Guðmundur Pálsson 28. maí 2020

Evrópska krabba­meins­vikan #4

Lífið eftir krabbamein

Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Að greinast með krabbamein er flestum mikið áfall og erfitt getur verið að finna aftur jafnvægi í lífinu við hinar breyttu aðstæður. Krabbameinsmeðferð reynir á, hvort sem það er skurðaðgerð, lyfjameðferð eða geislameðferð og oft þarf að beita fleiri en einni tegund meðferða.

Í árslok 2018 voru yfir 15 þúsund Íslendingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein. Með betri greiningartækni og áhrifaríkari meðferðarúrræðum hafa lífslíkur þeirra sem greinast með krabbamein aukist verulega. Um 66% karla og 71% kvenna sem fá krabbamein eru á lífi fimm árum eftir greiningu en þessar tölur eru þó breytilegar eftir tegundum krabbameina. Fimm ára lífshorfur hafa því meira en tvöfaldast frá því skráning hófst og ekkert bendir til annars en að sú jákvæða þróun haldi áfram.

Það getur verið áskorun að takast á við lífið eftir krabbameinsmeðferð. Ef til vill eru aðstæður breyttar og lífið horfir öðruvísi við. Mikilvægt er að ætla sér ekki um of, það skiptir miklu máli að hlusta á líkamann og fara hægt af stað. Krabbameinsmeðferð getur haft mikil og langvarandi áhrif á heilsufar og líðan. Úthaldið getur verið minna í dag heldur en í gær og orkan getur sveiflast milli daga. Með endurhæfingu við hæfi er hægt að draga úr mörgum aukaverkunum og bæta lífsgæði með því að huga að reglulegri hreyfingu og þjálfun. Endurhæfing ætti að hefjast um leið og greining krabbameins á sér stað og er mikilvæg í gegnum allt ferlið. Það skiptir líka miklu máli að hlúa að andlegri líðan og vera vakandi fyrir streitu, vanlíðan eða depurð.

Við hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins erum til taks og veitum ráðgjöf og stuðning fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og fyrir aðstandendur þeirra. Hjá Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, djúpslökun, ýmis námskeið og hagnýtar upplýsingar um réttindi fólks með krabbamein. Við erum við símann alla virka daga frá kl. 9-16 í síma 800 4040 en einnig er hægt að senda á okkur fyrirspurn á radgjof@krabb.is. Einnig er boðið uppá ráðgjöf á landsbyggðinni.


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?