Gæti hindrað bakteríu­sýkingar í krabba­meins­sjúklingum án sýkla­lyfja

Guðmundur Hrafn Guðmundsson rannsakar möguleika á að koma í veg fyrir að bakteríur í görninni komist inn í vefi líkamans og valdi sýkingum.

Alvarlegir fylgkvillar lyfjameðferðar krabbameinssjúklinga eru brostnar þekjuvarnir og daufkjörungafæð sem geta leitt til sýkinga í blóði og innri líffærum mannslíkamans.

Guðmundur Hrafn Guðmundssson, prófessor við Háskóla Íslands, fer fyrir rannsóknahópi sem hefur lengi unnið að athugunum á yfirborðsvörnum með áherslu á varnar-peptíð (e. host defense peptides). Varnarpeptíðin eru mikilvæg sem fyrsta virka vörn yfirborðs gegn sýklum, þau hafa áhrif á samsetningu þarmaflórunnar og binda viðtaka til virkjunar á ónæmisfrumum gegn sýkingum. Varnarpeptíðin eru breiðvirk og unnið hefur verið að því lengi að nýta peptíðin gegn sýkingum. 

Hugmyndin í þessu verkefni er að virkja tjáningu peptíðanna tengt lyfjameðferð gegn krabbameinum og koma í veg fyrir að bakteríur í görninni komist inn í vefi líkamans og valdi sýkingum. Rannsóknahópurinn hefur hannað og búið svokölluð APD (aroylated phenylene-diamines) efni sem styrkja frumutengsl í þekjuvef og örva einnig framleiðslu varnarpeptíða. Í þessu verkefni ætlum við að rannsaka hvort APD efnin hindri yfirfærslu sjúkdómsvaldandi jafnvel banvænna E. coli stofna í músum á krabbameinslyfjum.

„Jákvæðar niðurstöður úr þessu verkefni getur greitt fyrir þróun og síðar framleiðslu lyfja sem hindra bakteríusýkingar í krabbameinsjúklingum án sýklalyfja.” segir Guðmundur Hrafn


Verkefnið Ónæmisstyrking gegn hitatengdri daufkyrningafæð án sýklalyfja hlaut 6 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2022

Niðurstöður (mars 2023)

Niðurstöður okkar sýna að með því að styrkja náttúrulega ónæmiskerfið og tjáningu varnarefna í þekjufrumum má hindra bakteríufærslu úr görn í blóð innri líffæri. Í framhaldinu þarf að skilgreina á sameindagrunni boðleiðir og virkni-sameindir in vivo. Efnið sem prófað var í tilraununum eru lofandi og verða þróuð áfram með það að markmiði að þau geti nýst í krabbameinsmeðferðum.