Lög félagsins

Lög Krabbameinsfélags Íslands samþykkt á aðalfundi félagsins 21. maí 2022

1. gr. Nafn og skilgreining.

Félagið heitir Krabbameinsfélag Íslands. Aðild að því eiga krabbameinsfélög í landinu og önnur áhugamannasamtök sem starfa í samræmi við tilgang félagsins.

Ósk um inngöngu í Krabbameinsfélag Íslands skal beina til stjórnar félagsins, sem tekur ákvörðun um hvort skilyrði fyrir aðild séu uppfyllt. Ákvörðun stjórnar um inngöngu skal lögð fyrir aðalfund til staðfestingar.

Krabbameinsfélag Íslands er félag til almannaheilla og starfar í samræmi við lög 110/2021.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur félagsins er að styðja og efla í hvívetna baráttuna gegn krabbameinum. Félagið vinnur að því að draga úr nýgengi krabbameina og dánartíðni af völdum þeirra og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandenda þeirra með því m.a. að:

  1. Beita sér fyrir virkri opinberri stefnu (krabbameinsáætlun) í forvörnum, greiningu, meðferð og endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein.
  2. Stuðla að þekkingu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir.
  3. Efla krabbameinsrannsóknir, m.a. með söfnun og vísindalegri úrvinnslu upplýsinga og með rekstri vísindasjóðs.
  4. Beita sér fyrir leit að krabbameini á byrjunarstigi.
  5. Styðja framfarir í meðferð krabbameina og umönnun krabbameinssjúklinga.
  6. Styðja og beita sér fyrir stuðningi við krabbameinssjúklinga og aðstandendur.
  7. Vera málsvari krabbameinssjúklinga og beita sér fyrir réttindum þeirra.

3. gr. Aðalfundur.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar, sem halda skal í maí ár hvert. Boða skal til hans á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til aðildarfélaga með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á árlegum aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Skýrslur aðildarfélaga lagðar fram til kynningar.
  4. Kynning á starfs- og fjárhagsáætlun til tveggja ára.
  5. Lagabreytingar.
  6. Stjórnarkjör.
  7. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga, og eins til vara, til eins árs
  8. Kosning fimm manna uppstillingarnefndar.
  9. Önnur mál.

Hverju starfandi aðildarfélagi er heimilt að senda einn fulltrúa á aðalfund fyrir hverja 200 félagsmenn, eða brot úr þeim fjölda, þó aldrei fleiri en sex fulltrúa. Jafnframt hafa stjórnarmenn Krabbameinsfélags Íslands, sem ekki eru kjörnir fulltrúar síns aðildarfélags, sem og starfsmenn KÍ seturétt á aðalfundi með málfrelsi.

Aukaaðalfundur er boðaður ef stjórn telur það nauðsynlegt eða ef aðildarfélög sem samtals eiga rétt til a.m.k. eins fjórða hluta fulltrúa á árlegum aðalfundi senda stjórn rökstudda beiðni um slíkt. Aukaaðalfundur er boðaður með dagskrá á sama hátt og árlegur aðalfundur og sömu reglur gilda um fulltrúa. Aukaaðalfund skal halda ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að skrifleg beiðni um hann hefur borist.

4. gr. Stjórnun.

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin er skipuð sjö aðalmönnum og tveimur til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Árlega skal kjósa þrjá meðstjórnendur til tveggja ára og tvo til vara til eins árs í senn. Stjórn skal skipuð fulltrúum frá aðildarfélögum. Um framboð til stjórnar skal tilkynna skriflega til félagsins skemmst sjö dögum fyrir aðalfund. Miðað er við að stjórnarmenn sitji að jafnaði eigi lengur en fjögur kjörtímabil í senn. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund kýs stjórnin úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.

Formaður boðar til stjórnarfunda að jafnaði mánaðarlega. Stjórnarfund skal kalla saman ef þrír stjórnarmenn eða fleiri óska þess.

Stjórn félagsins ritar firma þess. Stjórn er heimilt að veita framkvæmdastjóra og fjármálastjóra félagsins heimild til að rita firma félagsins.

Stjórnin setur reglur um starfsemi félagsins. Stjórn er heimilt að stofna til sjálfstæðra starfseininga innan félagsins um afmarkaða þætti starfseminnar. Stjórn er heimilt að skipa sérstakar stjórnir fyrir slíkar starfseiningar. Ákveði stjórn að stofna slíka starfseiningu ber henni að setja einingunni sérstakar reglur. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á rekstri félagsins gagnvart stjórninni, samkvæmt starfslýsingu.

Formaður boðar til formannafunda að jafnaði tvisvar á ári, að vori og hausti og eftir þörfum. Þar skulu kynnt þau málefni sem unnið er að á vegum KÍ og aðildarfélaganna á hverjum tíma. Fjáröflun skal vera á dagskrá formannafunda að minnsta kosti einu sinni á ári. Stjórn skal taka ályktanir formannafundar til umræðu á næsta stjórnarfundi eftir formannafund. Stjórn setur frekari reglur um formannafundi.

5. gr. Aðildarfélög.

Aðildarfélög KÍ starfa sjálfstætt en í samræmi við tilgang og markmið KÍ. Þeim ber að að vinna eftir bestu fyrirliggjandi þekkingu á hverjum tíma. KÍ skal hafa aðgengilegt fræðsluefni og faglegan stuðning fyrir félögin. Félög sem eiga aðild að KÍ skulu halda aðalfund árlega og skila ársskýrslu og ársreikningi til KÍ fyrir aðalfund KÍ.

Skili aðildarfélag ekki ársskýrslu og ársreikningi 2 ár í röð er aðalfundi KÍ heimilt að víkja því úr félaginu. Áður skal stjórn KÍ hafa skorað á aðildarfélagið að bæta úr skilum, með formlegum hætti. Tillaga um brottvikningu skal fylgja aðalfundarboði. Slíka tillögu skal samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á aðalfundi.

Hyggi aðildarfélag á úrsögn úr KÍ skal tilkynning um þá fyrirætlan berast stjórn KÍ tveimur mánuðum fyrir aðalfund aðildarfélagsins. Úrsögn aðildarfélags úr KÍ er því aðeins gild að hún hafi verið samþykkt á lögmætum aðalfundi aðildarfélagsins. Úrsögn tekur gildi frá lokum þess reikningsárs félagsins er hún hlýtur samþykki eða fyrr, ef um það næst samkomulag milli KÍ og aðildarfélagsins, að loknu fjárhagslegu uppgjöri.

6. gr. Fjármál.

Fjármögnun félagsins byggist á sjálfsaflafé, fjáröflunum og styrkjum frá almenningi og fyrirtækjum, öðrum rekstrartekjum og eftir atvikum greiðslum samkvæmt þjónustusamningum og styrkjum til tiltekinna verkefna.

Aðildarfélög skulu hafa samráð við stjórn áður en stofnað er til meiri háttar fjáröflunar.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Krabbameinsfélag Íslands skal eiga varasjóð. Varasjóði Krabbameinsfélags Íslands er ætlað:

a) Að mæta hugsanlegum samdrætti í tekjum.

b) Að vera tryggingarsjóður vegna áfalla sem félagið kann að verða fyrir.

c) Að fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur ákveður.

Fé er lagt í varasjóð í samræmi við samþykktir aðalfundar. Varasjóð skal byggja upp að því marki að upphæð hans nemi um það bil kostnaði við meginstarfsemi félagsins, í 12 mánuði. Þar til því marki er náð skal ávöxtun varasjóðs bætt við höfuðstól hans. Ráðstöfun fjár úr varasjóði er aðeins heimil með samþykki aðalfundar. Veðsetning varasjóðs, eða lántaka úr honum til skemmri eða lengri tíma, er óheimil nema með samþykki aðalfundar. Varasjóður skal varðveittur í banka og/eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu hans skal vera öryggi frekar en há ávöxtun.

7. gr. Lagabreytingar.
Tillögur um lagabreytingar skulu sendar formanni minnst tveimur mánuðum fyrir aðalfund. Skulu þær kynntar í fundarboði.

Til breytinga á lögum félagsins þarf 3/4 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Aldrei má breyta lögunum þannig að raskað sé megintilgangi félagsins skv. 2. grein.

8. gr. Félagsslit.
Til að leggja félagið niður þarf samþykki tveggja aðalfunda í röð og séu félagsslitin samþykkt með a.m.k. 4/5 greiddra atkvæða á hvorum fundi. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði.

Verði félagið lagt niður skal eignum þess ráðstafað til líknarstarfa í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Því ákvæði má aldrei breyta.


Á aðalfundi 21. maí 2022 voru samþykktar breytingar á 1. grein (innganga nýrra aðildarfélaga, KÍ starfi undir lögum almannaheillafélaga), 2. grein (kjörtímabil skoðunarmanna reikninga), 3. grein (breyting á kosningarétti stjórnarmanna), 4. grein (ritun firma og fjáröflun á dagskrá), 6. grein (fjármögnun félagsins), 7. grein (hlutfall atkvæða v. lagabreytinga).


Var efnið hjálplegt?