• Leghálsinn

Leghálskrabbamein

Taktu prófið!

Kannaðu þekkingu þína á ýmsum þáttum varðandi leghálskrabbamein. 


1Leghálskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hjá konum á Íslandi.

Rétta svarið er: "Rangt"

Leghálskrabbamein er nú þrettánda algengasta krabbameina kvenna á Íslandi.  

Á heimsvísu er það hinsvegar fjórða algengasta mein kvenna. Hér á Íslandi og í fleiri löndum þar sem skimað hefur verið fyrir þessum meinum um langt árabil eru þau mun óalgengari, skimunin hefur komið í veg fyrir fjölmörg tilfelli leghálskrabbameins þar sem langt gengnar frumubreytingar eru fjarlægðar áður en þær þróast yfir í krabbamein. 

Áætlað er að hérlendis hafi skimunin forðað fleiri en 400 konum frá dauða af völdum leghálskrabbameins.

Að meðaltali greinast um 18 konur árlega með leghálskrabbamein og er hlutfall leghálskrabbameins af öllum krabbameinum um 2%.


2Í 99% tilfella orsakast leghálskrabbamein af HPV-veirum sem smitast við kynlíf.

Rétta svarið er: "Rétt"

HPV-veirur (Human Papilloma Virus) valda sjúkdómnum í 99% tilfella. Þekktar eru fjölmargar tegundir HPV-veira. Flestar þeirra eru ekki krabbameinsvaldandi en um 14 tegundir sem geta smitast við kynlíf eru kallaðar há-áhættu tegundir (krabbameinsvaldandi HPV) og geta orsakað alvarlegar frumubreytingar og leghálskrabbamein. Við skimun eru gerðar HPV-mælingar á leghálssýnum í þeim tilgangi að rannsaka hvort einhver þessara 14 há-áhættu HPV-veira sé til staðar. 

HPV-veirusmit eru mjög algeng og langflestar HPV-sýkingar hættulausar og ganga til baka en sumar verða viðvarandi og geta valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein.


3Langflest tilfelli leghálskrabbameins greinast hjá konum sem eru sextíu ára eða eldri

Rétta svarið er: "Rangt"

Um helmingur kvenna sem greinist með leghálskrabbamein er yngri en 45 ára en um 20% eru konur sem eru sextíu ára og eldri. 


4Smokkurinn veitir enga vörn gegn leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rangt"

Smokkurinn veitir góða vörn gegn leghálskrabbameini með því að verja gegn HPV-veiru smiti á þeim svæðum sem hann hylur. Smokkurinn veitir þó ekki fulkomna vernd gegn HPV-veirum almennt vegna þess að hann hylur ekki öll svæði sem geta sýkst, HPV-veirur geta verið á öllu nærbuxnasvæðinu.


5Konur ættu að mæta í skimun þó þær hafi fengið HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

Talið er að bólusetningin gefi a.m.k. 70% vörn gegn leghálskrabbameini. Þar sem ekki fæst full vörn með bólusetningunni ættu konur því líka að fara reglulega í skimun fyrir leghálskrabbameini, jafnvel þó þær séu bólusettar gegn HPV.

6Konur ættu að mæta í skimun fyrir leghálskrabbameinum þó að þær finni ekki fyrir neinum einkennum. 

Rétta svarið er: "Rétt"

Leghálskrabbamein og/eða forstig þess er einkennalaust í byrjun. Skimun fyrir leghálskrabbameinum er ætluð einkennalausum konum. Með því að mæta reglulega í skimun (þegar boð berast) er yfirleitt hægt að greina meinið það snemma að hægt er að koma í veg fyrir það eða lækna. Ef kona verður hinsvegar vör við einhver einkenni sem geta vakið grun um leghálskrabbamein á hún að leita til læknis en EKKI bíða eftir næsta boði í skimun. 


7Óreglulegar blæðingar stafa líklega af leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rangt"

Óreglulegar blæðingar eða milliblæðingar eru langoftast af saklausari toga. Þær geta þó verið merki um leghálskrabbamein. Önnur einkenni sem geta verið merki um leghálskrabbamein eru óþægindi við samfarir, blæðing eftir samfarir, auknar blæðingar eða útferð. Þó að líklegast sé að þessi einkenni eigi sér aðrar orsakir en krabbamein er mikilvægt að leita til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis verði þeirra vart.


8Sígarettureykingar eru áhættuþáttur fyrir leghálskrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

Sígarettureykingar auka líkur á leghálskrabbameini. Nikótín og önnur efni í tóbaksreyk finnast í leghálssýni þeirra kvenna sem reykja og þær sem reykja eru líklegri til að vera með viðvarandi HPV-smit.

Aðrir þættir sem geta verið samverkandi HPV_sýkingum og aukið áhættu á leghálskrabbameini : 

-að byrja mjög ung að stunda kynlíf

-að eiga marga rekkjunauta 

-aðrar sýkingar í kynfærum, t.d. klamydíusmit virðist auka líkur á leghálskrabbameini.


9Hægt er að lækna HPV-sýkingu.

Rétta svarið er: "Rangt"

Þó ekki sé hægt að lækna sjálfa HPV-sýkinguna þá er hægt að skera burt sýktar frumur (svokallaðar frumubreytingar). Með því móti er komið í veg fyrir að leghálskrabbamein myndist. Hér á landi er þetta gert með svokölluðum keiluskurði. Þetta er ástæða þess hve mikilvægt er fyrir konur að mæta reglulega í skimun (þegar boð berast). Þá er hægt að greina og hafa eftirlit með frumubreytingum áður en þær þróast í leghálskrabbamein.

 



Var efnið hjálplegt?