© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2017-2018

Starfsemi félagsins hefur vaxið töluvert á starfsárinu og hefur félögum fjölgað um tuttugu manns auk þess sem virkum félögum í starfinu hefur fjölgað. 

Markmið félagsins er að vera styðjandi við félega sína og efla þjónustu í heimabyggð. Unnið hefur verið að þeim markmiðum meðal annars með því að kanna þjónustuþörfina hjá virkum félögum, fá áhugaverð námskeið og viðburði í heimabyggð sem annars hafa eingöngu verið í boði á höfuðborgarsvæðinu og bæði stækka og efla stuðningsnet félaga. 

Einnig með því að efla samstarf við Krabbameinsfélag Íslands meðal annars með virkni á formanns-og starfsmannafundum, sækja um styrk til þróunar á úrræðum og öflugri þátttöku í landssöfnunum. 

Það er mat formanns og starfsmanns félagsins, sem unnið hafa þétt saman á starfsárinu, að þátttaka hafi aukist og almennt sé ánægja með þá viðburði sem boðið hefur verið uppá. Félagið nýtur velvildar og trausts sem stjórnin vill halda áfram að efla meðal íbúa Árnessýslu.

Viðburðir á starfsárinu (frá vori 2017 fram á vor 2018)

  • Stafganga undir leiðsögn Elísabet Kristjánsdóttir, íþrótta-og heilsufræðings. Farið var á frjálsíþróttasvæðið og lánaði Elísabet stafi til notkunar. Þrjár konur mættu í gönguna.
  • Hópganga í maí í tengslum við Brjóstabolluna. Landsamband bakarameistara stendur fyrir viðburðinum og efndi félagið til hópgöngu sem endaði í Guðnabakarí þar sem Brjóstabollan var til sölu. Um það bil 15-20 manns mættu í gönguna.
  • Stuðningshópurinn Brosið hefur stækkað og eflst á starfsárinu. Reglulegir hittingar eru hálfsmánaðarlega í húsnæði RauðaKrossins á Selfossi. Mæting er í kringum 15 manns á hvern fund. Hópurinn heldur úti facebooksíðu þar sem meðlimir eru 64 talsins.
  • Bleik messa í október í samstarfi við Selfosskirkju. Aðstandandi sagði frá reynslu sinni af krabbameinsferlinu. Messan var mjög vel sótt og var boðið uppá súpu að messu lokinni þar sem ágóðinn rann óskiptur til félagsins.
  • Brosið var með jólaföndur (kertaföndur) í desember. 10-15 konur mættu.
  • Ný facebooksíða var opnuð, svokölluð „like“ síða, með það að markmiði að ná til sem flestra. 236 eru fylgjendur/like á síðunni.
  • Fyrirlestur Arndísar Höllu heitinnar, Mikill hlátur og smá grátur
  • Sogæðanudd námskeið, um það bil 15-20 konur tóku þátt
  • Efldum samstarf við DFS og Sunnlenska.is sem birtu greinar frá félaginu í tengslum við bleikan október.
  • Í janúar var boðið uppá námskeiðið Markmiðasetning og jákvæð sálfræði. Námskeiðið var öllum opið og auglýst í Dagskránni auk samfélagsmiðla. Félagið niðurgreiddi námskeiðsgjald fyrir félaga sína um helming. Alls mættu um 20 manns á námskeiðið.
  • Í febrúar var boðið uppá fyrirlestur frá næringarfræðingnum Berglindi Blöndal. Fyrirlesturinn var öllum opinn og fólki að kostnaðarlausu. Mæting var um 15-20 manns.
  • Í mars var farið í heimsókn/kynningu í YogaSálir sem er ný yogastöð á Selfossi. Í kjölfarið var náð samning við stöðina um að hafa lokað námskeið fyrir hópinn þar sem áhersla væri lögð á slökun og streitulosun. Námskeiðið fór af stað 10.apríl og voru um 18 konur skráðar á námskeiðið. Það stendur yfir í sex vikur og er kennt tvo daga í viku.
  • Stjórnarfundir voru haldnir tvisvar sinnum yfir starfsárið.

Viðburðir sem standa til á starfsárinu (fram á vor 2018)

  • Minnisnámskeið á vegum Ráðgjafastofu Krabbameinsfélagsins í apríl. Þorri sálfræðingur mun halda námskeiðið sem verður í eitt skipti. Námskeiðið mun vera öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu
  • Golfnámskeið fyrir félaga Krabbameinsfélags Árnessýslu í maí. Samningur náðist við Golfklúbb Selfoss um kennslu fyrir hópinn tvisvar sinnum í viku í maí og námskeiðið endar með 9 holu móti og hamborgaraveislu.
  • Í maí munu fara af stað reglulegar göngur í vegum félagsins. Sunnudagar kl.11:30 urðu fyrir valinu og verður gengið á hraða sem hentar öllum og farið vegalengdir sem henta öllum. Þátttaka er bæði frí og frjáls og er markmiðið eingöngu að stuðla að hreyfingu í góðum félagsskap. 

Starfsemi 2016-2017

Félagið tók þátt í Mottumars og gekk sú sala mjög vel. Við fengum til liðs við okkur handboltastelpur hér á svæðinu til að selja. Í tengslum við Mottumars færðum við Kiwanis- og Lions-klúbbunum hér fræðsludisk um blöðruhálskirtilskrabbamein. 

Í október var kirkjan okkar lýst bleik og þar var haldin bleik messa sem við tókum þátt í. Var boðið uppá súpu og allur ágóði rann til félagsins. Hópur sem við nefnum Brosið kemur saman aðra hvora viku og er mjög góð mæting á það. Við bjóðum upp á ýmiss konar uppkomur og fræðslu og létt spjall og hefur verið mikil ánægja hjá þeim sem koma. Er þetta samstarfsverkefni með Rauða krossinum á staðnum. 

Við erum enn að dreifa bókinni Bleikur barmur eftir Dórótheu Jónsdóttir. Við erum bjartsýn á nýtt starfsár hjá okkur ætlum að efla starfsemina enn frekar.

Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir. 

Starfsemi 2015-2016

Félagið tók þátt í Mottumars og gekk sú sala nokkuð vel. Einnig tókum við þátt í haustsölunni. Í október voru Selfosskirkja og Landsbankinn á Selfossi lýst upp í bleiku. Hugmyndin er að hvetja fleiri aðila til að hafa bleika lýsingu næst. Hópur sem nefnist Brosið var með opið hús og er ætlunin að halda áfram í haust í samstarfi við Rauða krossinn. Kiwanisklúbburinn Búrfell afhenti okkur bókina Bleikur barmur, en þetta er bók um baráttu Dórótheu Jónsdóttir við brjóstakrabbamein. Bókinni var dreift frítt.

Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir. 

Starfsemi 2014-2015

Þjónustuskrifstofan hefur verið opin í þrjár klukkustundir á viku, á fimmtudögum kl. 13-16. Meira er haft samband í gegnum síma, tölvupóst eða á förnum vegi. Samtals voru skráð 217 samtöl.

Félagið tók þátt bæði í haustsölunni, þar sem seldir voru pennar og spil, og í marssölunni þar sem seldur var gamall varningur og bílaseglar. Tókst haustsalan mjög vel.

Selfosskirkja, Landsbankinn á Selfossi og Hraungerðiskirkja í Flóahrepp voru lýst upp bleik í október.

Sjálfhjálparhópurinn Bandið hittist fyrsta þriðjudagskvöld í mánuði. Sálfræðingur leiddi fund í september og mataræði var tekið fyrir í október. Í nóvember ræddi hjúkrunarfræðingur um svefnvenjur og hvað er til ráða til að bæta svefninn. Jólasaga var lesin í desember.

Eftir áramótin var farið í samstarf við Árnesingadeild Rauða krossins og stofnaður hópur sem nefnist Brosið sem er með opið hús á fimmtudögum milli kl. 13-16. Ýmislegt verður í boði þar svo sem fyrirlestrar, hand-verk og sýnikennsla, Ham-námskeið og fl.

Í marsmánuði urðu starfmannabreytingar og lét Rannveig Árnadóttir af störfum en Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir hóf störf.

Rannveig Árnadóttir. 


Var efnið hjálplegt?