Ingibjörg Gréta Gísladóttir 24. apr. 2024

Veganesti frá Krabbameinsfélaginu

Eitt af markmiðum Krabbameinsfélagsins er að lífsgæði fólks með krabbamein séu sem best.

Krabbameinsfélagið er til staðar fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þess og hefur það að markmiði að enginn þurfi að takast einn á við krabbamein. Það er flestum mikið áfall að greinast með krabbamein og einstaklingar upplifa gjarnan að missa stjórn á lífi sínu sem getur fyllt þá vanmætti. Mörg hafa lýst því þannig að allt í einu sé sem lífið standi í stað á sama tíma og þeim er kippt inn í óþekktan veruleika með fjölmörgum nýjum andlitum, ógrynni af upplýsingum og nýjum og framandi orðum.

Til staðar þegar þú þarft á stuðningi að halda

Hjá Krabbameinsfélaginu getur fólk með krabbamein og aðstandendur fengið ókeypis stuðning og ráðgjöf sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa. Við veitum upplýsingar um réttindi í veikindunum og bjóðum upp á fjölbreytt námskeið til að bregðast við þekktum aukaverkunum sem orsakast geta af krabbameininu sjálfu, meðferðinni eða að meðferð lokinni. Stuðningshópar og jafningjastuðningur er í boði frá fólki sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og hefur fengið þjálfun í að styðja aðra, í gegnum Stuðningsnetið. Þá er í boði húsnæði fyrir fólk utan af landi á meðan á krabbameinsmeðferð stendur.

Veganesti

Í nýjum aðstæðum er gagnlegt að fá leiðsögn. Í janúar síðastliðnum hóf Krabbameinsfélagið að deila út svokölluðu Veganesti til þeirra sem greinast með krabbamein. Veganestið er bæði gagnlegar upplýsingar og gagnlegir hlutir sem gott er að hafa við höndina.

Veganestið kemur í poka merktum Krabbameinsfélaginu og er:

  • Tannbursti - Því lyfjameðferð getur haft áhrif á tennur og tannhold og gott er þá að nota mjúkan tannbursta.

  • Stressbolti - Hjálpar til við að losa um spennu og örvar blóðrás í lófa og handlegg. Fyrir þau sem fá sogæðabjúg í hönd og handlegg í kjölfar skurð- eða geislameðferðar getur verið gott að gera æfingar með stressbolta til þess að örva sogæðakerfið og draga úr sogæðabjúg.

  • Dagbók og penni - Mörgum finnst gott að skrá allt sem viðkemur meðferðinni í dagbók til þess að halda yfirsýn og skipulagi. Einnig er gott að nota dagbókina til að skrifa niður vangaveltur og halda utan um spurningar. Gott er að skipuleggja öðru hverju skemmtilega viðburði eins og vinahitting eða hádegisstefnumót sem þú getur hlakkað til.

  • Camelbak drykkjarmál - Fyrir líkamlega heilsu og vellíðan er mikilvægt að drekka nóg af vatni, má nota fyrir kalda og heita drykki.

  • HAp+molar – Góðir við munnþurrki sem er algengur fylgikvilli krabbameinslyfja.

  • Kynningarbæklingar:
    Í kjölfar krabbameins sem gefur innsýn í ýmislegt sem algengt er að þeir sem greinast með krabbamein upplifi, ráð sem mögulega gætu komið að gagni og upplýsingar um þá þjónustu sem Krabbameinsfélagið býður upp á fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur.

    Léttu þér lífið í lyfjameðferð sem eru gagnleg ráð fyrir þau sem standa frammi fyrir lyfjameðferð og fjölskyldu og vini þeirra, frá aðilum sem hafa gengið í gegnum meðferð sjálfir.

Starfsfólk krabbameinsdeilda Landspítalans dreifa Veganestinu til fólks sem greinist með krabbamein. Þar sem ekki er víst að náist til allra er einnig hægt að hafa samband við félagið með tölvupósti á radgjof@krabb.is , í síma 800 4040 eða koma við hjá okkur, í Skógarhlíð 8 til að fá Veganesti.