Rafsígarettur

Taktu prófið!

Rafsígarettur komu nýlega á markaðinn hér á landi. Það verður ekki fyrr en eftir nokkra áratugi sem við getum sagt til um hversu skaðlegar þær eru en við vitum þó að þær eru ekki með öllu skaðlausar. Taktu prófið og sjáðu hversu vel þú þekkir til rafsígaretta. 



1Rafsígarettur eru frábær vara því þær eru skaðlausar.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Ekki er hægt að fullyrða um skaðsemi rafsígaretta því langtímaáhrif á heilsu eru ekki enn þekkt. Það mun taka áratugi til viðbótar þar til hægt verður að draga afdráttarlausar ályktanir um skaðsemi rafsígaretta. Þó eru flestir sérfræðingar sammála um að þær séu að öllum líkindum eitthvað skaðminni en sígarettur.

 


2Enn sem komið er hafa engin krabbameinsvaldandi efni fundist í rafsígarettureyk.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

 

Fundist hafa að minnsta kosti sjö krabbameinsvaldandi efni í rafsígarettureyk og önnur skaðleg efni. 

 

 


3Flestir fara létt  með að skipta út venjulegum sígarettum fyrir rafsígarettur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að meira en 90% þeirra sem reyna að hætta sígarettureykingum með því að skipta yfir í rafsígarettur byrja aftur að reykja sígarettur. Það er svipaður árangur og með nikótínplástrum. 

 


4Reykurinn frá rafsígarettum er vatnsgufa.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Vökvinn í rafsígarettum samanstendur af própýlen-glýkóli og glýseróli og bragðefnum, með eða án nikótíns sem hægt er að fá í allt frá mjög veikum styrk upp í mjög háan. Auk þessara efna hefur verið sýnt fram á að vökvinn í rafsígarettum inniheldur í flestum tilfellum skaðleg efni og þar með talið krabbameinsvaldandi efni, sem geta valdið skemmdum á erfðaefni fruma.

 


5Það eru aðallega reykingamenn sem vilja hætta að reykja sem nota rafsígarettur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Tíðni rafsígarettureykinga meðal unglinga hefur aukist hratt milli ára. Nú hefur um fjórðungur barna í 10. bekk (15 ára) prófað rafsígarettur og um helmingur unglinga í framhaldsskólum. Á sama tíma reykja um 2% nemenda í 10. bekk að einhverju marki. Til samanburðar hafa einungis 5% fullorðinna prófað rafsígarettur. Því má segja að börn og unglingar séu líklegri en aðrir til að fikta við rafsígarettur. 

 


6Unglingar sem byrja að nota rafsígarettur eru líklegri til að byrja að reykja venjulegar sígarettur. 

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Sýnt hefur verið fram á að þeir unglingar sem nota rafsígarettur eru líklegri til að leiðast út í sígarettureykingar.

 


7Tóbaksframleiðendur eru að fjárfesta í auknum mæli í rafsígarettufyrirtækjum.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Tóbaksfyrirtækin eru nú að yfirtaka rafrettuiðnaðinn og beina agni sínu að börnum og unglingum sem eru líkleg til að ánetjast nikótíni. Fjárhæðir sem settar eru í auglýsingar og markaðssetningar hafa hátt í tuttugufaldast á þremur árum og tóbaksfyrirtækin hafa hvorki gefið út yfirlýsingu um að markmiðið sé að útrýma tóbaksreykingum né nikótínfíkn heldur eru þær markaðsettar á sama hátt og sígarettur fyrir hálfri öld.

 


8Rafsígarettureykurinn hefur engin áhrif á lungu barna.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Lungu unglinga og ungs fólks eru enn að taka út þroska og þar af leiðandi viðkvæm fyrir efnum sem finnast í rafsígarettum.

 


9Það er hættulaust ef barn drekkur smá af rafrettuvökva.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Ungum börnum stafar bráð hætta af nikótínvökvum sem gjarnan eru seldir í sælgætisbúningi. Eitrunarútköll af völdum nikótíns í rafsígarettuvökva fimmtíufölduðust í Bandaríkjunum á fjórum árum. Einungis einn millilíter af nikótínvökva getur valdið öndunarstoppi og dauða hjá ungu barni.

 


10Nikótín fer ekki yfir fylgju til barns í móðurkviði.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Ef móðir neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu getur heili barnsins orðið fyrir varanlegri þroskaskerðingu ásamt því að nikótínið eykur líkur á fyrirburafæðingu og andvana fæðingum.

 


11Sá sem vill ekki anda að sér óbeinum rafsígarettureyk er móðursjúkur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Skaðsemi óbeinna sígarettureykinga var staðfest mörgum áratugum eftir að vitað var um skaðsemi beinna reykinga. Rannsóknir sýna að skaðleg efni í rafsígarettureyk greinast í umhverfi þeirra sem reykja rafsígarettur. Fleiri rannsóknir eru nauðsynlegar áður en hægt verður að álykta um áhrif óbeinna rafsígarettureykinga.


Var efnið hjálplegt?