Mataræði stómaþega

Einstaklingsbundið fjölbreytt fæði sem mætir þörf fyrir vökva, steinefni, orku og næringarefni og kemur í veg fyrir stíflu. Með mataræði má einnig hafa áhrif á það sem í pokann kemur. 

Dr. Birna Þórisdóttir næringarfræðingur, sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu og nýdoktor við Háskóla Íslands og Svava Engilbertsdóttir klínískur næringarfræðingur við Næringarstofu Landspítala:

Einstaklingsbundið fjölbreytt fæði 

Byggt á samnefndri grein í 40 ára afmælisriti Stómasamtakanna í október 2020.

„Áður fyrr var viðhorfið á þá leið að sumt [matarkyns] væri bannað en annað leyft fyrir stómaþega. Í dag má heita að það sé í lagi að borða nánast hvers kyns mat,“ var haft eftir Svövu Engilbertsdóttir í Fréttabréfi Stómasamtakanna í maí 2002. Það er því ekki nýtt af nálinni að stómaþegar séu hvattir til að borða fjölbreyttan, hollan og næringarríkan mat, enda tengist það betri heilsu og lífsgæðum. Fæða virkar þó ekki eins á alla og á meðan sumir geta borðað og drukkið nánast allt þurfa aðrir að forðast eða takmarka vissa fæðu.

Eftir stómaaðgerð er meltingarvegurinn breyttur og sumir geta þurft að prófa sig áfram með mataræðið og einstaka fæðutegundir. Þegar hugað er að fæðuvali eftir stómaaðgerð er lögð áhersla á fernt. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir vökva- og steinefnatap, í öðru lagi að mæta orku- og næringarefnaþörf, í þriðja lagi að koma í veg fyrir stíflu og í fjórða lagi að hafa áhrif á það sem í pokann kemur.

Með fjölbreyttu og hollu mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Ekki er endilega þörf á að forðast alla þá fæðu sem getur stíflað eða verið loft- og/eða lyktarmyndandi. Hver og einn er hvattur til að prófa sig áfram og þekkja hvað hentar, með það fyrir augum að reyna að borða sem fjölbreyttast. Stundum hentar ákveðin fæða illa tímabundið, og þá mætti sleppa henni í einhvern tíma og prófa í litlu magni síðar. Það mikilvægasta er þó að tyggja matinn vel og drekka vel yfir daginn. Og ekki síst að taka mataræðinu með yfirvegun og æðruleysi þannig að það hressi – en ekki stressi.

Breyttur meltingarvegur

Þegar ristillinn er gerður óvirkur eða fjarlægður, sem raunin er meðal garnastómaþega og einstaklinga með garnapoka, þarf að huga sérstaklega vel að því að líkaminn þorni ekki. Til þess þarf að auka neyslu á vökva og söltum. Hjá sumum getur frásog B12-vítamíns verið skert og gott að ráðfæra sig við næringarfræðing eða lækni varðandi þörf á bætiefnum. Hægðir eru misþykkar og fer eftir því hvað er borðað og hve mikið drukkið.

Hjá ristilstómaþegum sér ristillinn í flestum tilfellum um að frásoga vökva og sölt úr hægðum og þær eru því gjarnan formaðar og hægðalosun svipuð og fyrir aðgerð. Þetta er þó misjafnt eftir því hve mikið hefur verið tekið af ristli. Þegar meltingarvegurinn er búinn að jafna sig eftir stómaaðgerð er yfirleitt ekki þörf á sérstöku mataræði, þó sumir kjósi að forðast mjög loftmyndandi mat eða hafa áhrif á það sem í pokann kemur.

Eftir stómaaðgerð er byrjað með fljótandi fæðu sem smám saman breytist í fasta fæðu.

Þvagstómaþegar hafa sjaldan þörf fyrir sérstakt mataræði þegar meltingarvegurinn er búinn að jafna sig eftir stómaaðgerð, en æskilegt er að drekka vel yfir daginn.

Tilraunastarfsemi í rólegheitum

Eftir stómaaðgerð er byrjað með fljótandi fæðu sem smám saman breytist í fasta fæðu. Þá er nauðsynlegt að prófa sig rólega áfram með einstakar fæðutegundir, líka þær sem hentuðu vel að borða fyrir aðgerð. Með því að bæta við einni fæðutegund í einu getur maður lært hvaða fæðutegundir valda óþægindum svo sem loftmyndun, lykt, hægðatregðu eða vatnskenndum hægðum. Markmiðið er að geta þegar fram líða stundir borðað eins fjölbreytt og hægt er. Margir ættu að geta borðað svo til sama mat og fyrir aðgerð og jafnvel fjölbreyttara, þar sem búið er að fjarlægja þann hluta meltingarvegarins sem var veikur.

Hversu hratt þetta gengur er einstaklingsbundið og margir þættir hafa áhrif, til dæmis hvaða hluti meltingarvegarins var fjarlægður, hvort lítið var borðað fyrir aðgerð vegna veikinda eða rannsókna og hvernig líðan er eftir aðgerð.

Þegar hugað er að fæðuvali eftir stómaaðgerð er lögð áhersla á fernt. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir vökva- og steinefnatap, í öðru lagi að mæta orku- og næringarefnaþörf, í þriðja lagi að koma í veg fyrir stíflu og í fjórða lagi að hafa áhrif á það sem í pokann kemur.

Komið í veg fyrir vökva- og steinefnatap

Mikilvægt er fyrir alla að drekka vel yfir daginn til að mæta nauðsynlegri þörf fyrir vökva. Næringarefni svo sem steinefni og sölt fást úr fjölbreyttri fæðu. Almennt er vatn besti svaladrykkurinn og um að gera að drekka vel bæði með máltíð og milli mála.

Áherslan er aðeins önnur fyrir garnastómaþega og aðra, sem ekki eru með ristil eða eru með óvirkan ristil. Þá þarf að leggja sérstaka áherslu á vökva- og saltneyslu til að koma í veg fyrir þurrk. Til að viðhalda vökvajafnvægi er garnastómaþegum ráðlagt að drekka hálfan til einn lítra af „salt-sykur“ blöndu á dag, aukalega við vatn og aðra drykki. Hægt er að útbúa „salt-sykur“ blöndu með því að blanda þar til gerðar freyðitöflur eða dufti, sem fæst í apótekum, út í vatn eins og leiðbeiningar segja til um. Þynntir íþróttadrykkir eða ávaxtasafar geta einnig hentað sem og heimatilbúnar blöndur, til dæmis 250 ml af eplasafa + 750 ml af vatni + ½ tsk af salti. Eins geta garnastómaþegar þurft að salta matinn meira en aðrir, á disknum frekar en í eldamennskunni því aðrir fjölskyldumeðlimir þurfa minna salt.

Fæða sem mætir þörf fyrir orku og næringarefni

Stómaþegar þurfa að gefa sér góðan tíma til að borða og tyggja matinn vel. Mörgum reynist vel að borða nokkrar smærri máltíðir á dag í stað þess að borða stærri máltíðir sjaldnar, þar sem loftmyndun getur aukist ef langt líður milli máltíða.

Til að mæta orku- og næringarefnaþörf hentar mörgum stómaþegum vel að fylgja almennum ráðleggingum um mataræði, sem finna má á heimasíðu Landlæknis: www.landlaeknir.is/radleggingar. Þar er lögð áhersla á gæði matarins, þ.e. að velja sem oftast óunnin og lítið unnin matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi, til að mynda grænmeti, ávexti, heilkorn, fisk, kjöt og hreinar mjólkurvörur. Einnig er æskilegt að velja mýkri og hollari fitu, takmarka neyslu á salti (garnastómaþegar undanskildir) og viðbættum sykri.

Allir sem búa á Íslandi þurfa D-vítamíntöflur eða lýsi og stómaþegar eru hvattir til að spyrja sinn lækni eða næringarfræðing um hvort þörf sé á öðrum fæðubótarefnum, til dæmis B12-vítamíni. Sumar fæðurtegundir, sem teljast hollar og góðar, geta stíflað eða valdið öðrum óþægindum og geta stómaþegar þurft að prófa sig áfram með mataræðið.

Fæða sem getur stíflað

Garnastómaþegar eru í meiri hættu á stíflu. Mikilvægt er að þekkja merki um stíflu og vera í sambandi við lækni ef þarf. 

Fæða sem getur stíflað:

  • Hýði og tægjur úr ávöxtum og grænmeti. Má þar nefna eplabörk, húðina á tómötum, gúrkum, paprikum og vínberjum, hvíta hlutann fyrir innan börkinn á appelsínum og öðrum sítrusávöxtum, tægjur af ananas, aspas, brokkálsstilkum, hvítkáli, rabarbara, sellerí og sveppum. Margir geta vel borðað ávexti og grænmeti sem búið er að skræla, hakka vel í matvinnsluvél eða sjóða. 

  • Hnetur, fræ, möndlur, kókos, maískorn, grænar baunir og poppkorn. Fínmalaðar hnetur og möndlur ættu að vera í lagi fyrir flesta.
  • Þurrkaðir ávextir, svo sem gráfíkjur, döðlur og rúsínur. 
  • Athuga þarf að fræ, rúsínur og fleira geta leynst í brauðum og bakkelsi.

Með útsjónasemi ættu flestir að geta borðað ýmislegt af ofantöldu og gott er að prófa sig áfram með fæðu sem getur stíflað, eina og eina fæðutegund í einu.  Mikilvægast til að koma í veg fyrir stíflu er þó að tyggja matinn vel, og á það við um hvaða mat sem er, og drekka nægilega mikið.

Fæða sem hefur áhrif á loft, lykt og það sem í pokann kemur

Með mataræði er hægt að hafa áhrif á loftmyndun, lykt og það sem í pokann kemur. Lyf og aðrir þættir hafa þó einnig áhrif og ekki skyldi hika við að hafa samband við lækni ef eitthvað virðist vera óeðlilegt.

  • Fæða sem getur verið loft- og/eða lyktmyndandi: Ýmiss konar hrátt grænmeti, svo sem hvítkál, gulrófur, brokkál, blómkál, ýmsar baunir, laukur og hvítlaukur, epli og melónur, rúgbrauð, egg, fiskur, gosdrykkir og bjór, djúpsteikt og fiturík fæða, sterkir ostar og sum krydd.
  • Annað sem getur haft áhrif á loftmyndun: Óregla á máltíðum, borðað hratt og tuggið illa, tyggjónotkun, drukkið með röri, tuggið með opinn munn, sætuefni.
  • Fæða sem getur hjálpað til þess að minnka lykt og loft: Fersk steinselja, jógúrt, súrmjólk eða ab-mjólk, kúmen.
  • Fæða sem getur þykkt: Þroskaðir bananar og bananaflögur, soðin epli og eplamauk, bláber, soðið pasta, hvít hrísgrjón, bygg, sagógrjón og hafrar, ostar og jógúrt, kartöflur og mjúkt (fínt) hnetusmjör.
  • Fæða sem getur þynnt: Þurrkaðir ávextir svo sem sveskjur, plómur, gráfíkjur og perur, niðursoðnir ávextir, sumt hrátt grænmeti og ferskir ávextir, appelsínu- og sveskjusafi, mikill sykur og sætindi, lakkrís, áfengi, bjór og kaffi, sterkt kryddaður og djúpsteiktur matur.

Helstu heimildir og frekari lestur


Birt í október 2020. Yfirfarið í janúar 2021.


Var efnið hjálplegt?