© Mats Wibe Lund

Reykjavík

Krabbameinsfélag Reykjavíkur var stofnað 8. mars 1949 og eru meðlimir 1.030 talsins. Félagið er til húsa í húsnæði Krabbameinsfélagsins, Skógarhlíð 8 í Reykjavík. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðlaug B. Guðjónsdóttir

Tillögur samþykktar á aðalfundi Krabbameinsfélags Reykjavíkur 20. mars 2017

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 20. mars 2017, skorar á heilbrigðis­yfirvöld að leggja sem fyrst fram stefnumótun í tóbaksvörnum.

Í ársbyrjun 2013 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra starfshóp til að leggja fram tillögu að heildstæðri stefnu í tóbaksvörnum. Í hópnum voru fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, fjármála­ráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Embættis landlæknis.

Enn, fjórum árum síðar, bólar ekkert á þessari stefnumótun eða aðgerðaáætlun varðandi tóbaksvarnir. Krabbameinsfélag Reykjavíkur er orðið óþreyjufullt að bíða eftir stefnumótun­inni og hefur áhyggjur af því að Ísland sé að dragast aftur úr öðrum vestrænum ríkjum í tóbaks­vörnum, þar sem við vorum lengi vel með góða forystu.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 20. mars 2017, skorar á heilbrigðis­yfirvöld að ljúka sem fyrst gerð krabbameinsáætlunar fyrir Ísland.

Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki enn sett heildstæða krabbameinsáætlun. Í ársbyrjun 2013 skipaði heilbrigðisráðherra ráðgjafarhóp til að vinna að gerð slíkrar áætlunar og í október 2015 var þáverandi heilbrigðisráðherra afhent tillaga að íslenskri krabba­meinsáætlun 2016-2020. Sú áætlun hefur enn ekki komið til framkvæmda. Mikil vinna var lögð í áætlunina og er hætta á að sú vinna verði til lítils ef upplýsingar og gögn úreldast.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast nú árlega um 1.500 manns með krabbamein og sífellt fleiri eru á lífi eftir að hafa greinst með sjúkdóminn. Eftir fimmtán ár má búast við að tilfellum hafi fjölgað um 30% sem skýrist fyrst og fremst af hækkandi meðalaldri og fjölgun íbúa. Því mun álagið á heilbrigðiskerfið vegna krabbameins­sjúkdóma aukast jafnt og þétt. Mikilvægt er að samfélagið eigi heildstæða krabbameins­áætlun sem lýsir stefnu, markmiðum og aðgerðum til að fyrirbyggja og þar með fækka nýgrein­ingum, draga úr dánartíðni og bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein. 


Ályktanir samþykktar á aðalfundi Krabbameinsfélags Reykjavíkur 2016 

1. Ályktun um ristilskimun. Flutt af stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 14. mars 2016, fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að hefja í samstarfi við Krabbameinsfélagið undirbúning skipulegrar leitar að ristilkrabbameini hjá aldurshópnum 60-69 ára og að stefnt sé að því að hefja skimun í byrjun ársins 2017.

Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið á heimsvísu og annað algengasta dánarmein af völdum krabbameins á Vesturlöndum. Á árunum 2010-2014 greindust að meðaltali 78 karlar og 64 konur á ári hér á landi með þessa tegund krabbameins.

2. Ályktun um tóbaksneyslu í kvikmyndum og leikhúsum. Flutt af stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 14. mars 2016, hvetur yfirvöld til að setja fram kröfur gagnvart þeim sem framleiða kvikmyndir sem njóta opinberra styrkja eða fá annan stuðning af skattfé, um að tóbaksneysla sé ekki sýnd eða henni haldið í lágmarki. Sama gildi um íslensk leikhús.

3. Ályktun um rafrettur. Flutt af stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 14. mars 2016, skorar á yfirvöld að setja sem allra fyrst í lög og reglugerðir ákvæði um sölu og notkun rafretta. Rafrettur geta verið hjálpartæki fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að hætta að reykja, en sala á þeim og notkun þarf að falla undir tóbaksvarnalög, þar sem m.a. verði kveðið á um hvar megi nota þær og setja þarf aldursmörk varðandi kaup. Innihalds- og aðvörunarmerkingar þurfa að vera skýrar og bannað að setja í þær bragðefni sem ýta undir neyslu.

4. Ályktun um dekkjakurlsvelli. Flutt af stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Reykjavíkur, haldinn 14. mars 2016, skorar á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög að fara að dæmi þeirra sveitarfélaga sem ákveðið hafa að fjarlægja á árinu dekkjakurl af íþróttavöllum.

Í dekkjakurli eru ýmis eiturefni sem geta verið hættuleg börnum og öðrum íþróttaiðkendum, meðal annars krabbameinsvaldandi efni. Hagur barna og öryggi á ætíð að vera í fyrirrúmi.

Starfsemi 2016-2017

Stjórnarfundir voru átta milli aðalfunda og sóttu varamenn þá til jafns við aðalmenn. 

Fræðslu- og forvarnastarfsemi 

Í samstarfssamningi við Krabbameinsfélag Íslands frá mars 2014 er kveðið á um fræðslu- og fagráð sem skuli skipað fimm manns og tveimur til vara. Þrír aðalmenn eru tilnefndir af Krabbameinsfélagi Íslands og tveir frá Krabba­meinsfélag Reykjavíkur. Framkvæmda­stjóri Krabba­meins­félags Reykjavíkur er starfs­maður ráðsins. Ráðið á að marka stefnu í fræðslumálum Krabbameins­félagsins og leggja fram fram­kvæmda- og kostnaðar­áætlun, þar sem gerðar eru tillögur um helstu verkefni komandi árs. Krabbameinsfélag Reykjavíkur óskaði eftir endurskoðun á samningi félaganna í febrúar 2015. Formenn félaganna hafa verið með málið í vinnslu. 

Útgáfumál 

Fræðsluefnið „Blöðruhálskirtilskrabbamein­­ ‒ Leiðbeiningar fyrir karla sem eru nýgreindir með sjúkdóm­inn“ er frágengið en þetta er breskt yfirgripsmikið efni sem var þýtt og staðfært. Efnið verður fyrst um sinn eingöngu á netinu. Stuðningshóparnir Frískir menn og Góðir hálsar standa að útgáfu efnisins með aðstoð félagsins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Mikið af veffræðsluefni hefur verið unnið í samstarfi Krabbameinsfélags Íslands og Reykjavíkur sérstaklega er snýr að átaksmánuðunum Mottumars og Bleiku slaufunni. Vinna við gerð fræðsluefnis um næringu og krabbamein í samstarfi okkar, Ráðgjafarþjónustunnar og Landspítala er aftur komin í gang. Fræðslurit Krabbameinsfélagsins í nýja forminu eru átta talsins en mörg rit eru til viðbótar eingöngu á vefsíðu Krabbameinsfélagsins. 

Fræðslumyndir 

Á Degi án tóbaks, 31. maí 2016, var frumsýnd á RÚV heimildamyndin „Bara ég hefði aldrei byrjað“. Í mynd­inni segja fjórir einstaklingar frá afleiðingum reykinga á líf þeirra. Að gerð myndarinnar stóðu í sameiningu Astma- og ofnæmisfélag Íslands, Hjartaheill, Hjartavernd, Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Samtök lungnasjúklinga. Styrktaraðilar myndarinnar eru ÁTVR, Embætti landlæknis, Nicorette og Pfizer. Páll Kristinn Pálsson kvik­myndagerðarmaður gerði myndina og Karl Andersen hjartalæknir var faglegur ráðgjafi en fleiri sérfræðilæknar og heilbrigðis­starfsfólk komu að vinnunni. Myndin er tileinkuð minningu Birgis Rögnvaldssonar, fyrrverandi formanns Samtaka lungnasjúklinga, sem lést árið 2015. Búið er að dreifa myndinni á samfélagsmiðla eins og Facebook og Youtube.

Tóbaksvarnir og fl. 

Á starfsárinu var aðeins eitt reykbindindisnámskeið. Því miður náðist ekki næg þátttaka til að halda námskeið síðastliðið haust. Leiðbeinandi er Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur sem veitir einnig einstaklings­­ráðgjöf. Ingibjörg svarar fyrirspurnum um tóbaksvarnir sem koma gegnum vefinn og í síma. Einnig hefur hún verið ráðgefandi varðandi efni tengt tóbaksmeðferð. Ingibjörg var með erindi um reykleysismeðferð fyrir læknanema. Nokkur fyrirtæki hafa fengið símaráðgjöf. Félagið hefur boðið aðildar­félögum Krabbameinsfélagsins að aðstoða þau ef þau vilja standa fyrir reykleysisnámskeiðum á sínum félagasvæðum. 

Félagið fékk viðbótarstyrk úr Lýðheilsusjóði til að vinna áfram að því að ná til hópa sem af ýmsum félags- og menningar­legum ástæðum hefur gengið illa að ná til með tóbaks­varnir og reykleysis­upplýsingar. Ráðgjafarhópur er félaginu innan handar við til að vinna að verk­efninu sem við nefnum „Líf án tóbaks“. Hópinn skipa Jón Steinar Jónsson heilsugæslulæknir, Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Karitas Ívarsdóttir ljósmóðir, Þóra Magnea Magnúsdóttir kennari og sérfræð­ingur í fræðslumálum, Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og starfsmaður félags­ins, auk Árna formanns félagsins og Guðlaugar framkvæmdastjóra. Ráðgjafarhópurinn hefur fundað reglulega og hefur einbeitt sér að ófrískum konum sem reykja. Verkefnið tafðist í haust vegna skipu­lagsbreytinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en nú er verið er að ganga frá fram­kvæmda­­áætlun verksins. 

Norrænn fundur félagasamtaka í tóbaksvörnum var haldinn í tvígang á starfsárinu. Fyrst í Kaupmannahöfn í júní sl. og samhliða fundinum var haldið málþing sem danska krabba­meinsfélagið bauð til um reyklausa framtíð þar sem fulltrúar norrænu landana kynntu stöðuna í hverju landi fyrir sig. Í janúar sl. komu fulltrúar samtakanna til Íslands á tveggja daga fund sem Krabbameinsfélag Reykjavíkur stóð fyrir. Samstarf þetta hefur verið ákaflega gefandi og í mars sl. var hópurinn með norrænt innlegg á evrópsku tóbaksvarnarráðstefnunni „Tobacco or Health“ sem haldin var í Portúgal. Félagið fékk beiðni frá sænsku fulltrúunum um að aðstoða með upplýsingar og myndefni um „sýnileikabann“ tóbaks, en sænsku tóbaksvarnarsamtökin eru að vinna að því að fá þannig bann inn í tóbaksvarnalögin sín. 

Læknafélag Íslands, Embætti landlæknis, Háskóli Íslands og Krabbameinsfélagið stóðu fyrir tóbaksvarnar­málþinginu „Hættu nú alveg“ í Hörpu þann 14. mars sl. Um 80 manns sóttu þingið. Guðlaug var í undirbúningsnefnd þess. 

Krabbameinsfélag Reykjavíkur sendi í febrúar sl. inn umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Félagið fagnaði frumvarpinu en hvatti eindregið til þess að breytingar verði gerðar á frumvarpinu þannig að það taki líka á rafsígarettum án nikótíns. Jafnframt hvatti félagið ráðherra til enn frekari aðgerða í þágu tóbaksvarna á Íslandi þannig að Ísland geti tekið næstu skref á því sviði. Guðlaug situr í fagráði landlæknis um tóbaksvarnir. 
Í maí stendur til að halda málþing um áfengi, heilsu og samfélag í samvinnu Fræðslu og forvarna (FRÆ), Krabbameinsfélagsins og fl. Fjalla á um tengsl áfengisneyslu við m.a. krabbamein, hjartasjúkdóma og um samfélagsleg áhrif. Árni framkvæmdastjóri FRÆ og formaður félagsins leiðir þessa vinnu. 

Hættan er ljós og samnorrænt átak 

Þrettán ár eru síðan átaksverkefnið „Hættan er ljós“ hófst en það er samstarfsverkefni Geislavarna ríkisins, Embættis landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins. Stefna hópsins er að stuðla að skynsamlegri hegðun landsmanna í sól og að draga enn frekar úr almennri notkun ljósabekkja. Guðlaug er fulltrúi Krabbameinsfélagsins í norrænu samstarfi um varnir gegn húðkrabbameini. 

Bleiki mánuðurinn

Í bleika mánuðinum, í október 2016, var aðstoðað við yfirlestur gagna og setnir samráðsfundir og tekið þátt í verkefnum sem tengdust mánuðinum. Í mörg ár hafa Brjóstaheill – Samhjálp kvenna, Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar, Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins staðið saman að bleiku málþingi í október. Á málþinginu að þessu sinni var fjallað sérstaklega um síðkomin einkenni og síðkomnar afleiðingar eftir meðferð við brjóstakrabbameini. Málþingið var einn fjölmennasti viðburðurinn sem haldinn hefur verið í húsi Krabbameinsfélagsins. Styrktaraðilar málþingsins voru Estée Lauder, Pfizer og Radisson Blu 1919 hótel.

Mottumars 

Framkvæmdastjóri hefur setið samráðs- og undirbúningsfundi og aðstoðað með yfirlestur og við að útbúa ýmiss konar fræðslu- og upplýsingagögn um rafsígarettur, munn-, nef og reyktóbak. Markmið átaksins í ár er að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar og hvetja þá karla sem nota tóbak til að hætta. Í Mottumars var líka efnt til keppni „Hættu nú alveg”, í samstarfi við Reyksímann, meðal þeirra sem vilja hætta að nota tóbak.  

Nemendur og skólar 

Starfsfólk félagsins aðstoðar nemendur, kennara framhaldsskóla og háskóla og fleiri við heimildaöflun vegna ýmissa skrifa, rannsókna og kennslu sem tengist krabbameini og forvörnum. 

SAFF, samstarf félagasamtaka í forvörnum 

Samstarf félagasamtaka í forvörnum, SAFF, hefur umsjón með ýmsum verkefnum í forvörnum. Um 25 samtök standa að SAFF. Guðlaug er fulltrúi Krabbameinsfélagsins í stjórn félagsamtakanna. Krabbameins­félag Reykjavíkur er þátttakandi í „Viku 43“ sem er vettvangur félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns, til þess að vekja athygli á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum. Í „Viku 43“ var að þessu sinni yfirskriftin „Rafrettur og unga fólkið – verum vakandi“. Félagið er einnig þátttakandi í átakinu „Verum vakandi“ sem er vakningarátak sömu aðila og standa að Viku 43 og snýr að skaðsemi kannabis undir yfirskriftinni „Bara gras?“. 

SAFF hefur í tvígang sent áskorun til alþingismanna þar sem þau mótmælti frumvarpi um að fella úr gildi einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og gefa smásölu áfengis frjálsa upp að ákveðnu marki. Nýlega sendi SAFF umsögn um frumvarpið, sem er að koma fram í þriðja skiptið, þar sem samtökin leggjast alfarið gegn því. Unnið var áfram að greinaskrifum í fjölmiðlum og umræðu á samfélagsmiðlum. 

Vefsíðumál og og samfélagsmiðlar 

Fésbókarsíða Krabbameinsfélag Reykjavíkur er notuð til koma á framfæri því sem félagið stendur fyrir og til að styrkja stöðu þess. Stjórn félagsins sendi markaðsdeild Krabbameinsfélagsins hugmyndir um betrumbætur og athugasemdir varðandi nýlega vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands. 

Stuðningur við sjúklinga 

Tveir stuðningshópar starfa undir verndarvæng Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Annars vegar eru það Góðir hálsar, stuðningshópur um krabbamein í blöðruhálskirtli, og hins vegar Stuðningshópur kvenna með krabbamein í kvenlíffærum (áður krabbamein í eggjastokkum). Hvor hópur um sig hittist reglulega á rabbfundum og fræðslufundum, karlahópurinn fyrsta miðvikudag í mánuði allt árið og kvennahópurinn síðasta miðvikudag í hverjum mánuði á veturna. Hóparnir hafa undanfarin ár haldið sameiginlegan aðventufund þar sem rithöfundar hafa komið og lesið úr bókum sínum og boðið er upp á tónlistar- og skemmtiatriði. Góðir hálsar tóku þátt í verkefninu „Karlarnir og kúlurnar“ þar sem hópur karla fékk tækifæri til að æfa golf­sveifluna og fræðast um gildi jafningjastuðnings. Verkefnið var unnið í samvinnu við Ráðgjafarþjónustu Krabbameins­félagsins, Fríska menn og Kraft. Félagar í Góðum hálsum hafa verið öflugir við að veita stuðning við nýgreinda þegar eftir því hefur verið leitað og tóku þátt í sjónvarpsþætti á Stöð 2 sl. vor um krabbamein í blöðruhálskirtli. Stuðningshópur kvenna með krabbamein í kvenlíffærum hefur að undanförnu notið aðstoðar og stuðnings Reynis Tómasar Geirssonar sérfræðings í kvensjúkdómum og fyrrverandi prófessors. 

Félagið er í góðu samstarfi við stuðningshópa Krabbameinsfélagsins og aðstoðar þá eftir þörfum, t.d. við gerð fræðsluefnis, árskýrslna, yfirlestur, við skipulag funda og fleira. 

Krabbameinsfélag Reykjavíkur, Ristilfélagið og Stómastamtökin héldu áfram að senda út afmæliskortið „Gefðu þér góða afmælisgjöf“, til þeirra sem urðu fimmtugir á árinu 2016, með skilaboðum um mikilvægi þess að gefa sjálfum sér þá gjöf að fara í ristilskoðun. Tilgangurinn var að vekja athygli á ristilkrabbameini og hvetja fólk til að vera vakandi fyrir einkennum og hvetja stjórnvöld til að sem fyrst verði hafin skipuleg leit að sjúkdómnum. Vonbrigði urðu að ekki fékkst heimild til að halda þessu verkefni áfram þar sem m.a. er verið að breyta klínískum leiðbeiningum um ristilskimun. En bæði Ráðgjafarþjónustan og læknar staðfestu að útsending kortanna skilaði árangri, t.d. með auknum fyrirspurnum. Roche-lyfjafyrirtækið, sem er hluti af Icepharma, hefur styrkt gerð og útsendingu afmæliskortanna. 

Styrkveitingar

Styrkveitingar félagsins á reikningsárinu voru átján, að fjárhæð rúm ein milljón króna. 

Happdrættið

Happdrætti Krabbameinsfélagsins er enn sem fyrr helsta tekjulind Krabbameinsfélags Reykjavíkur og hefur í meira en sextíu ár gert félaginu kleift að sinna fræðslustarfinu. Það má segja að fræðsla um krabbamein og krabbameinsvarnir byggist að miklu leyti á happ­drættis­fé og að happdrættið eigi sinn þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur í tóbaks­vörnum síðustu áratugi. Heildarsala happ­drættis­miða í sumarhappdrættinu var mjög svipuð og árið áður, en sölutölur í jólahappdrætti nokkru lakari. Sala miða í netverslun Krabbameinsfélagsins er góð viðbót. Í samstarfssamningi Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Krabbameinsfélags Íslands er ákvæði um stjórn happdrættis Krabbameinsfélagsins. Í stjórn happdrættisins eru tveir fulltrúar hvors félags þar af báðir gjaldkerar þeirra. Hlutverk stjórnar happdrættisins er að ákvarða hvernig skipting allra tekna happdrættisins verði. Jafnframt að hafa eftirlit með rekstri og reiknings­skilum happdrættisins. 

Fjármál

Afkoma félagsins á reikningsárinu var jákvæð um 1,4 milljón krónur. Það er mikið ánægjuefni að búið er að gera upp lífeyrisskuldbindingar félagsins við hið opinbera. Kostnaður við fræðslustarfsemi félagsins var um 19 milljónir króna. Árið 2016 skilaði happ¬drættið félaginu um 17,7 milljónum króna í tekjur. Aðrir tekjuliðir eru félagsgjöld og merkjasala, auk vaxtatekna og styrkja. 

Samstarf við ýmsa aðila

Krabbameinsfélag Reykjavíkur á afar fjölþætt samstarf við Krabbameinsfélag Íslands og snertifletir félaganna eru fjölmargir. Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands var haldinn 14. maí 2016. Formannafundur Krabbameinsfélaganna var haldinn 24. september 2016 hjá Krabbameinsfélagi Skagafjarða. Á fundinn fóru Árni formaður og Guðlaug framkvæmdastjóri. Gjaldkeri okkar félags, Jón L. Árnason, er fulltrúi í fjáröflunarráði Krabbameinsfélagsins. Mjög mikilvægt er að það sé virkt til að vinna að því að árekstrar verði ekki í fræðsluátökum og fjársöfnunum aðildarfélaga og Krabbameinsfélags Íslands. Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur átt gott samstarf við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, hefur aðstoðað við afleysingar í sumarfríi starfsmanna, við útgáfumál, málþing og ráðstefnur sem Ráðgjafarþjónustan stendur fyrir, og mun áfram styðja starfsemina eftir bestu getu. Mörg verkefni félaganna eru unnin í samvinnu Jónasar Ragnarssonar og okkar. Deildum Krabbameinsfélags Íslands er veitt aðstoð við yfirlestur gagna og með þátttöku í skipulagningu ýmissa verkefna. Einnig hefur Guðlaug aðstoðað við útgáfu ársskýrslu Krabba-meinsfélagsins. Félagið hefur átt gott samstarf við aðildarfélög og stuðningshópa Krabbameins-félagsins, Morgunblaðið, Icepharma, Smáralind, starfsmenn Fræðslu og forvarna (FRÆ) og fleiri. Einnig má minnast á afar gott samstarf við starfsfólk Arion banka og Advania varðandi happdrættið og fleira.

Guðlaug B. Guðjónsdóttir og Árni Einarsson.


Var efnið hjálplegt?