Um Vísinda­sjóðinn

Hér má lesa um stofnun, starfsemi, skipulag og reglur Vísindasjóðsins. Upplýsingar fyrir sjóðsstjórn og Vísindaráð, ársreikningar og ársskýrslur.

Vísindasjóðurinn var stofnaður 16. desember 2015 af Krabbameinsfélagi Íslands, svæðafélögum og stuðningshópum. Jafnframt runnu tvær erfðagjafir inn í sjóðinn; Minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur, fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna. Stofnfé sjóðsins voru rúmar 250 milljónir króna. 

Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. 

Með hliðsjón af því stofnframlagi sem kom úr sjóði Kristínar Björnsdóttur er sérstaklega tekið fram að sjóðurinn styrkir rannsóknir krabbameina í börnum og unglingum og aðhlynningu krabbameinssjúkra barna.

Krabbameinsfélag Íslands fjármagnar sjóðinn með styrkjum og gjöfum frá almenningi og fyrirtækjum.

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands
Kennitala sjóðsins:  620316-1800
Skógarhlíð 8, 105 Reykjavík

Fyrirspurnum má koma á framfæri á netfangið visindasjodur@krabb.is.

Úthlutanir úr sjóðnum

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur úthlutað styrkjum að vori til síðan árið 2017. 

Úthlutun 2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023 var úthlutað í áttunda sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 71,1 milljónir króna og voru 12 verkefni styrkt. Þar af voru átta framhaldsverkefni og fjögur ný verkefni. Upplýsingar um styrki 2023 er að finna hér.

Úthlutun 2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022 var úthlutað í sjötta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 68 milljónir króna og voru 13 verkefni styrkt. Þar af voru níu framhaldsverkefni og fjögur ný verkefni. Upplýsingar um styrki 2022 er að finna hér.

Úthlutun 2021

Föstudaginn 28. maí 2021 var úthlutað í fimmta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 88,9 milljónir króna og voru 11 verkefni styrkt. Þar af voru fjögur framhaldsverkefni og sjö ný verkefni. Upplýsingar um styrki 2021 er að finna hér.

Úthlutun 2020

Laugardaginn 5. júní 2020 var úthlutað í fjórða sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 69,2 milljónir króna og voru 11 verkefni styrkt. Þar af voru fimm framhaldsverkefni og sex ný verkefni. Upplýsingar um styrki 2020 er að finna hér.

Úthlutun 2019

Föstudaginn 10. maí 2019 var úthlutað í þriðja sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 60,3 milljónir króna og voru 12 verkefni styrkt. Þar af voru sex verkefni að hljóta styrk í fyrsta sinn, þrjú verkefni hlutu styrk úr sjóðnum í annað sinn og þrjú verkefni hlutu styrk úr sjóðnum í þriðja sinn. Upplýsingar um styrki 2019 og lýsingar á rannsóknum er að finna hér.

Úthlutun 2018

Fimmtudaginn 17. maí 2018 var úthlutað í annað sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 55,5 milljónir króna og voru 13 verkefni styrkt. Upplýsingar um styrki 2018 og lýsingar á rannsóknum er að finna hér.

Úthlutun 2017

Laugardaginn 6. maí 2017 var úthlutað í fyrsta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 42,6 milljónir króna og voru 11 verkefni styrkt. Upplýsingar um styrki 2017 og lýsingar á rannsóknum er að finna hér. 

Styrktaraðilar sjóðsins

Fyrirtæki eða einstaklingar geta samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins orðið styrktaraðilar hans að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Framlag viðkomandi þarf að nema tiltekinni lágmarksfjárhæð eða ná yfir tiltekið lágmarkstímabil, hvoru tveggja skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.
  • Starfsemi viðkomandi má ekki vera í andstöðu við gildi og stefnu Krabbameinsfélags Íslands.

Stjórn félagsins tekur til umfjöllunar umsóknir og/eða tillögur að samningum við styrktaraðila. 

Heimilt er að veita styrktaraðila tímabundna heimild til að auðkenna sig opinberlega sem styrktaraðila sjóðsins og nota í kynningarefni sínu merki sjóðsins. Umfang og eðli heimildarinnar skal háð ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Hvernig tryggjum við stuðning við bestu rannsóknirnar?

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins leggur sig fram um að styðja bestu rannsóknir landsins á sviði krabbameina. Allar umsóknir sem berast fara í gegnum ítarlegt matsferli. Vísindaráð Krabbameinsfélagsins, sem hverju sinni er skipað níu reynslumiklum vísindamönnum með ólíka sérþekkingu, fer yfir allar umsóknirnar. 

Sérstaklega er lögð áhersla á að skoða hvort:

  • markmið rannsóknar sé skýrt og samræmist tilgangi sjóðsins.
  • stöðu þekkingar á fræðasviði verkefnisins sé vel lýst.
  • vísindalegt gildi verkefnis sé ótvírætt og rannsóknin leiði til nýrrar þekkingar.
  • vísindalegur styrkur umsækjenda sé útlistaður og að til staðar sé nauðsynleg aðstaða og fagleg þekking.
  • öllum þáttum aðferðafræðinnar sé lýst og val á úrtaki/þýði útskýrt.
  • rannsóknaráætlun sé raunhæf og í samræmi við markmið og skýrar upplýsingar gefnar um vinnufyrirkomulag og verkaskiptingu/vinnuframlag innan rannsóknarhópsins.
  • fjárhagsáætlun sé raunsæ og nákvæm og skýrt hvernig nota eigi peningana.

Vísindaráðið skilar umsögn um sérhverja umsókn þar sem heildarniðurstöður eru dregnar fram og tilteknir helstu kostir og gallar umsóknar. Vísindaráð leggur til vísindalega forgangsröðun á styrkumsóknum til stjórnar Vísindasjóðsins.

Stjórn Vísindasjóðsins, sem hverju sinni skal skipuð sjö einstaklingum, tekur síðan ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum.

Rynkebysjóður SKB

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) hefur gert samkomulag við Krabbameinsfélag Íslands og Vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands um meðferð umsókna og úthlutun styrkja úr Rynkebysjóði SKB. Sjóðurinn varð til við áheitasöfnun Team Rynkeby Ísland á árunum 2017 – 2021. SKB naut afraksturs áheitasöfnunarinnar og 80 milljónum skyldi varið til rannsókna á krabbameinum hjá börnum.

Við úthlutun styrkja úr Rynkebysjóðnum er unnið eftir skipulagsskrá, starfs- og úthlutunar­reglum VKÍ og starfsreglum Vísindaráðs KÍ eins og við á, með þeirri breytingu að styrkir úr sjóðnum skulu notaðir til vísindarannsókna á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum barna með krabbamein.

Hvert verkefni getur fengið úthlutað að hámarki 10 milljónum á hverju ári, að hámarki í þrjú ár. Athygli er vakin á að hægt er að sækja um vegna sömu verkefna í Rynkebysjóð SKB og Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins.

Stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins 

Stjórn sjóðsins skal móta stefnu hans, tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna sjóðsins og ber ábyrgð á að stofnframlag og aðrar eigur sjóðsins séu ávaxtaðar með tryggilegum hætti. Stjórn sjóðsins hefur ákvörðunarvald við úthlutun úr sjóðnum að fenginni umsögn Vísindaráðs um styrkumsóknir. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á því að úthlutun styrkja sé í samræmi við úthlutunarreglur og skipulagsskrá sjóðsins. 

Eftirfarandi aðilar skipa stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins árið 2024:

  • Magnús Karl Magnússon, formaður, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði
  • Freyja Birgisdóttir, dósent við Háskóla Íslands
  • Ásgerður Sverrisdóttir, krabbameinslæknir
  • Birna Þórisdóttir, lektor við Háskóla Íslands
  • Helgi Sigurðsson, krabbameinslæknir
  • Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur
  • Þorsteinn Víglundsson, forstjóri
  • Guðrún Kristjánsdóttir, varamaður, prófessor við Háskóla Íslands
  • Kristín Einarsdóttir, varamaður, 

Vísindaráð Krabbameinsfélagsins 

Hlutverk Vísindaráðs Krabbameinsfélags Íslands er að fjalla faglega um umsóknir um styrki í Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins og Norræna krabbameinssambandsins, NCU. Stjórn Krabbameinsfélags Íslands getur auk þess óskað umsagnar ráðsins um vísindaleg málefni.

Eftirfarandi aðilar skipa Vísindaráð Krabbameinsfélagsins árið 2024:

  • Þórunn Rafnar, formaður, deildarstjóri krabbameinsrannsókna hjá DeCode
  • Heiðdís Valdimarsdóttir, sálfræðingur og prófessor í HR
  • Judith Amalía Guðmundsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum og gigtlækningum barna og aðjúnkt við HÍ
  • Kristinn Pétur Magnússon, prófessor í sameindaerfðafræði við HA
  • Laufey Ámundadóttir, vísindamaður á National Cancer Institute
  • Sigurður Yngvi Kristinsson, blóðsjúkdómalæknir og prófessor í HÍ
  • Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor í HÍ
  • Þórður Óskarsson, doktor í sameindalíffræði við Moffitt Cancer Center

Ársreikningar Vísindasjóðs 

Árlegar skýrslur stjórnar Vísindasjóðs til stjórnar Krabbameinsfélags Íslands