Anna Margrét Björnsdóttir 16. jan. 2024

„Skiptir máli að huga að grunnstoðunum, efla jákvæða hugsun og horfa inn á við“

  • Erla Björnsdóttir

Að greinast með krabbamein, eða að eiga náinn ættingja sem greinist með krabbamein, kollvarpar oftast lífi fólks og getur haft miklar breytingar í för með sér. Greiningin er mörgum hvati til endurskoðunar, til að staldra við og velta fyrir sér hvað það er sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Við slík tímamót getur verið hjálplegt að spyrja sig hvert ferðinni sé heitið og hvernig ætlunin sé að komast þangað. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum, segir hér frá því hvernig markmiðasetning getur gagnast á þeirri vegferð. 

Ástríða fyrir skipulagi varð að fyrirtæki

Erla Björnsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Betri svefn og hefur helgað líf sitt undanfarin 15 ár að hjálpa fólki sem glímir við svefnleysi. Hún hefur einnig mikla ástríðu fyrir markmiðasetningu og því hvernig gott skipulag og góðar venjur geta gert lífið auðveldara. Hún stofnaði því fyrirtækið MUNUM ásamt Þóru Hrund Guðbrandsdóttur en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu sérhannaðra dagbóka, auk þess sem þær halda vinnustofur og fyrirlestra um markmiðasetningu og jákvæða sálfræði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á dagbókum og skipulagi og áður en við byrjuðum að gera MUNUM dagbækurnar var ég oft að vinna með þrjár eða fjórar dagbækur í einu,“ segir Erla. „Ég var með eina fyrir skipulag, aðra fyrir markmiðin mín, enn aðra fyrir vinnuna og þetta var allt orðið svolítið flókið. Við Þóra eigum þetta sameiginlegt og vorum bókstaflega að bera saman bækur okkar yfir kaffibolla þegar sú hugmynd kviknaði að sameina allt sem okkur vantaði í eina fullkomna dagbók. Þannig varð MUNUM til.“

Markmiðasetning á að vera skemmtileg

Hugmyndafræði þeirra byggir á grunnstoðunum venjur, tímastjórnun, skipulag, jákvæð hugsun og markmið, en einnig á hugmyndinni um 360 gráðu heilsu, sem nær yfir mataræði, svefn og hreyfingu á hverjum degi. Fljótlega fundu þær fyrir almennum áhuga á markmiðasetningu og fóru að fá fyrirspurnir um námskeið. „Eftir að bókin kom fyrst út fórum við að fá fyrirspurnir frá einstaklingum um þjálfun í því hvernig best væri að nota hana. Það vatt upp á sig og í dag bjóðum við upp á rafræn námskeið í markmiðasetningu og jákvæðri sálfræði. Á námskeiðunum erum við að kenna leiðir til að forðast þessi algengu mistök og hjálpa fólki að hámarka líkur á að ná markmiðum sínum. Við kennum þeim líka að það er í lagi að gera mistök og að það er ástæðulaust að leggja árar í bát þótt farið sé út af sporinu. Frekar að spyrja sig hvað fór úrskeiðis og hvernig sé hægt að læra af því.“

Erla segir markmiðasetningu geta haft afar jákvæð áhrif á líf fólks, bæði til að draga úr streitu og minnka flækjustig, en að of margir nálgist markmiðasetningu út frá því sem þurfi að gera, í stað þess að einblína á það jákvæða. „Þetta gengur allt út á að einfalda lífið og gefa okkur meiri tíma í þá hluti sem virkilega næra okkur og skipta máli. Markmiðasetning á að vera skemmtileg, þetta á ekki bara að snúast um allt sem við þurfum að hætta að gera, heldur líka það sem við viljum gera meira af. Þetta snýst um að við séum ekki bara föst í því að slökkva elda og sinna áreiti, heldur séum að vinna að því að láta drauma okkar rætast. Það er ástríðan sem er að baki þessu.“

Hugað að grunnstoðunum

Krabbameinsfélagið býður reglulega upp á námskeið í markmiðasetningu og jákvæðri sálfræði sem þær Erla og Þóra hafa séð um. Að sögn Erlu er gefandi að fylgja hópunum eftir á sinni vegferð og hefur hún almennt fundið fyrir miklum áhuga og eldmóð hjá þátttakendum. „Þetta er oft fólk sem er að ganga í gegnum erfiða tíma og glíma við miklar áskoranir. Þá skiptir mjög miklu máli að huga að grunnstoðunum, efla jákvæða og þakkláta hugsun og kannski líka að horfa svolítið inn á við. Því þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum förum við oft að spyrja okkur hvað skipti okkur raunverulega máli. Við verðum mjög móttækileg fyrir þessum vangaveltum og eigum auðveldara með að fylgja þeim eftir.“

SMART-markmiðasetning

Einhverjir þekkja eflaust hugmyndina um SMART-markmið, markmið sem eru skýr, mælanleg, aðgerðamiðuð, raunhæf og takmörkuð við tíma. Fyrir þau sem vilja byrja að prófa sig áfram í markmiðasetningu mælir Erla með því að einblína á raunhæf og sértæk markmið. „Það skiptir máli að byrja smátt og reyna að vera skýr með hvað við ætlum okkur. Ekki setja okkur markmið um að hreyfa okkur meira heldur brjóta það niður. Að ætla sér frekar að hreyfa sig ákveðið mikið á dag eða viku er sértækt og mælanlegt markmið með tímaramma og því líklegra til árangurs.“

Erla mælir líka með reglulegri endurskoðun á markmiðum. „Við erum gjörn á að líta um öxl á ársgrundvelli, gjarnan um áramótin, en það reynist oft gagnlegra að þrengja tímarammann. Ef við stöldrum við á þriggja mánaða fresti til dæmis og endurskoðum markmiðin okkar þá gefst okkur betra tækifæri til að aðlaga aðferðafræðina.“ Síðast en ekki síst segir Erla mikilvægt að setja sér skemmtileg markmið og alls ekki gleyma að verðlauna sig. „Við megum öll við því að vera duglegri að vera góð við okkur sjálf. Sýna okkur sjálfsmildi, peppa og hrósa og vera með einhverja gulrót til að fagna góðum árangri.“