag/aðgerðaáætlun og áfallateymi í skólanum ásamt góðu aðgengi að utanaðkomandi faglegri handleiðslu væru lykilatriði fyrir starfsfólk skólanna til að sinna þörfum barna þegar foreldri deyr. Sérfræðingar hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins bjóða fagfólki skóla og heilsugæslu ráðgjöf og stuðning varðandi sorgarúrvinnslu barna, óháð því hver dánarorsökin var.

Sorgin og tímamót

Stundum kann að virðast sem börn og unglingar séu ósnortin af fráfalli nákomins einstaklings, þau halda áfram að leika sér og gera það sem þau eru vön að gera. Þess vegna geta þeir fullorðnu talið að missirinn hafi ekki áhrif á börnin og að þau skilji jafnvel ekki hvað hafi gerst. Það er þó ekki raunin. Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma. Algengt er að sorgin taki sig upp, jafnvel löngu síðar, þá gjarnan í tengslum við ákveðna atburði eins og jól og áramót.

  • Höfundur er Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði við HR og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu. asgeir@krabb.is

Krabbameinsfélagið veitir skólum og heilsugæslu faglegan stuðning í síma 800 4040