Óbeinar reykingar

Að hafa heimili reyklaus og styðja aðgerðir sem stuðla að reyklausum vinnustað.

Tengsl eru milli óbeinna reykinga á vinnustöðum og heimilum og veikinda sem væri hægt að koma í veg fyrir, þar með talið krabbameins. Yfirlit yfir skaðleg áhrif tóbaksnotkunar og óbeinna reykinga á heilsuna sést á mynd 1.

Fólk býr oft við tóbaksmettað andrúmsloft fyrir á heimilum sínum. Reglur sem varða reykingabann á heimilum eru mjög breytilegar í Evrópu og eru reyklaus heimili allt frá 31%-90% eftir löndum. Æskilegt er og mögulegt að auka varnir gegn óbeinum reykingum með því að bæði reykingamenn og reyklausir banni reykingar inni á heimilum og í bílum sínum.

Í Evrópulöndum þar sem reykingar á vinnustöðum eru enn leyfðar er besta leiðin að hrinda rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) um tóbaksvarnir í framkvæmd til að tryggja að allir vinnandi íbúar innan Evrópu búi fvið jöfnuð þegar kemur að vörnum gegn óbeinum reyk.

Obeinar-reykingar-1200px

Mynd 1: Skaðlegar afleiðingar beinna og óbeinna reykinga.

*Nægar vísbendingar sanna að reyklaust tóbak valdi krabbameini í þessum líffærum.

Heimild: Unnið upp úr Áhrif reykinga á heilsufar – framfarir í hálfa öld: Skýrsla landlæknis í BNA, Atlanta, GA: U.S. Department of Health and Human Services, Centers for Disease Control and Prevention, National Center for Chronic Disease Prevention and Health Promotion, Office on Smoking and Health, 2014, með leyfi U.S. Department of Health and Human Service.

Hvað eru óbeinar reykingar?

Óbeinar reykingar eru það þegar þeir sem reykja ekki anda að sér lofti í umhverfinu sem inniheldur tóbaksreyk sem kemur frá logandi tóbaki reykingamanns blandað reyknum sem reykingamaðurinn blæs frá sér.

Eru óbeinar reykingar skaðlegar heilsunni?

Óbeinar reykingar valda ótímabærum dauða og ýmsum sjúkdómum. Þær valda lungnakrabbameini, kransæðasjúkdómum og öndunarfærasjúkdómum, auk þess að hafa slæm áhrif á t.d. asma. Í sumum löndum er enn leyft að reykja á tilteknum vinnustöðum, eins og börum og veitingahúsum og er starfsfólk slíkra staða í mikilli hættu á að verða fyrir óbeinum reykingum.

Talið er að í Bretlandi valdi óbeinar reykingar 14-15% tilfella lungnakrabbameins hjá þeim sem ekki reykja. Þetta hlutfall er hugsanlega hærra í löndum þar sem fleiri verða fyrir tóbaksreyk, til dæmis þar sem reykingar eru algengari en í Bretlandi eða þar sem frekar er reykt á heimilum.  

Sé sérstaklega litið til þess hóps sem aldrei hefur reykt þá eru þeir sem verða fyrir óbeinum reykingum helmingi líklegri til að fá lungnakrabbamein samanborið við hina sem ekki eru í hættu á að verða fyrir óbeinum reykingum.

Reykingar draga úr vexti fósturs. Barnshafandi konur sem reykja sígarettur eignast börn sem eru að meðaltali 150-250 grömmum léttari en börn mæðra sem ekki reykja. Lægri fæðingarþyngd tengist aukinni tíðni heilsufarsvandamála í nýburum. Reykingar mæðra tengjast einnig aukinni hættu á skyndilegum ungbarnadauða (SIDS) og bráðum öndunar- og eyrnavandamálum í börnum.

Hvers vegna ættu þeir sem ekki reykja en anda að sér óbeinum reyk að hafa áhyggjur af því að fá lungnakrabbamein?

  • Í óbeinum tóbaksreyk eru krabbameinsvaldandi efni og efnasambönd sem losna út í andrúmsloftið við bruna reyktóbaks.
  • Þeir sem reykja ekki en eru þar sem reykt er anda að sér svipuðum efnasamböndum og krabbameinsvaldandi efnum og reykingamenn, til dæmis nítrósamínum sem finnast eingöngu í tóbaki og fjölhringa arómatískum kolvatnsefnum.
  • Rannsóknir hafa leitt í ljós að reyklausir einstaklingar sem búa við stöðugar óbeinar reykingar á vinnustað og/eða á heimili eru í tvöfalt meiri hættu á að fá lungnakrabbamein samanborið við þá sem ekki búa við óbeinar reykingar á vinnustað eða heimili.

Hversu stórt hlutfall Evrópubúa er útsett fyrir tóbaksreyk á heimilum sínum?

Það er breytilegt eftir löndum. Í könnun sem gerð var árið 2010 á 18.000 dæmigerðum fullorðnum einstaklingum í átján Evrópulöndum sögðu 63% að ekki mætti reykja á heimili þeirra (73% þeirra sem eru ekki reykingamenn og 34% reykingamanna). Lægsta hlutfallið var 31% í Króatíu en það hæsta 90% í Finnlandi.

Hver er ávinningurinn af reyklausum heimilum?

  • Reyklaus heimili draga úr hættunni á að fullorðnir og börn verði fyrir óbeinum reykingum.
  • Reyklaus heimili veita fullorðnum og börnum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir óbeinum tóbaksreyk vernd, til dæmis þeim sem eru með astma (eða fullorðnum með hjartasjúkdóma eða þráláta lungnasjúkdóma).
  • Börn reyklausra foreldra sem leyfa reykingar á heimilinu eru líklegri til að byrja að reykja en börn reyklausra foreldra sem banna reykingar á heimilinu.
  • Reykingamenn sem búa á reyklausum heimilum reykja færri sígarettur daglega.
  • Reyklaus heimili auðvelda þeim sem hafa hætt að reykja að halda reykbindindi.
  • Bann við reykingum á heimili gefur skýr skilaboð um að reykingar séu óásættanlegar.

Reyklaust heimili, þar sem ekki má reykja innanhúss undir neinum kringumstæðum, er áhrifaríkari forvörn gegn óbeinum reykingum heldur en ef bannið er ekki algjört. Heimili er ekki reyklaust ef reykt er við glugga eða við opnar dyr.

Draga má enn frekar úr hættunni á óbeinum reykingum með því að reykja ekki í bílum og öðrum einkafarartækjum þegar börn og reyklausir farþegar eru með. Mikið af tóbaksreyk hefur mælst í bílum þegar reykt er í þeim og ekki dugar að opna glugga til að koma i veg fyrir áhrif af reyknum. Lög voru sett í Englandi árið 2015 sem banna reykingar í einkabílum þegar börn eru farþegar. Sambærileg lög eru í nokkrum öðrum löndum auk þess sem fleiri lönd íhuga slíka lagasetningu.

Hafa reykingar eins reykingamanns áhrif á reykingar annarra? 

Reykingar eins geta haft áhrif á reykingahegðun annarra, sérstaklega ef viðkomandi er fyrirmynd yngra fólks, t.d. foreldri eða eldra systkini. Ef einhver á heimili reykir, er líklegra að fleiri á heimilinu reyki líka, sérstaklega ungt fólk sem verður fyrir áhrifum frá foreldrum og systkinum.

Verður fólk fyrir óbeinum reykingum á vinnustöðum í löndum Evrópusambandsins?

Já, í mörgum löndum Evrópusambandsins. Þrátt fyrir að reglur séu í gildi í öllum þessum löndum, þar sem kemur fram hvar má leyfa reykingar, er mismunandi eftir löndum hversu víðtækt reykbannið er (hvort það nái til allra vinnustaða innanhúss, almenningssamganga, opinberra bygginga og annarra almenningsstaða sem eru ekki endilega innandyra). Eftirlit með því hvort lögunum sé framfylgt er einnig mjög breytilegt eftir löndum.

Samkvæmt könnun sem var gerð á vegum Evrópusambandsins árið 2012, þar sem úrtakið var 12.000 einstaklingar í 27 löndum, sögðust yfir 25% þeirra sem haft var samband við verða að minnsta kosti öðru hverju fyrir óbeinum reykingum á vinnustað. Heildarhutfall svarenda sem voru lengst í óbeinum reyk í vinnunni (í meira en fimm klukkustundir á dag) var 3% (5% reykingamanna og 1% reyklausra). Þegar á heildina er litið, sögðust 14% þeirra sem höfðu farið á veitingahús allt að hálfu ári áður en könnunin var gerð hafa séð reykt þar inni. Þetta hlutfall var hærra fyrir þá sem fóru á bari eða 28%. 

Mynd 2. Hlutfall svarenda í könnuninni sem sögðust verða fyrir óbeinum reykingum á börum, á veitingahúsum og á vinnustað árin 2009 og 2012, í ríkjum Evrópusambandsins í heild og hverju landi fyrir sig. 

Obeinar-mynd2

Mynd 2a -  Hlutfall þeirra sem verða fyrir óbeinum reykingum í 27 löndum í Evrópu 2009 og 2012

Obeinar-mynd2b

Mynd 2b -  Hlutfall þeirra sem verða fyrir óbeinum reykingum í 27 löndum í Evrópu 2009 og 2012

Obeinar-mynd2c

Mynd 2c – Hlutfall þeirra sem verða fyrir óbeinum reykingum í 27 löndum í Evrópu 2009 og 2012


Hver er ávinningur þess að innleiða reglugerð sem stefnir að því að gera umhverfið reyklaust?

Ávinningur af því að innleiða reglur sem stuðla að reyklausu umhverfi er mikill:

  • Verndar alla fyrir hættunni sem fylgir óbeinum reykingum.
  • Breytir félagslegum viðmiðum með því að gera reykingar síður ásættanlegar en það dregur bæði úr beinum og óbeinum reykingum.
  • Minnkar hættuna á því að fólk verði fyrir óbeinum reykingum, dregur úr heilsufarslegum ójöfnuði sem fylgir því að búa við óbeinar reykingar á vinnustað, dregur úr hættu á hjartasjúkdómum og dregur úr sjúkdómseinkennum í öndunarfærum fólks sem hefur orðið fyrir óbeinum reykingum á vinnustöðum.
  • Hefur jákvæð áhrif á fyrirtæki (nema tóbaksiðnaðinn) á ýmsan hátt, eins og að bæta heilsu og framleiðni starfsfólks. Enn fremur minnkar kostnaður þegar ekki þarf að þrífa óhreinindi sem fylgja reykingum á vinnustaðnum og viðhalda sérstöku reykherbergi. Reglur um reyklausa vinnustaði leiða ekki til minni umsvifa veitingahúsa og knæpa.
  • Minnkar sígarettureykingar hjá þeim sem reykja og eykur líkur á að þeir sem hætta haldi reykbindindi.
  • Minnkar tóbaksnotkum meðal unglinga.
  • Leiðir til reyklausra heimila.

Sé land aðili að samningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir er því skylt samkvæmt lögum að skila skýrslum með reglulegu millibili um framkvæmd samningsins, þar með talið útfærslu stefnu um reyklaust umhverfi. Hægt er að lesa nýjustu framvinduskýrslu um samninginn. Finna má upplýsingar frá öllum aðildarlöndum, þar með talið Íslandi, í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um alþjóðlega tóbaksfaraldurinn (global tobacco epidemic).

Desember 2017



Var efnið hjálplegt?