© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2016-2017

Ég tók við sem formaður Krabbavarnar haustið 2003 og ætlaði að vera eitt ár en er búin að vera þrettán og hálft ár þegar ég en hætti núna í vor. Þegar ég tók við félaginu var það við að lognast út af en með hjálp góðra kvenna náðum við að hressa það við og rákum það á persónulegum nótum. Fórum heim til fólks og töluðum við það í síma. Tilgangur félagsins er að styrkja og styðja þetta fólk.

Það eru alltaf einhverjir sem þurfa á aðstoð að halda, þess vegna er svo gott að hittast einu sinni í viku nema á sumrin og um jólin, alls 42 sinnum á ári. Síðan við breyttum í kaffihitting hefur aðsóknin aukist.

Í Krabbavörn eru rúmlega 280 félagar sem greiða 2.500 kr. í árgjald. Félagið greiðir sjúklingum 25.000 kr. í styrk fyrir hverja ferð suður og svo greiðum við leigu á íbúðunum við Rauðarárstíg. 250 þús. kr. er jarðarfararstyrkur. Við höfum styrkt 27 einstaklinga á árinu. Þá höfum við gefið 500 þúsund krónur í fimm ár á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands til viðhalds á íbúðunum en þær eru mikið notaðar af okkar fólki.

Áramótagangan er alltaf á gamlársdagsmorgun og endað í súpu hjá Einsa kalda sem hann gefur okkur. Mars er mánuður karlanna og flöggum við skeggfánum út um allan bæ til að minna þá á að fara í skoðun.

Karólína Kristín fór fyrir okkar hönd á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands í maí 2016. Sjö tinda gangan var um Jónsmessu og mjög góð þátttaka. Haustsalan gekk mjög vel enda mikill munur að hafa sölustjóra. Formannafundur var á Bakkaflöt í Skagafirði. Tókum við okkur þrjár saman og keyrðum norður frá Landeyjarhöfn.

Í október var bærinn meira og minna lýstur bleikur. Fánar með bleikri slaufu blöktu víða allir voru tilbúnir að minna á Krabbavörn. Bleikur dagur var á landsvísu 14. október og Einsi kaldi bauð okkur í súpu. Bleikt kvöld var í verslunum bæjarins 27. október og mjög gaman og hluti af sölunni rann til okkar. Þakkarbréf voru send til þeirra sem með einum eða öðrum hætti hafa styrkt okkar starf en við finnum velvilja og góðvild alls staðar.

Gleðin og sorgin eru systur og hafa þær báðar heimsótt okkur. Margir koma með góðar fréttir en svo þurfa aðrir að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum illvíga. Krabbavörn stendur vel með sínum félögum.

Ester Ólafsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Nú eru 265 félagsmenn sem greiða 2.500 kr. árgjald. Tilgangur félagsins er að styrkja og styðja þá sem glíma við krabbamein eða þetta verkefni sem sumir fá. Það eru alltaf einhverjir sem þurfa á aðstoð að halda, þess vegna er svo gott að hittast og spjalla um allt milli himins og jarðar. Fyrst var þetta skrifstofa en svo breyttum við fyrirkomulaginu og reyndum að hafa hitting. Kom það vel út og festi sig í sessi, það mæta alltaf einhverjir. Rauða krossinum viljum við þakka fyrir að fá að vera endurgjaldslaust hjá þeim.

Félagið greiðir leigu fyrir íbúðirnar á Rauðarárstíg og svo er viss fjárstyrkur fyrir hverja ferð en það hefur breyst mikið eftir að lyfjagjöf hófst hér í Eyjum.

Það er orðinn fastur liður að fara í áramótagöngu á gamlársdagsmorgun og er endað í súpu hjá Einsa kalda sem hann gefur félaginu og til viðbótar eru áheit frá fyrirtækjum, þökk sé Hafdísi Kristjáns og hennar vinum en þau sjá líka um sjö tinda gönguna. Mars er „mánuður mannanna“. Við höfum fengið að flagga um allan bæ til að minna strákana á að þeir geta líka fengið krabbamein og þurfa að láta skoða sig. Berglind Kristjáns í BK-gler er að gera ýmsa hluti og selja svo sem svuntur, könnur, boli, límmiða á bíla og segla á ísskápa og rennur ágóðinn af þessu til okkar. Sigurlaug Alfreðsdóttir prjónar tuskur og býr til gjafakort sem hún selur í Póley okkur til styrktar. Þann 8. maí 2015 var Halla Margrét Árnadóttir með óperutónleika í Landakirkju og gaf okkur ágóðann. Hólmfríður hefur selt minningarkort í 36 ár, ætlaði að hætta en er hætt við að hætta.

Þann 9. maí 2015 var aðalfundur Krabbameinfélags Íslands í húsi félagsins í Skógarhlíð, þar mættum við Margrét og var okkur vel tekið. Við afhentum 500 þúsund krónur til viðhalds á íbúðunum í Reykjavík og er þetta í fjórða skipti sem það er gert.

Formannafundur er alltaf í október. Hann var núna í Reykjavík og þar mættum við Margrét og Jóhanna Kristín. Jóhönnu var þar hent út í djúpu laugina og stóð hún sig mjög vel. Hefur hún sinnt sínu verkefni af miklum áhuga og fór meðal annars á samráðsfund með öðrum félögum á landinu í febrúar. Þykir mér það mjög leitt að hún geti ekki verið áfram og vil ég þakka henni góðar stundir.

Salan í september gekk vel eins og vanalega. Stóðu þær sig einstaklega vel Karólína og Linda. Í október var bærinn meira og minna lýstur upp. Bleikt kvöld var í verslunum og hluti af sölu rann til okkar. Bleikur leikur var hjá handboltastelpunum og gáfu þær ágóðann til félagsins.

Stefán Sigurðsson gekk Jakobsveginn og fékk áheit fyrir Krabbavörn, hann kom svo til okkar og sýndi okkur myndir og sagði frá ferð sinni. Eigendur 900 Grillhús buðu okkur að hittast þar og borða í þeirra boði. Krabbavörn bauð í smurbrauð hjá Einsa Kalda fyrir jól og var þar góð mæting. Þakkarbréf voru send til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa styrkt okkur, en við finnum góðvild og stuðning alls staðar. Nú eru allar upplýsingar varðandi starfsemina auðfundnar á Facebook-Krabbavörn og á krabb.is.

Margt hefur gerst á árinu en gleðin og sorgin eru systur og hafa þær báðar sótt okkur heim. Margir koma með góðar og jákvæðar fréttir og hafa læknast. En einnig eru þeir sem sem þurft hafa að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum illvíga.

Ester Ólafsdóttir

Starfsemi 2014-2015

Skrifstofan er opin alla þriðjudaga kl.13:00-15.00 og er hún að festa sig í sessi, alltaf kíkja einhverjir við. Magga og Ester eru þar í sjálfboðavinnu, en Guðbjörg Erla sem var þar starfsmaður dró sig í hlé í bili vegna veikinda.

Fyrsta fimmtudag í mánuði höfum við opinn fund þar sem gott meðlæti er í boði sem við gerum sjálfar. Hafdís Kristjánsdóttir jógakennari var með fyrirlestur um meðvirkni og jákvæðni. Fórum á karlakvöld hjá Hjólbarðastofu Vestmannaeyja þar sem okkur var afhent peningagjöf. Par hér í Eyjum sem gifti sig eftir áralanga sambúð bað gesti í brúðkaupsveislunni að í stað gjafa léti fólk af hendi rakna peningagjöf til Krabbavarnar. Eldri maður gaf stórgjöf til minningar um látna eignkonu sína. Handboltalið kvenna og karla gáfu ágóða af innkomu á handboltaleik. Ung stúlka tók þátt í Reykjavíkurmaraþoni með áheitum á Krabbavörn. Tvær ungar stúlkur gáfu ágóða af blaðaútgáfu. Sjötindaganga og áramótaganga safnaði fjármunum. Tvær konur gáfu út dagatal og seldu. Vinur okkar er að ganga Jakops-veginn og safnar áheitum á Krabbavörn. BK-gler selur boli, svuntur og könnur fyrir okkur. Septembersalan gekk mjög vel, það var bleikur bær í október og Mottumars flottur, flaggað fánum víða í bænum.

Gáfum eina milljón króna til Kvenfélagsins Líknar til kaupa á röntgentæki fyrir Heilbrigðisstofnunina. Einnig 500 þúsund krónur í íbúðirnar sem fólkið okkar notar mjög mikið.

Ester Ólafsdóttir.


Var efnið hjálplegt?