Hvers vegna drepa ónæmisfrumur ekki allar krabbameinsfrumur?

Berglind Ósk Einarsdóttir rannsakar hvernig sortuæxlisfrumur komast hjá því að vera drepnar af ónæmiskerfinu.

Ónæmisfrumur líkamans hafa það hlutverk að finna og eyða frumum sem geta valdið okkur skaða, til dæmis þeim sem eru orðnar illkynja krabbameinsfrumur. Því miður gerist það alltof oft að illkynja krabbameinsfrumur ná að koma sér undan árás ónæmisfrumnanna og mynda æxli.

Berglind Ósk Einarsdóttir nýdoktor í hópi Eiríks Steingrímssonar við Læknadeild Háskóla Íslands rannsakar þetta og einbeitir sér að hlutverki MITF próteinsins í ónæmisforðun sortuæxla. Árlega greinast tæplega 50 einstaklingar á Íslandi með sortuæxli og um 11 látast að meðaltali á ári úr sjúkdómnum.

Rannsóknin mun auka skilning á því hvernig sortuæxlisfrumur komast undan árás ónæmisfrumna. Einnig eykur hún skilning á því hvernig sortuæxlisfrumur geta myndað ónæmi gegn ónæmismeðferð. Með auknum skilningi á þessum ferlum verður hægt að sérsníða meðferð betur að sjúklingum og einnig þróa sértæka meðferð gegn ónæmu krabbameinsfrumunum.”

Verkefnið Hlutverk MITF í hindrun ónæmissvars sortuæxla hlaut 6,2 milljón kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021.