Radon

Ekki er talin ástæða til að hafa áhyggjur af radonstyrk á Íslandi eða bregðast við með sérstökum aðgerðum.

Þessi kafli er einungis til upplýsinga fyrir áhugasama, auk þess að gagnast Íslendingum búsettum erlendis.

Radon er geislavirk lofttegund og eitt af dótturefnum úrans. Það er helst að finna þar sem berggrunnurinn er úr graníti eða öðru úranríku bergi. Berggrunnurinn á Íslandi er að mestu úr basalti, sem er snautt af úrani. Radon er ósýnilegt og lyktarlaust og því þarf sérhæfð mælitæki til að greina það og meta styrk þess.

Radon eykur hættu á krabbameini í lungum, sé því andað að sér í miklum mæli. Fólk sem bæði reykir og býr við háan radonstyrk er í sérstakri áhættu á að fá lungnakrabbamein. Sums staðar erlendis þarf að gera ráðstafanir á heimilum og vinnustöðum til að draga úr magni radons í innilofti, sérstaklega á jarðhæð og í kjöllurum.

Samkvæmt rannsóknum Geislavarna ríkisins er styrkur radons í híbýlum á Íslandi mjög lítill og mun lægri en í nágrannalöndum okkar. Styrkurinn er langt undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins og því ekki talin ástæða til að bregðast við með sérstökum aðgerðum. Hér má lesa nýjustu skýrslu Geislavarna ríkisins um styrk radons í húsum á Íslandi.

Íslendingar búsettir erlendis, sem og aðrir áhugasamir, geta lesið sér frekar til um radon á heimasíðu alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunarinnar


Var efnið hjálplegt?