Hvers vegna drepa ónæmisfrumur ekki allar krabbameinsfrumur?

Berglind Ósk Einarsdóttir rannsakar hvernig sortuæxlisfrumur komast hjá því að vera drepnar af ónæmiskerfinu.

Ónæmisfrumur líkamans hafa það hlutverk að finna og eyða frumum sem geta valdið okkur skaða, til dæmis þeim sem eru orðnar illkynja krabbameinsfrumur. Því miður gerist það alltof oft að illkynja krabbameinsfrumur ná að koma sér undan árás ónæmisfrumnanna og mynda æxli.

Berglind Ósk Einarsdóttir nýdoktor í hópi Eiríks Steingrímssonar við Læknadeild Háskóla Íslands rannsakar þetta og einbeitir sér að hlutverki MITF próteinsins í ónæmisforðun sortuæxla. Árlega greinast tæplega 50 einstaklingar á Íslandi með sortuæxli og um 11 látast að meðaltali á ári úr sjúkdómnum.

Rannsóknin mun auka skilning á því hvernig sortuæxlisfrumur komast undan árás ónæmisfrumna. Einnig eykur hún skilning á því hvernig sortuæxlisfrumur geta myndað ónæmi gegn ónæmismeðferð. Með auknum skilningi á þessum ferlum verður hægt að sérsníða meðferð betur að sjúklingum og einnig þróa sértæka meðferð gegn ónæmu krabbameinsfrumunum.”

Verkefnið Hlutverk MITF í hindrun ónæmissvars sortuæxla hlaut 6,2 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021, 6 milljóna króna styrk árið 2022 og 8 milljón króna styrk árið 2023. 

Framvinda (mars 2022)

Við höfum náð því markmiði sem við settum okkur fyrir fyrsta árið í þessari rannsókn. Við höfum útbúið þær frumulínur sem notaðar verða til að svara því hvert hlutverk MITF umritunarþáttarins er í ónæmisforðun sortuæxla. Einnig höfum við sýnt fram á getu sortuæxlisfrumna með lága MITF tjáningu til að tjá viðtaka á yfirboði frumnanna sem tekur þátt í að hindra getu ónæmisfrumna til að drepa sortuæxlisfrumur eftir örvun með frumuboðefnum. Auk þess hefur okkur tekist að einangra exósóm sem sortuæxlisfrumur seyta frá sér, og munum við athuga hvort þessir sömu viðtakar séu til staðar á exósómum, sem getur þýtt að sortuæxlisfrumur með lága MITF tjáningu geta haft hindrandi áhrif á ónæmisfrumur sem staðsettar eru fjarri krabbameinsæxlinu sem þær eru staðsettar í. Þessar niðurstöður gefa okkur ástæðu til að taka næsta skref í rannsókninni sem verður að athuga hvort þessir sömu ferlar hafi árif á svörun sortuæxlissjúklinga við ónæmismeðferð.