Heilsamín
  • Notist daglega
  • Endurnýjast sjálfkrafa
  • Geymist þar sem börn ná til

Hreyfum okkur daglega

Regluleg hreyfing á hvaða formi sem er hjálpar til við að draga úr líkum á krabbameinum. Þannig minnkar hreyfing líkur á krabbameini í brjóstum, ristli og endaþarmi og legbol. Einnig eru vísbendingar um að regluleg miðlungserfið hreyfing minnki líkur á krabbamein í blöðruhálskirtli.

Hreyfing hefur jákvæð áhrif á hormónajafnvægi líkamans, minnkar bólgumyndun og hraðar ferð fæðunnar í gegnum meltingarveginn. Þar sem hreyfing er einnig mikilvægur þáttur í þyngdarstjórnun þá getur hreyfing haft verndandi áhrif gegn krabbameinum sem tengjast of hárri líkamsþyngd.

Embætti landlæknis ráðleggur  að fullorðnir hreyfi sig að lágmarki 30 mínútur á dag (þarf ekki að vera samfelldur tími) og börn hreyfi sig í klukkutíma á dag.

Dæmi  um miðlungserfiða hreyfingu þar sem hjartsláttur og öndun verður örari þó hægt sé að halda uppi samræðum er ganga, garðvinna, heimilisþrif, hjólreiðar, sund eða skokk.

Dæmi um erfiða hreyfingu sem kallar fram svita og mæði þannig að erfitt er að halda uppi samræðum er rösk fjallaganga, snjómokstur, hlaup og flestar keppnisíþróttir.

Höfum líka í huga að reyna að takmarka kyrrsetu eins mikið og hægt er yfir daginn, til dæmis með því að standa upp reglulega í vinnunni, nota virkan ferðamáta til og frá vinnu og leggja bílnum langt frá áfangastað.

Nánari upplýsingar má finna hér:

Physical activity - World Cancer Research Fund

Physical activity and cancer - European Code against Cancer

Kræft og bevægelse og motion - Kræftens bekæmpelse

Ráðleggingar um hreyfingu - Embætti landlæknis


Var efnið hjálplegt?