Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir

Í kjölfar krabbameinsmeðferðar glíma margir við fylgikvilla sem ýmist eiga rót sína að rekja til meðferðarinnar eða krabbameinsins sjálfs. 

Í kjölfar krabbameinsmeðferðar glíma margir við fylgikvilla sem ýmist eiga rót sína að rekja til meðferðarinnar eða krabbameinsins sjálfs.

Þegar slíkar aukaverkanir eru enn til staðar löngu eftir meðferðarlok eða gera fyrst vart við sig mörgum mánuðum eða jafnvel árum síðar er talað um langvinnar og síðbúnar aukaverkanir. Þessar aukaverkanir eru af ýmsu tagi og geta haft mikil áhrif á lífsgæði. Það eru þó ýmsar leiðir til að draga úr áhrifum flestra síðbúinna eða langvinnra aukaverkana.

Myndin sýnir dæmi um langvinnar og síðbúnar aukaverkanir

Hringurinn

Lífið eftir krabbameinsmeðferð

Þegar krabbameinsmeðferð lýkur markar það kaflaskil; einum kafla lýkur og nýr kafli hefst. Tímum á sjúkrahúsinu fækkar, eftirlit minnkar og fólk þarf aftur að finna taktinn í daglegu lífi. Fólk upplifir þessi kaflaskil á ólíkan hátt og hefur mismunandi þarfir. Sumir upplifa mikinn létti yfir því að meðferð sé lokið og horfa bjartsýnir fram á veginn, en aðrir þurfa andlegan og/eða líkamlegan stuðning til þess að ná kröftum aftur.

Læknuð en löskuð

Samhliða því að miklar framfarir hafa orðið í greiningu og meðferð krabbameina lifa sífellt fleiri lengi eftir greiningu. Margir læknast af krabbameininu og aðrir lifa með því sem langvinnum sjúkdómi.

Þegar meðferð lýkur gera sjúklingar og aðstandendur oft ráð fyrir að heilsan verði aftur eins og hún var áður en krabbameinið greindist. Það er þó ekki raunin hjá öllum. Margir búa við einhvers konar langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir af völdum krabbameinsins eða meðferðarinnar sem geta haft mikil áhrif á lífsgæði og líðan fólks og verið áskorun bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og aðstandendur hans. Mjög alvarlegar langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir eru þó fátíðar. 

Hvenær telst aukaverkun vera langvinn eða síðbúin?

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eru margvíslegir heilsukvillar sem eiga rót sína að rekja til krabbameins og/eða krabbameinsmeðferðar. Slíkir fylgikvillar geta haft áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu.  

Þetta eru heilsufarsvandamál sem annað hvort: 

  • Koma fram meðan á krabbameinsmeðferð stendur og ganga ekki til baka eftir að meðferð lýkur, heldur verða viðvarandi (langvinnar aukaverkanir), eða; 
  • Koma fram mánuðum, árum eða jafnvel áratugum eftir að meðferð lýkur (síðbúnar aukaverkanir). 

Algengt er að fólk sem hefur gengið í gegnum krabbameinsmeðferð finni fyrir einhverjum langvinnum eða síðbúnum aukaverkunum, en samkvæmt erlendum rannsóknum búa um 50–60% lifenda við einhverjar slíkar aukaverkanir. 

Ef þú finnur fyrir einkennum sem þú hefur áhyggjur af og telur að gætu verið síðbúnar aukaverkanir ættir þú að leita ráða hjá heimilislækni eða heilbrigðisstarfsfólki sem sinnti þér í krabbameinsmeðferðinni.

Mismunandi birtingarmyndir langvinnra og síðbúinna aukaverkana

Allar helstu meðferðir við krabbameinum, þ.e. skurðaðgerðir, lyfja-, geisla- og hormónameðferðir, ónæmismeðferðir, stofnfrumuskipti og beinmergsskipti geta haft einhverjar langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir í för með sér. Líklegt er að nýjustu meðferðarúrræðin geti valdið síðbúnum eða langvinnum aukaverkunum, en þar sem einkennin koma oft ekki fram fyrr en mörgum árum eftir að meðferð lýkur er enn ekki vitað nákvæmlega hverjar þær eru.

Birtingarmynd langvinnra og síðbúinna aukaverkana er ólík milli einstaklinga. Það á við um hvaða einkenni koma fram og hversu mikil áhrif þau hafa á líðan fólks. Sumar aukaverkanir tengjast ákveðnum tegundum krabbameina eða ákveðnum meðferðarúrræðum, en aðrir fylgikvillar eru almennari. Aðrir þættir sem hafa áhrif á birtingarmynd fylgikvillanna eru t.d. lífsstíll, aðrir sjúkdómar, aldur og félagslegar aðstæður. 

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eru af ýmsu tagi og geta haft mikil áhrif á lífsgæði. Það eru þó til ýmsar leiðir til að draga úr áhrifum þeirra. 

Helstu langvinnar og síðbúnar aukaverkanir

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eru af ýmsu tagi og geta haft áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Hér er listi og nánari upplýsingar um þær helstu. 

ÞREYTA - MAGNLEYSI

Þreytu, sem á rætur sínar að rekja til krabbameins og/eða krabbameinsmeðferðar, er almennt hægt að skipta í tvennt þegar horft er til þess hve lengi hún stendur yfir:

  • Tímabundin eða skammvinn krabbameinstengd þreyta

Tímabundin krabbameinstengd þreyta tengist sjúkdómnum eða krabbameinsmeðferðinni beint. Eftir að meðferðinni lýkur dregur hægt og rólega úr þreytueinkennum.

  • Langvinn eða síðbúin krabbameinstengd þreyta

Langvinn þreyta í tengslum við krabbamein og/eða krabbameinsmeðferð er þreyta sem er ennþá til staðar meira en sex mánuðum eftir að meðferð lýkur. Stundum kemur slík þreyta fram sem síðbúin aukaverkun nokkru eftir að meðferð lýkur. Langvinn eða síðbúin krabbameinstengd þreyta getur varað mánuðum eða árum saman og í sumum tilfellum er hún varanleg.

Hvað er krabbameinstengd þreyta?

Krabbameinstengd þreyta lýsir sér sem óvenjulega mikil og íþyngjandi þreyta. Stór hluti þeirra sem ganga í gegnum krabbameinsmeðferð upplifa aukin þreytueinkenni, en það er  einstaklingsbundið hversu mikil þreytan er. Krabbameinstengd þreyta er ólík venjulegri þreytu og það er ekki hægt að sofa úr sér slíka þreytu. Þreytan er óáþreifanleg og yfirleitt ekki hægt að greina hana með blóðprufum eða öðrum líkamlegum mælingum. Orsakir krabbameinstengdar þreytu eru ólíkar og oft samsettar, en hún getur til dæmis komið fram vegna krabbameinsmeðferða, verkja, blóðleysis, tilfinningalegs álags, svefnleysis, skertrar næringarinntöku, lyfja, lítillar hreyfingar eða breytinga á hormónastarfsemi líkamans.

Krabbameinstengd þreyta er algengasta langvinna eða síðbúna aukaverkunin.

Hvernig lýsir krabbameinstengd þreyta sér?

Þreytan kemur fram á ólíkan hátt hjá fólki og er misjafnlega íþyngjandi. Sumir upplifa til dæmis skerta orku við daglegar athafnir en aðrir geta verið meira og minna rúmliggjandi vegna þreytu. Krabbameinstengd þreyta er ekki endilega sýnileg og margir virðast hraustari og betur upplagðir en þeir eru í raun og veru. Þetta getur haft í för með sér að fólk upplifi óraunhæfar kröfur frá umhverfinu og því er mikilvægt að ræða um líðan sína við fólkið í kringum sig.

Dæmi um hvernig fólk lýsir krabbameinstengdri þreytu:

  • Orku- og úthaldsleysi, syfja, sljóleiki, depurð og leiði, að líða almennt ekki vel og vera illa upplagður/-lögð, að finnast maður búinn á því, finna til vanmáttar, að vera úrvinda, finna fyrir einbeitingarskorti, minnistruflunum og þunglyndiseinkennum.

  • Erfiðleikar við að koma orðum að því sem maður vill segja eða gleyma orðum.

  • Verkefni sem áður voru ánægjuleg geta tekið á vegna þess að orkuna skortir.

  • Erfiðleikar við lestur þar sem fólk gleymir fljótt því sem það er nýbúið að lesa.

  • Sumir þurfa langan tíma til að jafna sig eftir líkamlega eða andlega áreynslu og upplifa að þreytan sé ekki í hlutfallslegu samræmi við áreynslu. Þreytan getur verið hamlandi í daglegu lífi og komið í veg fyrir að fólk geri það sem það er vant að gera, þar með talið að stunda vinnu og eyða tíma með vinum og fjölskyldu.

Hjá eldra fólki geta einkenni krabbameinstengdrar þreytu verið meiri og varað lengur en hjá þeim sem yngri eru.

Ráðleggingar til að takast á við krabbameinstengda þreytu

Ekki er hægt að lækna krabbameinstengda þreytu en þó er ýmislegt hægt að gera til að draga úr henni. Ráðin eru byggð á niðurstöðum rannsókna, reynslu fólks sem hefur fengið krabbamein og reynslu heilbrigðisstarfsfólks.

Hreyfing

Regluleg hreyfing getur dregið úr þreytu og aukið orku. Mikilvægt er að finna hreyfingu sem passar hverjum og einum, til dæmis sund, jóga, göngutúra eða styrktaræfingar. Gott er að byrja rólega og auka lengd æfinganna hægt og sígandi. Það mikilvægasta er að hreyfingin sé regluleg. Með reglulegri hreyfingu fæst aukin orka, meiri vellíðan og betri svefn, auk þess sem hún auðveldar fólki oft að slaka á.

Virkni og hvíld

Mikilvægt er að finna jafnvægi milli virkni og hvíldar. Gott er að skipuleggja dagana þannig að tími gefist til hvíldar, sérstaklega fyrir og eftir krefjandi verkefni. Forgangsraðaðu verkefnum/athöfnum þínum, svo orkan nýtist í það sem er mikilvægt fyrir þig og veitir þér gleði. Fylgstu með á hvaða tíma dagsins þér líður best og hefur mesta orku og skipuleggðu mikilvægustu athafnir þínar á þeim tíma. Einnig er gott að vera meðvitaður um hvaða verkefni þarf að gera í dag og hvað getur beðið. Ekki hika við að biðja um aðstoð þegar þörf krefur.

Margir upplifa streitu og kvíða vegna þess að þeir hafa ennþá sömu hlutverk í lífinu, en minni orku til þess að sinna þeim öllum. Streitustjórnunaraðferðir á borð við núvitund eða jóga geta reynst gagnlegar. Einnig er mikilvægt að ræða við fólkið í kringum sig og vinnuveitendur, þegar það á við, til þess að stilla væntingar þeirra af í samræmi við getu.

Mataræði

Mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að nærast vel þrátt fyrir þreytu. Borðaðu mat sem þér finnst góður og lystugur, með áherslu á fjölbreyttan og næringarríkan mat. Mikilvægt er að drekka vel af vökva. Hér má finna góð ráð tengd krabbameinstengdri þreytu og mataræði: Að takast á við aukaverkanir meðferðar | Næring og krabbamein | Krabbameinsfélagið

Svefn

Svefn er mikilvægur fyrir andlega og líkamlega heilsu. Krabbameinstengd þreyta getur truflað svefnmynstrið. Mikilvægt er að reyna að viðhalda góðri svefnrútínu með því að vakna og fara að sofa á svipuðum tíma á hverjum degi. Reyndu að sofa sem minnst á daginn. Ef þú hefur þörf fyrir að sofa á daginn er best að hafa blundinn ekki lengri en 20 mínútur og helst fyrir klukkan 17 á daginn. Hér má finna fleiri góð ráð sem stuðla að góðum svefni: Svefn | Krabbameinsfélagið

Sálfræðiaðstoð

Fyrir marga getur sálfræðimeðferð létt á einkennum krabbameinstengdrar þreytu. Til dæmis hefur námskeið í hugrænni atferlismeðferð reynst mörgum vel. Í slíkri meðferð er t.d. mögulegt að vinna með hugsanir og atferli sem hafa truflandi áhrif á svefn.


Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/traethed/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/fatigue-utmattelse/

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/cancer/in-depth/cancer-fatigue/art-20047709

SVEFNTRUFLANIR

Margir sem ganga í gegnum krabbameinsmeðferð finna fyrir svefntruflunum meðan á meðferð stendur og/eða eftir að henni lýkur. Andlegt álag, verkir, streita og fleiri þættir sem fylgja krabbameini og meðferð þess geta haft neikvæð áhrif á svefninn. Þeir sem eiga fyrri sögu um svefnleysi eru líklegri til að upplifa slíkt.

Vandamálin eru misjöfn, t.d. eiga sumir erfitt með að sofna, aðrir sofna en vakna fljótt aftur og sumir sofa létt en ná ekki djúpum svefni og hvíld.

Skertur svefn getur haft töluverð áhrif á lífsgæði. Svefnraskanir og svefnleysi valda þreytu og syfju sem getur haft áhrif á margt í daglegu lífi, t.d. hvaða verkefnum er hægt að sinna og samveru við ástvini. Þeir sem eru í vinnu geta fundið fyrir einbeitingarleysi og átt erfitt með að leggja sig fram í vinnu eins og þeir helst vildu.

Góð ráð við svefnleysi

Gott er að ræða við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk ef þú þjáist af svefnleysi. Það getur hjálpað að halda svefndagbók til þess að fá yfirsýn yfir svefninn. Í svefndagbókina ætti að skrá svefn og vökutíma allan sólarhringinn í eina viku.

Eftirfarandi atriði geta haft jákvæð áhrif á svefninn:

  • Líkamleg áreynsla/hreyfing vinnur gegn áhrifum streitu og bætir gæði svefns.

  • Að eyða tíma utandyra og anda að sér fersku lofti.

  • Að hafa reglu á svefntímanum. Gott er að fara að sofa á svipuðum tíma á hverjum degi.

  • Ýmsar slökunaraðferðir, t.d. hugleiðsla og öndunaræfingar, geta auðveldað að sofna á kvöldin, og að sofna aftur ef vaknað er upp um nætur.

  • Gott er að tileinka sér rólegheit í aðdraganda svefns, til dæmis er gott að lesa bók eða hlusta á rólega tónlist.

  • Gott er að hafa svefnherbergið hæfilega dimmt og hæfilega svalt.

  • Mælt er með að nota rúmið eingöngu fyrir svefn og kynlíf og forðast að vinna, svara tölvupósti, horfa á sjónvarp o.s.frv. í rúminu.

Eftirfarandi atriði geta haft neikvæð áhrif á svefninn:

  • Að borða orkuríkan mat skömmu áður en gengið er til náða.

  • Að drekka kaffi eða aðra drykki sem innihalda koffín eða neyta nikótíns skömmu fyrir svefn.

  • Að drekka áfengi fyrir svefn. Margir finna slökunaráhrif þegar þeir neyta áfengis, en áfengi hefur neikvæð áhrif á svefnlengd og gæði svefns.

  • Að leggja sig yfir daginn, en ef þú hefur þörf fyrir að leggja þig yfir daginn er best að hafa blundinn ekki lengri en 20 mínútur og helst fyrir klukkan 17 á daginn.

  • Að nota skjái eins og sjónvarp, tölvu, snjallsíma eða spjaldtölvu stuttu fyrir svefn. Bláa ljósið á skjánum truflar framleiðslu á svefnhormóninu melatónín og getur þannig valdið því að erfiðara er að sofna.


Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/soevnloeshed/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/fatigue-utmattelse/

KVÍÐI OG ÞUNGLYNDI

Algengt er að þeir sem greinast með krabbamein finni fyrir áhyggjum og depurð í tengslum við sjúkdóminn og meðferðina. Flestir finna fyrir miklum létti þegar krabbameinsmeðferð lýkur, en margir upplifa einnig kvíða, sorg og áhyggjur af framtíðinni. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð við krefjandi lífsreynslu. Hjá flestum dvína kvíða- og þunglyndiseinkennin með tímanum. Ef kvíði og depurð verða viðvarandi og hafa hamlandi áhrif á daglegt líf er mikilvægt að leita aðstoðar hjá fagfólki.

Hjá sumum snúast áhyggjurnar að miklu leyti um endurkomu krabbameins. Hægt er að lesa nánar um það undir flipanum Ótti við endurkomu krabbameins neðar á þessari síðu. 

Kvíði

Flestir upplifa kvíðahugsanir á einhverjum tímapunkti í tengslum við krabbameinsgreiningu og/eða krabbameinsmeðferð, t.d. á meðan beðið er eftir svari úr sýnatöku eða á meðan krefjandi krabbameinsmeðferð stendur. Kvíði er í sjálfu sér ekki hættulegur, en honum geta fylgt ýmis óþægileg einkenni, t.d. hraður hjartsláttur, andþyngsli, ógleði eða magaverkir, svimi, skjálfti og munnþurrkur.

Kvíði er hluti af viðvörunarkerfi líkamans sem hefur það hlutverk að skynja hættur og undirbúa líkamann undir að bregðast við hættulegum aðstæðum. Kvíði getur í sumum tilfellum verið hjálplegur, skerpt athygli fólks og jafnvel verið hvatning til að klára erfið verkefni. Þegar kvíði er ekki í samræmi við raunverulegt hættustig og fer að valda vanlíðan og truflun á daglegu lífi getur verið um kvíðaröskun að ræða.

Bjargráð við kvíða

Til eru ýmsar leiðir til að ná betri stjórn á hugsunum og líðan. Þar má nefna t.d. jóga, núvitund, slökun, öndunaræfingar og að tala um líðan sína við fjölskyldu og vini. Regluleg hreyfing og hollt mataræði getur einnig skilað sér í betri líðan. Ef kvíðinn minnkar ekki með tímanum og tekur of mikið pláss í daglegu lífi er mikilvægt að leita aðstoðar hjá fagfólki.

Þunglyndi

Það er ekki óalgengt að upplifa depurð í tengslum við krabbameinsgreiningu, á meðan meðferð stendur eða rétt eftir að henni lýkur. Margir upplifa einkenni á borð við áhugaleysi, orkuleysi, vonleysi, sjálfsgagnrýni og sorg yfir framtíðarplönum sem hafa breyst í kjölfar veikinda. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð við krefjandi aðstæðum og breytingum á lífinu í tengslum við krabbamein. Þrátt fyrir að margir upplifi einkenni sem samsvara þunglyndiseinkennum, eru fáir sem þróa með sér þunglyndi sem þarfnast meðferðar. Hjá flestum dvína einkennin með tímanum.

Bjargráð við þunglyndi

Það er ýmislegt sem fólk getur gert til að ýta undir vellíðan, t.d. regluleg hreyfing, hollt mataræði, að ræða við aðstandendur eða jafnvel skrifa um líðan sína. Ef einkennin vara í langan tíma eða versna með tímanum, getur verið um þunglyndi að ræða. Í þeim tilfellum er mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar, því fólk sem upplifir þunglyndi getur ekki bara „harkað af sér“. Mörgum reynist vel að fara í gegnum samtalsmeðferð hjá sálfræðingi og í sumum tilfellum er einnig ákjósanlegt að meðhöndla þunglyndið með lyfjum.


Heimildir

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/3/8853/1598965481/senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf

Depression ved en kræftsygdom - Kræftens Bekæmpelse (cancer.dk)

Angst ved en kræftsygdom | Kræftens Bekæmpelse (cancer.dk)

Psykiske reaksjoner ved kreftsykdom - Kreftforeningen

Your feelings after cancer treatment | Irish Cancer Society

ÓTTI VIÐ ENDURKOMU KRABBAMEINS

Eftir að krabbameinsmeðferð lýkur finna margir fyrir áhyggjum af því að greinast aftur með krabbamein. Þessar áhyggjur eiga sér eðlilegar skýringar. Eitt af hlutverkum mannsheilans er að vera stöðugt á varðbergi fyrir mögulegum hættum og tryggja þannig öryggi fólks. Krabbamein getur verið mikil ógn og jafnvel þó að krabbameinsmeðferð sé lokið heldur heilinn áfram að vera á verði og reyna þannig að koma í veg fyrir að slík hætta komi upp aftur. Hræðsla við endurkomu er eðlilegt viðbragð og í sumum tilfellum getur hún jafnvel verið gagnleg þar sem hún hvetur fólk til þess að mæta í eftirlit og fylgja leiðbeiningum um heilbrigðan lífsstíl.

Eftir að krabbameinsmeðferð lýkur eiga sumir erfitt með að treysta líkama sínum aftur. Sumum finnst líkaminn hafa svikið sig, t.d. þeim sem hafa veikst af krabbameini þrátt fyrir heilbrigðan lífstíl eða þeim sem hafa verið með krabbamein án allra einkenna sem gerði það að verkum að sjúkdómurinn uppgötvaðist seint.

Með tímanum dvínar kvíðinn og óttinn við endurkomu hjá flestum. Margir upplifa þó að þessar tilfinningar geri vart við sig í aðstæðum sem rifja upp fyrri reynslu. Þetta getur t.d. gerst í tengslum við:

  • Eftirlit og eftirfylgniviðtöl.

  • Ákveðnar dagsetningar, t.d daginn sem krabbameinið greindist eða aðgerðardag.

  • Að finna til einkenna sem eru svipuð þeim sem komu fram fyrir greiningu.

  • Að heyra af krabbameinsgreiningu annars fólk eða fráfalli einhvers sem var með
    krabbamein.

  • Að koma á eða keyra framhjá spítalanum þar sem meðferðin fór fram.

Vítahringur ótta

Óttinn við endurkomu er eðlilegt viðbragð við mögulegri hættu, en stundum verður óttinn yfirþyrmandi og óyfirstíganlegur. Fólk getur þá upplifað sig fast í vítahring.

Oft er einhver „kveikja” (e.trigger), til dæmis líkamlegir verkir eða að heyra af fólki sem greinist með krabbamein. Þetta getur valdið áhyggjuhugsunum og vegna þess að heilinn greinir hættuástand fer að bera á óróleika og kvíðaeinkennum. Í kjölfarið er eðlilegt að reyna að ná stjórn á aðstæðum, t.d. með því að skoða líkamann oft, hafa samband við heilbrigðisstarfsfólk, fara í skoðanir og útiloka að eitthvað sé að. Margir finna aftur ró og öryggi eftir þetta, en það getur enst stutt þar sem margar aðstæður geta „kveikt” óttaviðbragð á ný.

Þegar fólk upplifir sig fast í vítahring erfiðra hugsana og áhyggja er mikilvægt að leita sér hjálpar.

Vitahringur-otta-vid-endurkomu

Ráð til að takast á við kvíða og hugsanir um endurkomu

  • Ræddu við heilbrigðisstarfsfólk um það hvaða einkennum þú átt að vera vakandi fyrir og hvaða einkenni gætu bent til þess að krabbameinið sé komið aftur.

  • Vertu upplýst/-ur um hvað þú getur gert til að efla heilsuna. Það getur aukið öryggistilfinningu þína ef þú veist hvað þú getur gert til að leggja heilsunni lið og veist hvert þú átt að leita eftir viðeigandi þjónustu ef á þarf að halda.

  • Viðurkenndu fyrir sjálfri/sjálfum þér að þú berir í brjósti þennan kvíða eða ótta og talaðu við einhvern um þessar tilfinningar. Oft er auðveldara að sleppa taki af áhyggjum þegar maður hefur náð að setja þær í orð. Þú getur rætt málin við fjölskyldumeðlimi, vini, annað fólk sem hefur fengið krabbamein eða heilbrigðisstarfsfólk. Það er einnig hægt að leita ráða hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

  • Einbeittu þér að því sem þú getur gert til auka vellíðan þína og styrkja heilsuna. Að borða heilsusamlegan mat, hreyfa sig reglulega og vera virk/ur í daglegu lífi auk þess að reyna að sofa sem best eru allt þættir sem geta haft jákvæð áhrif heilsu og vellíðan.

  • Öndunaræfingar, hugleiðsla eða núvitundaræfingar reynast mörgum vel.

Heimildir

Er du rett for at kreften skal komme tilbake? (kreftforeningen.no)

Er du redd for tilbakefall? - Kreftforeningen

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

https://cancer.ca/en/living-with-cancer/life-after-treatment/worrying-that-cancer-will-come-back 25.11.2021

VITRÆNAR ÁSKORANIR

Þegar talað er um vitræna getu er átt við þá starfsemi heilans sem á sér stað t.d. þegar við eigum í samskiptum, tjáum okkur, hugsum, munum, lærum, skipuleggjum og leysum vandamál. Með vitrænum áskorunum er átt við ýmsar áskoranir tengdar vitrænni getu.

Einkenni vitrænna áskoranna eru t.d.:

  • Minnisleysi.

  • Einbeitingarskortur.

  • Minni skipulagsfærni.

  • Erfiðleikar við að orða hlutina.

  • Erfiðleikar við að hugsa skýrt.

  • Minna þol fyrir ýmis konar álagi og áreiti.

Breytingar af þessu tagi hafa áhrif á það hvernig fólki gengur að snúa aftur í þann hversdag sem það lifði fyrir krabbameinið og krabbameinsmeðferðina, bæði í starfi og einkalífi.

Það upplifa ekki allir sem greinast með krabbamein og ganga í gegnum krabbameinsmeðferð vitrænar áskoranir. Hjá flestum sem upplifa slíkar áskoranir ganga einkennin til baka innan við ári eftir að meðferð lýkur.

Í sumum tilfellum verða vitrænar áskoranir hinsvegar viðvarandi vandamál eftir að meðferð lýkur og teljast þá langvinnar aukaverkanir. Í öðrum tilfellum verður ekki vart við áskoranir af þessu tagi fyrr en töluvert eftir að meðferð lýkur. Þær teljast þá sem síðbúnar aukaverkanir.

Hvað veldur vitrænum áskorunum í tengslum við krabbamein/krabbameinsmeðferð?

Erfitt er að spá fyrir um það hverjir munu upplifa vitrænar áskoranir í tengslum við krabbamein eða krabbameinsmeðferð og hverjir ekki. Mögulegar ástæður vitrænna áskoranna eru:

  • Andlegt álag og erfiðar tilfinningar tengdar krabbameinsgreiningu.

  • Krabbameinið sjálft.

  • Krabbameinsmeðferð. Lyfjameðferð, geislameðferð og hormónameðferð geta valdið vitrænum áskorunum, en algengast er að slíkar áskoranir komi fram í tengslum við lyfjameðferð.

  • Síðbúnar aukaverkanir á borð við krabbameinstengda þreytu, blóðleysi (lítinn fjölda rauðra blóðkorna), svefnleysi eða hormónabreytingar.

  • Depurð, kvíði og streita.

Svo virðist sem eldra fólk og fólk sem glímir við þunglyndi, kvíða eða minnisleysi við greiningu sé líklegra til að upplifa vitrænar áskoranir.

Hafa þarf í huga að breytingar eða afturför á vitrænni getu, eins og lýst hefur verið að ofan, fylgja oft hækkandi aldri. Með hækkandi aldri fólks er erfiðara að greina á milli þess hvort breytingarnar séu vegna aldurs eða krabbameins/krabbameinsmeðferðar. Þess vegna er auðveldara að greina áhrif krabbameins/krabbameinsmeðferðar á vitræna getu hjá yngra fólki.

Dæmi um hvernig fólk lýsir upplifun sinni:

  • Að það nái ekki að hafa sömu yfirsýn og áður.
  • Að vera ekki eins skörp/skarpur og fljót að hugsa.
  • Að eiga í erfiðleikum með að takast á við fleiri en eitt verkefni í einu.
  • Að tapa þræði í hugsun eða frásögn.
  •  Að hafa lítið andlegt úthald og verða þreytt/ur í höfðinu. 
  • Vera verr í stakk búin/n til að koma hugsunum sínum í orð. 
  • Stundum notar fólk ákveðin orð til að lýsa þessari upplifun í heild sinni, sumir tala t.d. um „heilaþoku“.

Að takast á við vitrænar áskoranir

Ýmislegt er hægt að gera til að auðvelda sér lífið og minnka áhrif vitrænna áskorana í daglegu lífi:

  • Ýmis konar „heilaleikfimi“, svo sem leikir, gátur og spil, t.d. krossgátur, sudoku og skrafl, geta örvað hugsun og einbeitingu.

  • Mörgum gagnast að nota minnislista og dagatöl til áminningar í hversdeginum.

  • Rafrænar áminningar í síma eða tölvum geta verið gagnlegar. Einnig getur verið gott að koma sér upp skipulögðum og föstum rútínum í daglegum venjum.

  • Gott er að stunda reglulega hreyfingu.

  • Hugaðu að svefninum, svefnleysi getur gert einkennin verri.


Heimildir

www.cancer.org

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/kognitive-utfordringer/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/kemohjerne/

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/4/8754/1591082450/redskabsark-koncentration-og-hukommelse.pdf

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/4/8754/1591082450/redskabsark-koncentration-og-hukommelse.pdf

https://webshop.cancer.dk/pjecer-og-information/hvis-du-har-faet-kraeft-eller-er-paroerende/boeger-video-og-dvder/2863/efter-din-kraeftbehandling-p2?_ga=2.11582263.26755975.1667821430-1145899905.1666016633

VANDAMÁL TENGD MELTINGU

Hægðatregða

Hægðatregða eru harðar hægðir sem erfitt er að losa sig við og/eða koma með margra daga millibili. Sumir sem hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð upplifa langvarandi hægðatregðu. Það geta verið margar ástæður fyrir hægðatregðu.

Ákveðnar gerðir verkjalyfja (ópíóíðar) geta valdið hægðatregðu. Þeir sem taka slík lyf þurfa í mörgum tilfellum að taka einhvers konar hægðalyf samhliða. Hægðatregða getur einnig verið merki um ónóga neyslu á trefjum eða vökva. Lítil hreyfing getur átt þátt í að fólk fái hægðatregðu. Að auki geta streita, kvíði eða þunglyndi haft neikvæð áhrif á meltingarstarfsemi og valdið hægðatregðu.

Ef þú upplifir mikla og viðvarandi hægðatregðu er mikilvægt að ræða við heilbrigðisstarfsfólk um einkennin og reyna að finna út úr því hvað veldur. Það getur reynst vel að ræða við næringarfræðing og fá ráð um mataræði. Í sumum tilfellum er ráðlagt að nota hægðalyf tímabundið. 

Hér eru almenn ráð við hægðatregðu:

  • Reyndu að drekka nóg, alla vega átta glös á hverjum degi. Vatn er besti svaladrykkurinn en aðrir góðir drykkir eru m.a. sveskjusafi og heitir drykkir, svo sem koffínlaust te og volgt vatn með sítrónu.

  • Borðaðu trefjaríka fæðu, svo sem grænmeti, ferska og þurrkaða ávexti (t.d. sveskjur), heilkornavörur, baunir, maís og ertur. Til að trefjarnar geri sitt gagn skiptir miklu máli að drekka mikinn vökva.

  • Borðaðu trefjaríkan morgunverð (t.d. hafragraut með ferskum eða þurrkuðum ávöxtum) og drekktu heitan drykk með, svo sem koffínlaust te eða volgt vatn með sítrónu.

  • Hreyfðu þig eins mikið og þú getur, til dæmis með göngutúrum og léttum æfingum.

  • Mögulega ráðleggur fagfólk trefjar sem fæðubótarefni eða lyf við hægðatregðu. Með slíkum meðferðum skiptir einnig miklu máli að drekka mikinn vökva.

Niðurgangur

Niðurgangur er skilgreindur sem lausar eða vatnsríkar hægðir að minnsta kosti þrisvar sinnum á sólarhring. Mikilvægt er að láta fagfólk vita ef niðurgangur er mikill því þá er hætta á vökvaskorti, næringarskorti og öðrum vandamálum. Fagfólk getur metið hvort þörf sé á lyfjum til meðhöndlunar. Hér koma almenn ráð við niðurgangi:

  • Reyndu að drekka nóg, sumir miða við átta glös á hverjum degi. Vatn er besti svaladrykkurinn en aðrir góðir drykkir eru m.a. útþynntur safi, koffínlaust kaffi og te.

  • Það gæti verið þægilegra að drekka vökva við stofuhita en ískalda drykki.

  • Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn í stað nokkurra stórra máltíða. Mundu að tyggja matinn vel.

Matur sem vert væri að prófa:

Hrísgrjón, núðlur, harðsoðin egg, bananar, grænmeti (soðið, bakað í ofni og/eða maukað), eplamús, kartöflustappa, hrökkbrauð, kex, ristað brauð, kjúklingur eða kalkúnn án skinns, roðlaus fiskur, sýrðar mjólkurvörur, jógúrt, kefír, saltríkur matur.

Matur sem mögulega væri gott að sleppa:

Brauð með miklum kornum, hrátt grænmeti og ávextir í miklu magni, mjög trefjaríkt grænmeti eins og spergilkál (brokkolí), blómkál, kál, maís, baunir, ertur, laukur í miklu magni, sterk krydd, feitur, reyktur og steiktur matur, smjör, rjómi, rjómaostur, olía og majónes, áfengir drykkir og drykkir sem innihalda koffín, gervisæta.

Heimildir:

Forstoppelse - Kreftforeningen

Causes of constipation | Coping physically | Cancer Research UK

Forstoppelse - Kræftens Bekæmpelse (cancer.dk)

Niðurgangur hjá fullorðnum | Heilsuvera

Hægðatregða hjá fullorðnum | Heilsuvera

ÚTTAUGASKAÐI

Ákveðnar tegundir krabbameinslyfja geta valdið úttaugaskaða, þ.e. skaða á taugum sem eru utan við heila og mænu. Hættan á taugaskaða er í takt við umfang og lengd lyfjameðferðarinnar. Taugaskaði af þessu tagi getur haft áhrif á skynjun, vöðvastyrk og hreyfigetu. Það eru helst taugar í fótleggjum, fótum, framhandleggjum og/eða höndum sem verða fyrir slíkum skaða. Einnig getur orðið vart við breytta skynjun vegna taugaskaða í kringum munn og háls, sérstaklega í köldu veðri.

Einkenni úttaugaskaða koma oftast fram meðan á lyfjameðferðinni stendur en í sumum tilfellum koma einkennin ekki fram fyrr en eftir að meðferðinni lýkur. Oftast ganga einkennin til baka að meðferð lokinni og flestir eru lausir við þau innan árs frá meðferðarlokum. Í sumum tilfellum verða slík einkenni þó langvarandi. Einhverjir upplifa að þau fari versnandi mánuðina eftir að lyfjameðferð lýkur, en hjá öðrum versna þau ekki heldur haldast stöðug eða minnka aðeins, án þess þó að hverfa alveg.

Hvernig lýsir úttaugaskaði sér?

Áhrifin eru misjöfn og mismikil milli einstaklinga. Þau geta verið allt frá lítillega breyttri skynjun, t.d. í fingrum, yfir í skerta hreyfigetu.

  • Meðal einkenna sem geta gert vart við sig þegar meðferð er skammt á veg komin:

Skyntruflanir í fingrum eða tám, t.d. stingir, brunatilfinning, náladofi, tilfinningaleysi, verkir og óþægindi. Létt snerting getur valdið óþægindum eða sársauka.

  • Einkenni sem koma oftast ekki fyrr en meðferð hefur staðið í talsverðan tíma: 

Vandamál tengd ýmsum fínhreyfingum, t.d. að hneppa tölum, fletta blaðsíðum, taka upp litla hluti, skrifa, vinna á lyklaborð og tilfinningin að finnast eins og gengið sé á púðum. Einnig vöðvaslappleiki, óöryggi við gang, jafnvægisleysi, erfiðleikar við gang í stigum og að stíga yfir þröskulda.

Hvað er hægt að gera?

Mikilvægt er að láta lækni eða hjúkrunarfræðing vita af einkennum sem benda til úttaugaskaða, hvenær sem þau koma fram. Ef einkennin eru mjög slæm þarf í sumum tilfellum að minnka lyfjaskammta eða hætta meðferð með ákveðnum lyfjum.

Eftirfarandi atriði geta dregið úr einkennum:

  • Meðferð hjá sjúkraþjálfara getur haft jákvæð áhrif á ýmis einkenni af völdum taugaskaða. Slík meðferð getur t.d. falist í einhvers konar styrktarþjálfun, teygjum, jafnvægisæfingum, blóðrásarhvetjandi meðferð o.fl.

  • Mörgum reynist gagnlegt að nota hanska við ýmis störf, t.d. við uppvask, garðvinnu o.fl.

  • Gott er að bera reglulega rakakrem á fætur og hendur.

  • Það getur verið hjálplegt að örva líkamshluta með skerta tilfinningu t.d. með fótrúllu, gaddabolta (spiky ball) eða öðru.

  • Forðast að verða kalt á höndum eða fótum þar sem óþægindin geta versnað í kulda. Gott er að nota vettlinga og hlýja sokka.

  • Regluleg hreyfing getur haft jákvæð áhrif bæði á einkenni og líkamlega færni.

  • Ákveðnir þættir geta valdið auknum taugaskaða. Til dæmis ætti að forðast reykingar og mikla áfengisneyslu.

  • Ef staðbundin bólga er til staðar í fótum eða höndum geta stuðningssokkar og
    -hanskar haft góð áhrif. Fótabað og fótanudd geta einnig haft jákvæð áhrif. Forðast ætti skó sem þrengja að.

  • Í sumum tilfellum getur mentholkrem 1%, sem borið er á svæði sem hafa orðið fyrir úttaugaskaða, reynst góð staðbundin verkjastilling.


Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader/nerveskade-polynevropati/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/gode-raad-nerveskader/

https://www.cancer.org/treatment/treatments-and-side-effects/physical-side-effects/peripheral-neuropathy.html

SOGÆÐABJÚGUR

Hlutverk sogæðakerfisins er aðallega þríþætt. Í fyrsta lagi safna sogæðar umfram- millifrumuvökva í vefjum líkamans og skila honum aftur út í blóðrásina. Í öðru lagi taka sogæðar í þörmum við fituefnum og koma þeim í blóðrásina. Í þriðja lagi tekur sogæðakerfið þátt í flutningi ónæmisfruma og mótefna.

Hvað er sogæðabjúgur?

Sogæðabjúgur er vökvasöfnun sem verður vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins í ákveðnum líkamshluta. Sogæðabjúgur vegna krabbameins getur komið fram þegar krabbameinsæxli þrengir að eitlum eða sogæðum. Oftast eru það þó ekki æxlin sjálf, heldur krabbameinsmeðferðir sem valda sogæðabjúg. Skurðaðgerðir, geislameðferðir og sumar tegundir krabbameinslyfja geta skaðað sogæðakerfið og þannig leitt til sogæðabjúgs. Sogæðabjúgur er langvinnt ástand og engin þekkt lækning er til. Það eru þó til ýmsar áhrifamiklar leiðir til þess að halda einkennum niðri og minnka óþægindi, sem má lesa meira um hér að neðan.

Algengast er að sogæðabjúgur komi fram í handleggjum eða fótleggjum, en hann getur einnig komið fram á öðrum stöðum svo sem brjósti, andliti, hálsi, ytri kynfærum, baki eða kvið. Sogæðabjúgur er ekki hættulegur, en getur valdið miklum óþægindum. Einkenni sogæðabjúgs eru bólga, spenna, eymsli í húð og þyngsli í viðkomandi líkamshluta.

Þeir sem fara í gegnum skurðaðgerð eða geislameðferð vegna krabbameins fá alls ekki allir sogæðabjúg en í þeim tilfellum sem það gerist er misjafnt hvenær bjúgurinn gerir vart við sig. Stundum er það strax eftir krabbameinsmeðferð, en hann getur líka komið fram löngu eftir að meðferð lýkur.

Sogæðabjúgur er algengastur hjá konum sem fá meðferð við brjóstakrabbameini eða krabbameini í kvenlíffærum. Sogæðabjúgur getur þó einnig myndast í kjölfar meðferðar krabbameins á höfuð- og hálssvæði auk þess sem karlar geta fengið sogæðabjúg út frá meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli, typpi eða eistum.

Góð ráð við sogæðabjúg

Mikilvægt er að vera vakandi fyrir einkennum og leita sér fljótt aðstoðar ef sogæðabjúgur gerir vart við sig. 

Meðferð við sogæðabjúg felst fyrst og fremst í:

  • Þrýstimeðferð, t.d. með sérstakri þrýstiermi eða þrýstisokkum.

  • Sogæðanuddi sem felst í mjög léttum nuddhandtökum sem örva virkni sogæðakerfisins. Með sogæðanuddi er einnig hægt að stýra flæði sogæðavökvans fram hjá „lokuðu“ svæði, t.d. þar sem eitlar hafa verið fjarlægðir.

  • Æfingum sem auka blóðflæði.

  • Húðumhirðu og hreinlæti, þar sem sogæðabjúgurinn veldur því að húðin verður þurr og teygjanleiki minnkar. Það leiðir til þess að húðin rifnar/springur auðveldlega og verður útsettari fyrir sýkingum.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að hreyfing, hollt mataræði og hæfileg líkamsþyngd hafa jákvæð áhrif á blóðflæði líkamans, sem getur aukið virkni sogæðakerfisins.


Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/lymfoedem/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/lymfodem/

https://www.cancerresearchuk.org/about-cancer/coping/physically/lymphoedema-and-cancer/about

KYNLÍF EFTIR KRABBAMEIN

Þegar fólk greinist með krabbamein getur það haft áhrif á alla þætti lífsins, þar með talið kynlífið. Fyrir flesta er kynlíf mikilvægur hluti af lífinu, en við krabbameinsgreiningu og meðferðir er eðlilegt að kynlífið falli í skuggann til lengri eða skemmri tíma. Orsökin getur verið líffræðileg, sálfræðileg, félagsleg, eða blanda af þessu þrennu.

Sumar krabbameinsmeðferðir hafa mjög lítil áhrif á kynhvöt og getu fólks til að stunda kynlíf. Aðrar meðferðir geta haft áhrif á hvernig ákveðnir líkamshlutar virka, skaðað taugar sem liggja nálægt kynfærum eða raskað hormónajafnvægi líkamans.

Meðal þekktra langvinnra og/eða síðbúinna aukaverkana hjá konum eru verkir við samfarir, verkir í ytri kynfærum, leggangaopi eða leggöngum, minnkuð kynlöngun, þurrkur í leggöngum, blæðingar í tengslum við kynlíf og röskun á hormónajafnvægi. Hjá karlmönnum eru það meðal annars risvandamál, minni kynlöngun, truflun eða skortur á sáðláti og röskun á hormónajafnvægi. Hvað hjálpar hverjum og einum fer eftir eðli vandans, en sleipiefni, hormónalyf, kynlífstæki og stinningarlyf eru dæmi um það sem getur nýst fólki eftir krabbameinsmeðferð.

Sumir upplifa vanlíðan ef löngun og/eða geta til þess að stunda kynlíf minnkar eða hverfur og það getur reynst erfitt að tala við maka eða heilbrigðisstarfsfólk um tilfinningar tengdar kynlífi. Þetta er oft falið vandamál og ekki alltaf sem heilbrigðisstarfsfólk minnist á það í tengslum við krabbameinsmeðferð.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að krabbameinssjúklingar fá almennt takmarkaðar upplýsingar um hvaða áhrif krabbameinsmeðferðir geta haft á kynlíf og hvaða stuðningur eða úrræði eru í boði til þess að takast á við þau vandamál sem koma upp. Mikilvægt er að ræða við einhvern, t.d. kynfræðing, sálfræðing, lækni eða hjúkrunarfræðing ef fólk upplifir vandamál tengd kynlífi eftir krabbameinsmeðferð.

Kynlíf og sambönd
Að greinast með krabbamein og fara í gegnum krabbameinsmeðferð veldur líkamlegum breytingum og andlegu álagi sem getur reynt mjög á náin sambönd. Í sumum tilfellum styrkjast samböndin, en í öðrum tilfellum veldur álagið vandamálum. Í kjölfar krabbameinsgreiningar og meðferðar finna margir fyrir kvíða, reiði, eirðarleysi og breyttri sjálfsmynd. Þessir þættir geta haft áhrif á samskipti, náin sambönd og kynlíf, óháð því hvort sjúkdómurinn og meðferðin hafi bein áhrif á líkamlega virkni og getu til þess að stunda kynlíf.

Kynlíf eftir krabbamein
Það getur verið stórt skref að byrja að stunda kynlíf aftur eftir krabbameinsmeðferð. Það getur líka tekið tíma að venjast líkama sem er á einhvern hátt öðruvísi en áður. Sumir eru t.d. hræddir við að meiða þegar þeir stunda kynlíf og aðrir eru hræddir við höfnun. Fyrsta skrefið er að vinna með sjálfsmyndina og viðhorf sín. Það er mikilvægt að sætta sig við sjálfa/n sig, með þeim ummerkjum sem krabbameinið og meðferðin hefur skilið eftir. Hafa skal í huga að kynlíf getur verið svo margt annað en samfarir. Nánd, snerting, faðmlög og kossar eru fyrir marga ekki síður mikilvæg en samfarir. 

BREYTT LÍKAMSÍMYND

Líkamsímynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsunum, skynjunum og tilfinningum til eigin líkama. Líkamsímynd hefur áhrif á andlega heilsu og lífsgæði fólks og því er mikilvægt að hún sé jákvæð. Krabbamein og krabbameinsmeðferð geta haft í för með sér líkamlegar breytingar, sem eru ýmist tímabundnar eða til langframa. Fólk á öllum aldri og af öllum kynjum getur upplifað breytta líkamsímynd í kjölfar krabbameins og krabbameinsmeðferðar. 

Breytt líkamsímynd getur falið í sér breytingar á:

  • Hvernig líkaminn lítur út.

  • Hvernig líkaminn starfar.

  • Hvernig einstaklingar upplifa líkama sinn.

Sumar breytingar sem fólk upplifir í kjölfar krabbameins eru sýnilegar, t.d. þyngdartap/þyngdaraukning, sogæðabjúgur eða ör eftir skurðaðgerð. Aðrar breytingar sjást ekki en geta engu að síður haft mikil áhrif, t.d. ófrjósemi eða þreyta. Sumir upplifa að líkaminn hafi svikið sig og eiga erfitt með að treysta líkama sínum aftur eftir að þeir greinast með krabbamein.

Birtingarmynd breyttrar líkamsmyndar er ólík hjá hverjum og einum. Sumir eru óánægðir með líkama sinn og hafa minna sjálfstraust. Sumum finnst þeir eldast hratt í útliti í kjölfar krabbameinsmeðferðar og eiga erfitt með að kannast við sjálf sig í speglinum. Breytt líkamsímynd fólks getur líka falist í því að einstaklingar upplifi sig aðlaðandi.

Sumir hafa áhyggjur af því hvernig þeir koma öðru fólki fyrir sjónir eða hvaða áhrif breyttur líkami hefur á náin sambönd. Breytt líkamsímynd getur í sumum tilfellum orðið til þess að fólk eingangrar sig. Áhyggjur af því hvað öðrum finnst verða þá til þess að fólk forðast aðstæður þar sem aðrir geta séð líkama þeirra (t.d. sund eða líkamsrækt), forðast líkamlega nánd og forðast jafnvel að fara út á meðal fólks. Slík hegðun getur til lengri tíma valdið enn meiri vanlíðan og áhyggjum og haft hamlandi áhrif á samskipti og athafnir daglegs lífs. 

Heimildir:

Body image and cancer booklet - Macmillan Cancer Support

MAC14192 Body image and cancer (macmillan.org.uk)

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

Hvað er líkamsmynd? | Heilsuvera


FRJÓSEMI

Krabbamein og/eða krabbameinsmeðferðir geta haft neikvæð áhrif á frjósemi og dregið úr möguleika einstaklinga til að eignast börn. Skert frjósemi getur m.a. átt sér eftirfarandi orsakir:

  • Krabbameinsæxli sem skaðar innri eða ytri kynfæri. 

  • Skurðaðgerð þar sem hluti af kynfærum karla eða kvenna t.d. eggjastokkar, leg, legháls, hluti af eistum eða typpi, eru fjarlægð.

  • Ákveðnar krabbameinsmeðferðir geta valdið skaða á eggjastokkum eða eistum með þeim afleiðingum að framleiðsla kynhormóna truflast, sem hefur skaðleg áhrif á frjósemi.

  • Sálfræðileg eða tilfinningaleg viðbrögð vegna krabbameins, t.d. streita og kvíði.

Þessi atriði geta hvert fyrir sig, eða saman, haft neikvæð áhrif á frjósemi og getuna til að eignast barn.

Áhrif á frjósemi hjá konum

Sumar krabbameinsmeðferðir geta dregið úr frjósemi kvenna. Í sumum tilfellum eru áhrifin tímabundin, en í öðrum tilfellum valda meðferðir ófrjósemi til frambúðar.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi kvenna:

  • Ef báðir eggjastokkar eða leg er fjarlægt verða konur ófrjóar.

  • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi hjá konum. Áhrifin á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.

  • Geislameðferð nálægt æxlunarfærum kvenna getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.

  • Andhormónameðferð hjá konum byggist á því að minnka eða hindra virkni estrógens, en það hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist aftur eftir að meðferðinni lýkur.

Ef konur vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing um það fyrirfram hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemi þeirra. Í sumum tilfellum eru egg fryst áður en meðferð hefst.

Áhrif á frjósemi hjá körlum

Sumar krabbameinsmeðferðir geta dregið úr frjósemi karla. Í sumum tilfellum eru áhrifin tímabundin, en í öðrum tilfellum valda meðferðirnar ófrjósemi til frambúðar.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi karla:

  • Ef bæði eistu eru fjarlægð verða menn ófrjóir.

  • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi. Áhrifin á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.

  • Ef eitlar nálægt kynfærum, blöðruhálskirtli eða sáðblöðrum eru fjarlægðir í skurðaðgerð getur það valdið skertri frjósemi.

  • Geislameðferð nálægt kynfærum getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.

  • Andhormónameðferð byggist á því að minnka eða hindra virkni testósteróns og hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist aftur eftir að meðferð lýkur.

Ef menn vilja eiga möguleika á því að eignast börn seinna meir er mjög mikilvægt að ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing um það hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum er sæði fryst áður en meðferð hefst.

Testósterónframleiðsla getur minnkað eða stöðvast alveg í kjölfar krabbameinsmeðferðar.
Menn sem upplifa einkenni á borð við þreytu og orkuleysi, hitakóf, minni afköst og skerta kynlöngun og/eða kyngetu þurfa í sumum tilfellum á testósterónmeðferð að halda.

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader/fertilitet/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-maend/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/

SNEMMBÚIN TÍÐAHVÖRF

Um tíðahvörf
Ef um náttúruleg tíðahvörf er að ræða fer kona í gegnum breytingarskeið þar sem smátt og smátt dregur úr framleiðslu kynhormóna. Þetta ferli getur staðið yfir í nokkur ár. Þegar konur hætta að hafa blæðingar (tíðahvörf) hefur dregið verulega úr framleiðslu kynhormóna.

Snemmbúin tíðahvörf
Þegar konur sem ekki hafa farið í gegnum breytingaskeið fara í aðgerð þar sem báðir eggjastokkar eru fjarlægðir, eða fá geislameðferð í grindarholi sem skaðar eggjastokka, fara þær snögglega í tíðahvörf. Þessi hraða breyting á hormónaframleiðslu getur reynt mjög á líkamann. Við snemmbúin tíðahvörf af völdum skurðaðgerðar eða geisla hafa algengustu einkenni tíðahvarfa tilhneigingu til að þróast hraðar og ákafar en við náttúruleg tíðahvörf.

Konur sem hafa ekki farið í gegnum breytingaskeið og taka inn andhormónalyf geta upplifað snemmbúin tíðahvörf, en tíðahvörf af völdum andhormónalyfja geta þó mögulega gengið til baka þegar andhormónameðferð lýkur. Andhormónameðferðir hafa það að markmiði að draga úr áhrifum estrógens og slíkar meðferðir geta haft í för með sér ýmsar aukaverkanir.

Einkenni sem geta komið fram við snemmbúin tíðahvörf:

  • Hitakóf.

  • Þurrkur í leggöngum.

  • Þvagleki.

  • Skapsveiflur.

  • Minni kynlöngun.

  • Óreglulegar blæðingar eða tíðahvörf.

  • Svefntruflanir.

  • Verkir í liðum.

  • Aukin hætta á beinþynningu.

  • Þyngdaraukning.

Heimildir

Tidlig overgangsalder hos kvinner - Kreftforeningen

Long-Term Side Effects of Cancer Treatment | Cancer.Net

Aukaverkanir sameiginlegar andhormónalyfjum | Brjóstakrabbamein (brjostakrabbamein.is)

MUNN- OG TANNHEILSA

Orsakir og einkenni munn- og tannvandamála
Munn- og tannvandamál geta komið fram í kjölfar krabbameinsmeðferðar, einkum hjá þeim sem greinast með krabbamein í hálsi eða höfði.

Ástæður munn- og tannvandamála í tengslum við krabbameinsmeðferðir:

  • Geislameðferð getur valdið skemmdum á slímhúð, munnvatnskirtlum og beinvef.

  • Lyfja- og geislameðferðir hafa það markmið að hægja á eða stöðva vöxt og endurnýjun krabbameinsfruma. Um leið geta meðferðirnar haft sambærileg áhrif á starfsemi annarra fruma sem vaxa hratt og endurnýja sig ört, þar á meðal frumur í slímhúð sem þekur munninn að innan.

  • Lyfja- og geislameðferðir geta raskað eðlilegri bakteríuflóru í munninum, m.a. annars með því að hafa neikvæð áhrif á slímhúð og/eða munnvatnsframleiðslu. Ójafnvægi í bakteríuflóru munnsins getur leitt til munnsára, sýkinga og tannskemmda.

Hvernig lýsa síðbúnar/langvarandi aukaverkanir á munn- og tannheilsu sér?

  • Munnþurrkur.

  • Eymsli og óþægindi í munni.

  • Kyngingarörðugleikar.

  • Slímhúð í munni getur verið rauð og viðkvæm.

  • Breyting á bragðskyni.

  • Andfýla.

  • Auknar líkur á tannskemmdum.

  • Tennur geta orðið stökkari/brothættari.

  • Skemmdir á kjálkabeini.

  • Vannæring og/eða ofþornun vegna vandamála við inntöku matar eða drykkjar.

Góð ráð við munn- og tannvandamálum

Til þess að draga úr vandamálum tengdum munn- og tannheilsu er mikilvægt að borða holla fæðu, fara reglulega til tannlæknis og sinna vel tann- og munnhirðu. Eftirfarandi ráð geta minnkað líkur á ákveðnum vandamálum eða dregið úr einkennum:

  • Bursta tennur a.m.k.  tvisvar sinnum á dag með mjúkum bursta og flúortannkremi.

  • Gott er að mýkja burstahárin áður en burstað er með því að halda burstanum undir heitu vatni í nokkrar sekúndur.

  • Velja sápulaust tannkrem með mildu bragði, sterkt bragð getur valdið óþægindum.

  • Til að örva munnvatnsframleiðslu er mælt með því að fá sér sykurlaust tyggjó eða sykurlausar munnvatnsörvandi bragðtöflur.

  • Gott er að nota gervimunnvatn sem fæst í apótekum, en þar er einnig að finna sprey og gel sem vinna gegn munnþurrki.

  • Mikilvægt er að nota tannþráð daglega en þó þarf að forðast að særa viðkvæmt tannholdið.

  • Munnskol sem notað er ætti ekki að innihalda alkóhól.

  • Gott er að bera varasalva eða vaselín á varirnar.

  • Mælt er með því að borða mat sem þarf að tyggja, það eykur munnvatnsframleiðslu.

  • Ekki nota sætindi til að lina munnþurrk, þar sem sætindi auka líkur á tannskemmdum.

  • Reykingafólk sem fær höfuð- eða hálskrabbamein ætti að reyna að hætta að reykja. Það getur haft mikið að segja fyrir munn- og tannheilsu.

Heimildir

https://www.cancer.gov/about-cancer/treatment/side-effects/mouth-throat/oral-complications-pdq

Munnþurrk þarf að meðhöndla (landlaeknir.is)

Munn-/tannproblemer og nedsatt smaksfunksjon - Kreftforeningen

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

Alvarlegar en óalgengar síðbúnar aukaverkanir

HJARTA- OG ÆÐASJÚKDÓMAR

Sumar krabbameinsmeðferðir geta valdið síðbúnum aukaverkunum sem tengjast hjarta- og æðakerfinu. Slíkar aukaverkanir eru sjaldgæfar, en þær eru alvarlegar og í sumum tilfellum geta þær verið lífshættulegar.

Hvaða meðferðir geta valdið hjarta- og æðasjúkdómum?

Geislameðferð á brjóstkassa, þar sem hjartað er hluti af geislunarsvæðinu, eykur hættu á kransæðasjúkdómi sem og hjartabilun, hjartsláttartruflunum og lokugalla síðar í lífinu.

Ákveðnar tegundir krabbameinslyfja t.d. Trastuzumab, Antracycline og Cisplatin geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum síðar í lífinu.

Sem betur fer upplifir aðeins lítill hluti sjúklinga aukaverkanir af þessu tagi. Misjafnt er hversu langur tími líður frá því að meðferð lýkur þangað til einkenni koma fram hjá þeim sem fá hjarta- og æðasjúkdóma í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Hjá mörgum koma einkenni ekki fram fyrr en árum eða áratugum eftir að meðferð lýkur.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að ræða við heimilislækni ef þú hefur fengið krabbameinsmeðferð sem getur haft áhrif á hjarta- og æðakerfið. Einnig er nauðsynlegt að vera meðvitaður um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og leita sér hjálpar ef slík einkenni koma fram.

Heilbrigður lífsstíll er lykilatriði til þess að draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Ráðlagt er að stunda reglulega hreyfingu, viðhalda hæfilegri líkamsþyngd, forðast reykingar og óhóflega notkun áfengis og fylgjast með að blóðþrýstingurinn sé ekki yfir viðmiðunarmörkum.

Ef þú upplifir eftirfarandi einkenni ættir þú strax að leita læknisaðstoðar:

  • Verkur, þrýstingur eða þyngsli í brjóstkassa.

  • Verkur, dofi eða óþægindi í efri hluta líkamans, s.s. í baki, handlegg, öxl, hálsi, maga eða kjálka/tönnum.

  • Óreglulegur, hægur eða mjög hraður hjartsláttur.

  • Mæði.

  • Ógleði, uppköst, uppþemba eða brjóstsviði.

  • Sviti og/eða kaldsveitt húð.

Ef þú telur að þú getir verið að fá hjartaáfall, hringdu þá strax í 112 og óskaðu eftir sjúkrabíl.

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/hjerte-og-karsykdommer/

Seneffekter etter kreftbehandling (helsedirektoratet.no)

Vidensopsamling på senfølger efter kræft hos voksne - Sundhedsstyrelsen

Hjartaáfall | Heilsuvera

NÝTT KRABBAMEIN

Þeir sem hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð eru í lítillega aukinni hættu á að greinast með nýtt krabbamein (ekki endurkoma krabbameins sem greindist upphaflega). Þetta er alvarleg, en afar sjaldgæf síðbúin aukaverkun eftir krabbameinsmeðferð.

Bæði geislameðferð og sumar tegundir lyfjameðferðar geta haft krabbameinsvaldandi áhrif. Áhættan er mismunandi eftir því hvaða meðferð fólk gengst undir. Nýtt krabbamein getur einnig komið fram vegna ákveðinna erfðafræðilegra þátta og/eða vegna þess að fólk er útsett fyrir sömu krabbameinsvaldandi þáttum (t.d. reykingar eða ofþyngd) og áttu mögulega þátt í að valda fyrsta krabbameininu.

Mikilvægt er að hafa í huga að hættan á að fá nýtt krabbamein er lítil.

Hvað er til ráða?
Fólk sem hefur farið í gegnum krabbameinsmeðferð ætti að hafa samband við lækni ef það upplifir breytingar/einkenni sem vara lengur en 2-3 vikur.

Sum krabbamein má rekja til óheilsusamlegra lifnaðarhátta. Mikilvægt er að huga að heilbrigðum lífsstíl, t.d. stunda hreyfingu, borða hollan mat, forðast reykingar og forðast yfirþyngd.


Heimildir

Ny kreftsykdom (sekundær kreft) - Kreftforeningen



Heimildir

Heimildir

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/cancer/in-depth/cancer-survivor/art-20045524

https://www.cancer.dk/bedrevidenomsenfoelger/om-senfoelger/

Klinik for Senfølger, OUH varetager behandling af almindelig og komplekse senfølger

Senskader etter kreftbehandling blant voksne - Kreftforeningen

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/3/8853/1598965481/senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/hvad-er-senfoelger/?itm_source=cancerdk&itm_medium=nyhedsartikel&itm_campaign=senfoelgertema&itm_content=ny-pjece-giver-kraeftpatienter-viden-om-senfoelger


Var efnið hjálplegt?