Stefna Krabba­meins­félags Íslands 2022: Krabba­meins­félagið vill líf án krabba­meina

Á undanförnum áratugum hafa lífshorfur fólks með krabbamein á Íslandi batnað mjög mikið. Krabbamein eru samt enn orsök flestra ótímabærra dauðsfalla og spár benda til að krabbameinstilvikum muni fjölga um 28% á næstu 15 árum hér á landi vegna fólksfjölgunar og hækkandi meðalaldurs.

Krabbameinsfélagið, með aðildarfélögum sínum, er öflugur bakhjarl þeirra sem greinast með krabbamein, lifenda, aðstandenda og þeirra sem missa ástvini úr krabbameinum.  

Krabbameinsfélagið er í forystu í baráttunni gegn krabbameinum og félaginu er ekkert óviðkomandi sem tengist krabbameinum.  

Starf félagsins byggir alfarið á stuðningi almennings, fyrirtækja og stofnana í landinu. Sá stuðningur hefur verið mikill og tryggur og félagið sinnir sínu starfi í trausti þess að eiga hann áfram vísan. Samvinna félagsins, almennings og fyrirtækja í landinu er og verður þjóðinni til heilla. 

Meginmarkmið Krabbameinsfélagsins eru: 

  • að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum 
  • að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein 
  • að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra 

Félagið vinnur að þessum markmiðum af metnaði, með fjölbreyttu forvarnarstarfi út frá alþjóðlegum leiðbeiningum og gagnreyndri þekkingu; öflugri hagsmunagæslu sem byggir á bestu þekkingu, allt frá greiningu þar til eftir að meðferð lýkur; fyrsta flokks vísindarannsóknum, innlendum og alþjóðlegum auk starfrækslu Vísindasjóðs og ráðgjöf og stuðningi við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur. 

Hjá Krabbameinsfélaginu: 

  • Er áhersla á vönduð og fagleg vinnubrögð. 

  • Er sérhæfð þekking um fjölmarga þætti krabbameina, til dæmis lífsstílstengda áhrifaþætti, sem miðlað er með fjölbreyttum og aðgengilegum hætti til almennings og fagfólks. 

  • Er áhersla á góð samskipti og samstarf við þá sem hagsmuna eiga að gæta. 

  • Býðst aðildarfélögum ráðgjöf og faglegur stuðningur.

  • Er öflugt samstarf við erlend krabbameinsfélög. 

  • Bjóðast almenningi og fyrirtækjum í landinu fjölbreytt tækifæri til samstarfs og að styrkja baráttuna gegn krabbameinum.  

Sérstök baráttumál félagsins eru: 

  • Að byggð verði ný dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala, með stuðningi Krabbameinsfélagsins, svo aðstaða verði eins og best verður á kosið.  

  • Að hafin verði skipulögð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. 

  • Að stjórnvöld vinni samkvæmt virkri krabbameinsáætlun og setji tímasett og fjármögnuð markmið í samstarfi við hagsmunaaðila.  

  • Að sett séu gæðaviðmið í þjónustu við fólk með krabbamein og aðstandendur og þeim fylgt eftir.  

  • Að tryggð sé samfella í þjónustu við fólk með krabbamein, allt frá því grunur vaknar um krabbamein. 

  • Að gætt sé að því að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu og draga úr áhrifum fjárhagslegs og félagslegs ójöfnuðar í tengslum við krabbamein, jafnt innan félagsins og utan.

  • Að efla samstarf vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks með hagnýtingu rannsókna.


Stefnan var samþykkt á fundi stjórnar Krabbameinsfélagsins 14. desember 2021.
Stefnuna skal endurskoða fyrir lok hvers árs.


Var efnið hjálplegt?