Um Rannsóknasetrið

Sérhæfing í skráningu, meðferð gagna, tölfræði og rannsóknum á faraldsfræði krabbameina. Forvarnir og hagsbætur fyrir krabbameinsgreinda.

Rannsókna- og skráningarsetur

1. Bakgrunnur

Hér eru stundaðar vísindarannsóknir á faraldsfræði krabbameina, bæði innlendar og fjölþjóðlegar. Sérstök áhersla er lögð á að skilja umhverfistengdar og erfðafræðilegar orsakir krabbameina og að fylgjast með horfum sjúklinga og skilja hvaða þættir hafa áhrif á þær. Þar á meðal fylgjumst við með gæðum meðferðar og rannsökum upplifun sjúklinga og ástand eftir greiningu. Hér fer einnig fram skráning allra krabbameina á Íslandi allt frá árinu 1954, og höfum við því sérhæfingu í öflun og meðferð gagna, tölfræði og framsetningu. Allt starf okkar miðast að þeim markmiðum félagsins að koma í veg fyrir krabbamein og bæta horfur og lífsgæði þeirra sem greinast.

Starfsemi Rannsókna- og skráningarseturs samræmist bæði persónuverndarstefnu og öryggisstefnu Krabbameinsfélagsins. Öll meðferð persónugreinanlegra gagna fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 .

Hjá deildinni eru  varðveittir þrír  gagnagrunnar: Krabbameinsskrá Íslands, Heilsusögubanki og Ættagrunnur.

Starfsfólk Rannsókna- og skráningarseturs undirritar trúnaðaryfirlýsingu varðandi þagnarskyldu um allar persónugreinanlegar upplýsingar sem það meðhöndlar í starfi sínu við skrána í samræmi við lög nr 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins.

Gagnagrunnurinn Krabbameinsskrá Íslands

Krabbameinsskrá Íslands var stofnuð af Krabbameinsfélagi Íslands í samvinnu við Embætti Landlæknis árið 1954 og geymir upplýsingar um öll krabbamein og forstig þeirra  á Íslandi frá og með árinu 1955. Skráin nær til meir en 99% allra meina sem greinast hjá þjóðinni og er í flokki bestu krabbameinsskráa heims ásamt öðrum Norrænum skrám. Krabbameinsskrá Íslands fékk lagagrunn árið 2007 (lög nr 41/2007 og reglugerð nr 548/2008) og er hún því samkvæmt lögum ein af heilbrigðisskrám Landlæknis. Í framhaldi af lagasetningunni var gerður samningur milli Landlæknis og Krabbameinsfélags Íslands um rekstur, hýsingu, viðhald og vinnslu gagnagrunnsins. Krabbameinsfélagið og Heilbrigðisráðuneytið kosta í sameiningu rekstur skrárinnar.

Tilgangur Krabbameinsskrár Íslands er að afla þekkingar um krabbamein hér á landi, hafa eftirlit með greiningu og meðferð krabbameina, tryggja gæði og meta árangur. Heimilt er að nota upplýsingar úr skránni við gerð áætlana um gæðaþróun, erfðaráðgjöf og til vísindarannsókna. Leyfi Vísindasiðanefndar er skilyrði þess að rannsakendur fái aðgang að einstaklingsbundnum upplýsingum sem skráðar eru í Krabbameinsskrá Íslands.

Upplýsingar sem skráðar eru í Krabbameinskrá Íslands eru  varðveittar þangað til annað er ákveðið með lögum. Ekki er hægt að eyða gögnum úr Krabbameinsskrá Íslands.

Krabbameinsskráningin er í samræmi við leiðbeiningar Evrópusamtaka krabbameinsskráa (European Network of Cancer Registries, ENCR). Skráð er samkvæmt alþjóðlegri sjúkdómaflokkun (International Classification of Disease, ICD) og ICD-O (International Classification of Diseases for Oncology).

Upplýsingar til Krabbameinsskrár berast frá rannsóknarstofum í meinafræði og blóðmeinafræði, sjúkradeildum, heilsugæslustöðvum, einstökum læknum og læknastofum. Upplýsingar berast að jafnaði innan tveggja mánaða frá greiningu. Upplýsingar um mein þar sem ekki liggur fyrir meinafræðigreining koma til viðbótar úr Dánarmeinaskrá og Vistunarskrá heilbrigðisstofnana. Tölfræði krabbameina á ársgrundvelli er birt á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is

Heilsusögubanki

Heilsusögubankinn geymir upplýsingar um fæðinga- og blæðingasögutengda þætti, sem konur voru beðnar um að gefa þegar þær mættu í krabbameinsleit á árunum 1964-2008. Engar upplýsingar um krabbamein og forstig þeirra eru skráðar í Heilsusögubankann. Heilsusögubankinn fékk vinnsluheimild með leyfi Tölvunefndar 28.12.2000. Leyfi Vísindasiðanefndar er skilyrði þess að rannsakendur fái aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í Heilsusögbankann.

Ættagrunnur

Ættagrunnur er skrá yfir fjölskyldutengsl. Engar upplýsingar um krabbamein eða forstig þeirra eru skráðar. Upplýsingarnar koma frá Erfðafræðinefnd, útgefnum heimildum, kirkjubókum og manntölum. Ættagrunnurinn fékk vinnsluheimild með leyfi Tölvunefndar 28.12.2000. Leyfi Vísindasiðanefndar er skilyrði þess að rannsakendur fái aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í Ættargrunn.

2. Hvað er skráð

Krabbameinsskrá Íslands

Grunnupplýsingar eru skráðar fyrir alla sem greinst hafa frá og með árinu 1955. Til viðbótar eru sömu upplýsingar skráðar fyrir alla einstaklinga sem greindust með brjóstakrabbamein árin 1910-1954 (Snaedal G. Cancer of the breast. A clinical study of treated and untreated patients in Iceland 1911–1955.Acta Chir Scand1965,90 Suppl 338:1)

Framvirk skráning á forspárþáttum hófst árið 1998 fyrir krabbamein íblöðruhálskirtli og árið 2010 fyrir krabbamein í brjóstum, ristli- og endaþarmi, auk sortuæxla. Auk þess er til hluti þessara upplýsinga fyrir undirhópa aftur í tímann.

Gæðaskráning krabbameina hófst árið 2017 og er hún í samræmi við sænskt gæðaskráningarkerfi sem nefnist INCA, sjá lið 3. Gæðaskráning krabbameina.

Heilsusögubanki

Heilsusögubanki geymir upplýsingar um aldur við fyrstu blæðingar, barnsfæðingar og brjóstagjöf, notkun getnaðarvarna og tíðahvarfahormóna. Einnig eru þar upplýsingar um reykingar, hæð og þyngd.

Ættagrunnur

Grunnurinn inniheldur upplýsingar um fjölskyldutengsl krabbameinsgreindra og ættingja þeirra

3. Gæðaskráning krabbameina

Rannsókna og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins vinnur að gæðaskráningu krabbameina í samvinnu við Landspítalann og Sjúkrahús Akureyrar, sjá nánar hér: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/09/nr/7445.

Gæðaskráning krabbameina samræmist markmiðum íslensku Krabbameinsáætlunarinnar og byggist hún í meginatriðum á sænsku gæðaskráningunni. Gæðaskráning er mislangt á veg komin eftir krabbameinstegundum, en völd atriði úr skráningunni má sjá fyrir stjörnumerkt mein á heimasíðu Rannsókna og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins https://www.krabb.is/rannsoknasetur/upplysingar-um-krabbamein/krabbamein-a-o/.

4. Rannsóknir

Úr efnivið Krabbameinsskrár hafa verið birtar niðurstöður yfir 600 vísindarannsókna í samvinnu við innlenda og erlenda aðila. Starfsfólk Rannsókna- og skráningarseturs býr að staðgóðri reynslu í faraldsfræði, tölfræði, skráningu, meðhöndlun og framsetningu gagna.

Rannsókna- og skráningarsetur tók þátt í langtímarannsókn fyrirtækisins Merck Sharp og Dohme á árangri og áhrifum bóluefnis sem beinist gegn fjórum stofnum HPV (Human Papilloma Virus) sem valda leghálskrabbameini og kynfæravörtum.

5. Alþjóðlegt samstarf

Rannsókna- og skráningarsetur er aðili að Samtökum norrænna krabbameinsskráa  (Association of Nordic Cancer Registries, ANCR). Stjórnarfundir eru tvisvar á ári auk árlegrar ráðstefnu. Löndin fimm (Dk, Fi, Ís, No, Sv) skiptast á um að vera í forsvari. Á vegum samtakanna eru stundaðar norrænar rannsóknir og rekinn gagnvirkur grunnur yfir krabbamein á Norðurlöndum NORDCAN sem er aðgengilegur öllum.

ANCR rekur Norræna sumarskólann í faraldsfræði krabbameina og hefur fulltrúi Krabbameinsskrárinnar setið í stjórn skólans frá stofnun hans, árið 1990. Starfsemi ANCR hefur notið mikils fjárhagslegs stuðnings frá Norrænu krabbameinssamtökunum (Nordic Cancer Union, NCU).

Samvinna er við evrópskar krabbameinsskrár um samanburð á horfum krabbameinssjúklinga í Evrópu EUROCARE. Evrópusamtök krabbameinsskráa (ENCR) standa fyrir námskeiðum og gefa út leiðbeiningar varðandi skráningu.

Samvinna er við Alþjóða krabbameinsrannsóknastofnunina (International Agency for Research on Cancer, IARC) í Lyon í Frakklandi og er GLOBOCAN upplýsingaveita fyrir krabbamein í flestum löndum heims á vegum hennar. Loks er nýleg upplýsingaveita fyrir krabbamein í Evrópu ECIS sem studd er af ENCR, EUROCARE og IARC.

Sendar eru tölfræðiupplýsingar frá Rannsókna- og skráningarsetri til birtingar í alþjóðlegum ritum og gagnagrunnum. Í allri útgáfu tölfræðiupplýsinga er þess gætt að persónugreinanlegar upplýsingar komi ekki fram.

6. Þjónusta við Erfðaráðgjöf Landspítalans

Rannsókna- og skráningarsetur Íslands afhendir upplýsingar sem eru nýttar við erfðaráðgjöf til sjúklinga með krabbamein. Þessi starfsemi er vaxandi og fer fram á vegum erfða- og sameindalæknisfræðideildar Landspítalans. Þetta er gert samkvæmt leyfi Persónuverndar.

7. Aðgangur að upplýsingum

Afhenda má hverjum sem er tölulegar upplýsingar sem þegar hafa verið birtar á heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs. Almennar tölfræðiupplýsingar eru unnar fyrir þá sem þess óska. Krefjist fyrirspurnir umtalsverðrar vinnu er tekið gjald fyrir þjónustuna.

Umsóknir um persónugreinanleg gögn berist til Embættis Landlæknis.

Heimilt er að nota gögn af heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs, vinsamlegast getið eftirfarandi heimildar:

Laufey Tryggvadóttir, Elínborg J. Ólafsdóttir og Helgi Birgisson.
Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins dd.mm.yyyy (http://www.krabb.is/krabbameinsskra).

Ef birta á gögnin á opinberum vettvangi t.d. í fjölmiðlum, skal hafa samband við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins í síma 540 1970 eða senda tölvupóst á netfangið skra@krabb.is.


Var efnið hjálplegt? Nei