Mataræði til að minnka líkur á krabbameinum

Með hollu og fjölbreyttu mataræði í hæfilegu magni má minnka líkur á krabbameinum. Flestir Íslendingar hefðu ávinning af því að borða meira af grænmeti, ávöxtum, baunum og heilkornavörum.

Rannsóknir hafa sýnt að með hollu og fjölbreyttu mataræði í hæfilegu magni má minnka líkur á krabbameinum og öðrum sjúkdómum auk þess að stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Matur er samsettur úr ótal efnum, sem sum virðast veita ákveðna vernd fyrir krabbameinum og önnur virðast geta aukið líkur á krabbameinum. Mataræði hefur einnig áhrif á fitusöfnun í líkamanum sem tengist krabbameinsáhættu. Mataræðið í heild sinni virðist skipta meira máli en einstaka fæðutegundir eða næringarefni.

Þess ber að geta að þótt koma mætti í veg fyrir 30-50% krabbameina með heilbrigðum lífsháttum er ekki hægt að segja til um það hvers vegna einstaklingar fá krabbamein, enda erum við ennþá nokkuð frá því að skilja til hlítar hið flókna samspil áhættuþátta sem þar getur verið að verki. Allir hafa gott af því að borða hollt en enginn sem greinist ætti að finna til samviskubits yfir því að hafa ekki lifað fullkomlega heilbrigðu lífi. Ráðleggingarnar hér að neðan henta fólki sem ekki hefur greinst með krabbamein og í mörgum tilfellum einnig fólki sem hefur greinst með krabbamein.

Ráðleggingar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum:

  • Borðum fjölbreytt fæði í hæfilegu magni
  • Borðum grænmeti, ávexti og heilkornavörur daglega
  • Borðum baunir og linsubaunir reglulega
  • Takmörkum neyslu á rauðu kjöti og forðumst unnar kjötvörur
  • Takmörkum neyslu á unnum matvörum sem innihalda mikinn sykur, salt eða mettaða fitu
  • Forðumst sykraða drykki, leggjum áherslu á að drekka vatn.
  • Forðumst áfengi
  • Ekki er mælt með notkun fæðubótarefna til að minnka líkur á krabbameinum, hérlendis er þó öllum ráðlagt að taka D-vítamín.
  • Fólki sem hefur greinst með krabbamein er ráðlagt að fylgja þessum sömu ráðleggingum, ef það getur

Mikil samstaða um ráðleggingarnar

Wcrf_cancer_recommendations

Ráðleggingarnar að ofan byggja á ráðleggingum virtra stofnana á sviði krabbameinsrannsókna. World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research gefa saman út ráðleggingar sem þau byggja á samfelldri greiningu á nýjustu rannsóknum á því hvernig mataræði hefur áhrif á krabbameinsáhættu og lifun. International Agency for Research on Cancer (krabbameinsstofnun WHO) og Evrópsku krabbameinssamtökin gefa saman út ráðleggingar sem taka tillit til aðstæðna í Evrópu.

Radleggingar_ELRáðleggingar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum eru í góðu samræmi við ráðleggingar um mataræði frá Embætti landlæknis. Þeim er ætlað að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda, stuðla að góðri heilsu og vellíðan og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum, þar á meðal krabbameinum. Þessar ráðleggingar byggja á norrænum næringarráðleggingum ásamt öðrum rannsóknum á sambandi næringar og heilsu og niðurstöðum kannana á mataræði Íslendinga.

Allar þessar ráðleggingar byggja á kerfisbundnu mati á vísindarannsóknum og standa á sterkum vísindalegum stoðum. Þótt ólíkir hópar sérfræðinga vinni ráðleggingarnar, gerðir vísindarannsókna og útkomur sem horft er til séu að einhverju leyti ólík eru niðurstöðurnar í grunninn þær sömu. Það ríkir því mikil samstaða um mataræðisráðleggingar, þvert á það sem sumir telja.

Hvað getum við gert?

Uppistaðan í mataræðinu ætti að vera lítið unnin matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi: grænmeti, ávextir, ber, heilkornavörur, hnetur, fræ, baunir og önnur fæða úr jurtaríkinu. Flestir Íslendingar mættu auka neysluna á þessum matvörum. Inni í ráðleggingunum er svigrúm fyrir hóflega neyslu dýraafurða, svo sem fisks, kjöts, mjólkur og eggja, í mismiklu magni þó eftir því hvaða ráðleggingar verið er að skoða. Íslensku ráðleggingarnar mæla með fiskneyslu tvisvar til þrisvar í viku, en fiskur inniheldur mikilvæg næringarefni sem eru í fáum öðrum matvælum, svo sem joð, langar ómega-3 fitusýrur og D-vítamín. Æskilegt er að takmarka neyslu á rauðu kjöti (miða við að borða ekki meira en 350-500 grömm á viku af lamba-, nauta-, svína- og hrossakjöti) og halda neyslu á unnum kjötvörum og annarri unninni matvöru, salti og sykri í lágmarki.


Kynntu þér málið betur


Birt í janúar 2021. Uppfært í janúar 2021.


Var efnið hjálplegt?