Eldri starfsemi

Starfsemi 2016-2017

Aðalfundur
Aðalfundur var haldinn á Fáskrúðsfirði í júní. Pálína Margeirsdóttir talaði um erfðarannsóknir.

Fjáröflun
Mottumars var notaður til fjáröflunar með hefðbundnum hætti sem og haustsala félagsins í september þar sem tekið var vel á móti sölufólki að vanda. Í október hafði rekstraraðili Sesam brauðhúss samband og vildi vekja athygli á félaginu og styrkja það með því að tileinka ákveðnar vörur Bleiku slaufunni og selja til styrktar félaginu sem var að sjálfsögðu þegið með þökkum. Göngum saman göngur voru haldnar á mæðradaginn á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og var þátttaka með ágætum á báðum stöðum. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja styrktu félagið með peningagjöfum, sem seint verður þakkað til fullnustu og virkar sem hvatning fyrir okkur að halda áfram okkar góða starfi og gera enn betur. Í haust voru tónleikar með KK sem voru mjög vel sóttir og tókust mjög vel. Tolli kom í nóvember og var með fyrirlestur um núvitund. Fyrirlesturinn var vel sóttur og tókst vel.

Hvíldarhelgin á Eiðum
Í ágúst stóðu Kirkjumiðstöð Austurlands og Krabbameinsfélögin á Austurlandi fyrir hvíldarhelgi á Eiðum fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Var þetta einstaklega notaleg helgi þar sem í boði var djúpslökun, stafganga, nudd, bænastundir og kvöldvaka þar sem kirkjukór Fáskrúðsfjarðar kom og söng nokkur lög. Eiðahelgin tókst vel og það var ágætis mæting. Fyrirlesari var Hrönn Grímsdóttir, sem er lýðheilsufræðingur og jógakennari, hún talaði um margt uppbyggilegt eins og jákvæða sálfræði, hreyfingu og að setja sér markmið.

Hvunndagshetjan
Það eru þó nokkur ár síðan ákveðið var að heiðra hvunndagshetjuna í fyrsta sinn. Þar sem bleikur október var og er árveknimánuður fyrir krabbamein í konum, kom upp sú hugmynd að standa fyrir viðburði í því tilefni. Hvunndagshetjur 2016 eru Heiðdís Guðmundsdóttir á Stöðvarfirði, Jóna Björg Óskarsdóttir og Sunna Björg Guðnadóttir í Neskaupsstað.

Aðventukvöld
Í desember var aðventukvöld þar sem fólk hittist og átti notalega kvöldstund saman. Elín Einarsdóttir kom og var með jóga og Jórunn Valdimarsdóttir var með hugleiðslu. Þetta kvöld tókst mjög vel.

Styrkveitingar

Sem fyrr hefur félagið styrkt einstaklinga sem hafa fengið afnot af íbúðunum á Rauðarárstíg og gist á Sjúkrahótelinu. Það er dýrt að verða veikur á Íslandi og það sjáum við vel, þess vegna er starf félagsins okkar gríðarlega mikilvægt til að geta létt undir með fólki fjárhagslega í veikindum. Krabbameinsfélag Austfjarða gaf Sjúkrahúsinu á Neskaustað lyfjadælu og vatnshreinsivél.

Heiður Hreinsdóttir.

Starfsemi 2015-2016


Aðalfundur 

Var haldinn í Safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju 28. apríl 2014. Þær breytingar urðu á stjórn félagsins að Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir hætti sem gjaldkeri og varð meðstjórnandi og Jórunn Valdimars¬dóttir kom ný inn í stjórn sem gjaldkeri. Unnur Björgvinsdóttir vék úr stjórn og eru henni færðar bestu þakkir fyrir sitt starf í gegnum árin. Á árinu var Tinna Hrönn Smáradóttir starfsmaður félagsins í 50% stöðu.

Virknimiðstöð

Við fengum afnot af húsnæði gistiheimilisins Hjá Marlín endurgjaldslaust. Þar var opið hús einu sinni í viku kl.14-17. Það var lítið sem ekkert nýtt, sennilega vegna dreifðrar byggðar og opnun á dagvinnutíma. Hugsanlega væri betra að horfa meira til fyrirlestra og koma á tengiliðum á hverjum stað fyrir sig og fara meira á milli staða með fræðslufundi og viðburði. Í virknimiðstöðinni var þó boðið upp á ýmislegt eins og heilsunudd hjá Laufeyju Frímannsdóttur, námskeið í núvitund með Margaret Anne Johnson, kynningu á hráfæði sem kallast Ævintýraferð bragðlaukanna með Önnu Mörtu Bjarnadóttur og fyrirlesturinn Vellíðan og hugarró með Solveigu Friðriksdóttur.

Söfnunarátök

Mottumars var notaður til fjáröflunar með hefðbundnum hætti sem og haustsala félagsins í september þar sem tekið var vel á móti sölufólki að vanda. Í október hafði rekstraraðili Sesam brauðhús samband og vildi vekja athygli á félaginu og styrkja það með því að tileinka ákveðnar vörur bleiku slaufunni og selja til styrktar félaginu sem var að sjálfsögðu þegið með þökkum. Göngum saman göngur voru haldnar á mæðradaginn á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og var þátttaka með ágætum á báðum stöðum. 

Hvíldarhelgin á Eiðum

Hvíldarhelgin var haldin 11.-13. september 2015. Þar var lögð áhersla á að þátttakendur nytu líðandi stundar í kyrrð og ró, í fjarlægð frá amstri dagsins. Boðið var upp á fyrirlestur og kynningu á heilsufæði með Ebbu Guðnýju sjónvarpskokki með meiru, sem sló í gegn með nærveru sinni, einnig var boðið uppá jóga, slökun, kvöldvöku þar sem króatískur kór kom og flutti nokkur lög. Þátttakendur voru 15 talsins og var dvölin þeim að kostnaðarlausu, í boði Krabbameinsfélaga Austfjarða og Austurlands, en helgin er samstarfsverkefni þessara tveggja félaga. Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki alveg verið með okkur í liði þessa daga, þótti helgin engu að síður vel lukkuð í alla staði.

Hvunndagshetjan 2015

Það er orðinn siður hjá félaginu að heiðra hvunndagshetju í október ár hvert. Upphaflega byrjaði það með því að heiðra konu sem greinst hefur með krabbamein, þar sem október var tileinkaður krabbameinum kvenna. Nú var breyting á og var ákveðið að heiðra þrjár hvunndagshetjur í Kirkju- og menningarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Hvunndagshetjurnar eru þau Steinunn Þorsteinsdóttir frá Neskaupstað, Bryndís Ísfeld Ingvarsdóttir frá Reyðarfirði og Guðmundur Páll Pálsson frá Reyðarfirði.

Styrkir til einstaklinga

Sem fyrr hefur félagið styrkt einstaklinga sem hafa fengið afnot af íbúðunum á Rauðarárstíg og gist á Sjúkrahótelinu. Það er dýrt að verða veikur á Íslandi og það sjáum við vel, þess vegna er starf félagsins okkar gríðarlega mikilvægt til að geta létt undir með fólki fjárhagslega í veikindum.
Styrkir frá fyrirtækjum og einstaklingum. Við finnum fyrir mikilli velvild í garð félagsins og erum við afar þakklát fyrir það. Við hlutum samfélagsstyrk Alcoa til að kaupa bókina „Þegar foreldri fær krabbamein“ og færa öllum bókasöfnum á svæði félagsins. Margir einstaklingar, félög og fyrirtæki hafa lagt okkur lið og má þar sem dæmi nefna Sesam brauðhús, Oddfellow-konur á Héraði, sem gáfu nýja fartölvu á skrifstofuna, Alcoa in motion sem hélt styrktargöngu, Austfirðinga í Reykjavíkurmaraþoni og styrktarsölu Sigurjónu Óskar Óskarsdóttur á handverki. Einstaklingar gáfu andvirði jólakorta og vinkonurnar Manda og Heiðdís Sara héldu tombólur til styrktar félaginu. Einnig barst arfur frá góðvini okkar Jónasi Jónassyni sem lést á árinu, 95 ára að aldri. Blessuð sé minning hans.

Fjöldi annarra einstaklinga og fyrirtækja styrktu félagið með peningagjöfum, sem seint verður þakkað til fullnustu og virkar sem hvatning fyrir okkur að halda áfram okkar góða starfi og gera enn betur!

Tinna Hrönn Smáradóttir

Starfsemi 2014

Aðalfundur var haldinn í Safnaðarheimili Reyðarfjarðarkirkju 29. apríl 2014. Stjórn félagsins hélst óbreytt nema að því leyti að Anna Ragnheiður Gunnarsdóttir tók við stöðu gjaldkera og Iðunn Geirsdóttir sem hafði verið gjaldkeri tók við af Önnu sem meðstjórnandi.

Þjónustuskrifstofa

Í janúar hóf Tinna Hrönn Smáradóttir störf hjá félaginu í 50% stöðu sem felur í sér þjónustu við félagsmenn eins og verið hefur en aukin prósenta felur í sér að koma á fót og sinna virknimiðstöð sem markmiðið var að koma á koppinn. Talsvert var fundað með fleiri aðilum um samstarf á þessum velli en þær viðræður fjöruðu út og þegar líða tók að hausti tók félagið af skarið og hóf leit að húsnæði. Í haust kom svo upp óvænt tækifæri þegar félaginu bauðst að fá afnot af húsnæði farfuglaheimilisins Hjá Marlín sem er staðsett í fyrrverandi Húsgagnaversluninni Hólmum við Austurveg á Reyðarfirði. Afnot af húsnæðinu eru félaginu að kostnaðarlausu og vill Marlín þannig styrkja félagið og má segja að þessi styrkur sé ómetanlegur og kunnum við Marlín bestu þakkir fyrir hennar framlag. Miðstöðin var opnuð formlega þann 30. nóvember 2014 þar sem um 30 manns mættu.

Opið hús

Opið hús er haldið annan þriðjudag í mánuði og hefur verið reynt að brydda uppá mismunandi umræðum og viðburðum. Einnig hefur virknimiðstöðin verið opin alla fimmtudaga kl.14-17.

Söfnunarátök

Mottumars gekk í garð með samkomu Hárstofu Sigríðar og Staupasteins á Reyðarfirði þar sem m.a. var haldið uppboð þar sem ágóðinn rann til félagsins, við vorum með sölubás þar sem voru til sölu t.d. mottuherðatré, mottuhálsslaufur, skeggpinnar og fleira. Sömu aðilar héldu aftur konukvöld í október til styrktar félaginu þar sem var haldið uppboð á munum sem listamenn höfðu gefið til styrktar málefninu og runnu upphæðirnar óskiptar til félagsins. Einnig voru farnar hefðbundnar leiðir í sölu á skeggpinnum í mars og haustsölunni.

Vinir Jóa

Í febrúar í fyrra tók félagið þátt í söfnun þar sem nokkrir einstaklingar sem kölluðu sig „Vinir Jóa“ tóku sig saman og söfnuðu styrkjum til þess að kaupa rafskutlu fyrir góðan félaga sem vegna alvarlegra veikinda sinna hafði einangrast og komst ekki ferða sinna. Það tókst á ótrúlega stuttum tíma og innan við mánuð frá því að hugmyndin kviknaði var búið að safna fyrir og afhenda skutluna við mikla gleði Jóhannesar félaga okkar sem féll frá í haust. Þetta dæmi sýnir grannt velviljann í samfélaginu okkar og er virkilega gaman að geta tekið þátt í svona verkefnum.

Hvíldarhelgi á Eiðum

Hvíldarhelgin á Eiðum var skipulögð í þaula með glæsilegri dagskrá, en vegna lélegrar þátttöku var sú ákvörðun tekin að blása hvíldarhelgina af og reyna aftur að ári.

Styrkir til einstaklinga

Sem fyrr hefur félagið styrkt einstaklinga sem hafa fengið afnot af íbúðunum á Rauðarárstíg og gist á Sjúkrahótelinu. Það er dýrt að verða veikur á Íslandi og það sjáum við vel, þess vegna er starf félagsins okkar gríðarlega mikilvægt til að geta létt undir með fólki fjárhagslega og hefur það aukist

Styrkir frá fyrirtækjum og einstaklingum

Við finnum fyrir mikilli velvild í garð félagsins og erum við afar þakklát fyrir það. Margir einstaklingar, félög og fyrirtæki hafa lagt okkur lið og má þar helst nefna Hárstofu Sigríðar og Staupastein varðandi konukvöldin, Tónleikafélag Reyðarfjarðar sem hélt flotta söngvarakeppni sem styrkt var af ýmsum fyrirtækjum og fékk félagið ágóðann sem var 400 þúsund krónur, Sesam brauðhús seldi bleikar bollakökur í október og runnu 100 krónur af hverri bollaköku til félagsins, upphæðin varð 125.200 krónur sem þýðir að 1.252 bleikar bollakökur seldust, Kvenfélag Reyðarfjarðar afhenti 150 þúsund krónur sem notaðar voru til að kaupa skjávarpa sem mun nýtast vel. Fjöldi annarra einstaklinga og fyrirtækja styrktu félagið með peningagjöfum, sem seint verður þakkað til fullnustu og virkar sem hvatning fyrir okkur að halda áfram okkar góða starfi og gera enn betur! 

Tinna Hrönn Smáradóttir 


Var efnið hjálplegt?