Guðmundur Pálsson 2. nóv. 2020

Bleika slaufan 2020: Áfram krabba­meins­rannsóknir!

Nú þegar við kveðjum Bleikan október er efst í huga þakklæti til okkar frábæra stuðningsfólks. Fólk og fyrirtæki um allt land sýndu stuðning sinn og lögðu sitt af mörkum til að efla krabbameinsrannsóknir á Íslandi okkur öllum til heilla.

Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður og gullsmiður í Aurum, hannaði Bleiku slaufuna í ár og hefur haft veg og vanda af framleiðslu hennar líka. TVG-Zimsen flutti slaufuna til landsins og til um helmings sölustaða innanlands án endurgjalds. Danól dreifði slaufunni til um helmings sölustaða án endurgjalds. Á fjórða hundrað sölustaðir um land allt seldu Bleiku slaufuna án þóknunar til að allur ágóði gæti runnið beint til söfnunarinnar. Kunnum við öllum þessum aðilum okkar bestu þakkir. Sala í vefverslun félagsins tvöfaldaðist miðað við í fyrra. Sölu slaufunnar er lokið og sölutölur verða ljósar á næstu vikum.

Við kynntum átakið í upphafi með málþingi umkrabbameinsrannsóknir þar sem kynntar voru nokkrar af þeim rannsóknum sem Krabbameinsfélagið vinnur að þessi misserin, auk rannsókna sem hafa fengið styrki úr Vísindasjóði félagsins .

Tugir fyrirtækja hafa auglýst vörur sem styrkja Bleiku slaufuna og veita þannig okkur öllum enn fjölbreyttari möguleika á að styrkja rannsóknarstarf samhliða innkaupum. Þessi stuðningur er veruleg viðbót við söfnunarfé og skiptir miklu máli.

Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja tók sig saman og safnaði fé til rannsókna. Má þar nefna Eggert Unnar sem safnaði 1,3 milljónum króna með streymi á Twitch, hóp myndlistarfólks í Gallerý Grásteini sem safnaði 540.000 krónum með sýningunni Brjóst, Vélsmiðjuna Héðinn, sem hét á starfsfólk sitt á Bleika daginn og styrkti átakið um 820.000 krónur. Svo mætti lengi telja.

Um þúsund manns fylgdust með streymi af Bleiku málþingi þar sem fjallað var um áskoranir og bjargráð í tengslum við Covid-19 og krabbamein kvenna.

Covid-19 stoppaði ekki Bleika daginn þó vissulega hefðu sóttvarnir áhrif. Bleiki dagurinn var haldinn um allt land, á vinnustöðum, á heimilum og í skólum og leikskólum með teikningum, föndri, lýsingu, veitingum og bleikum klæðnaði. Við fengum sendar myndir víða að og útvarpsstöðinK100 varð Bleikt100 .

Ágóði söfnunar Bleiku slaufunnar rennur til krabbameinsrannsókna en ný þekking skiptir öllu máli svo við getum fækkað þeim sem þurfa að takast á við krabbamein, fjölgað þeim sem lifa af og bætt lífsgæði þeirra. Allt starf félagsins byggir á stuðningi almennings og beinum fjárframlögum. 

Kæru Íslendingar. Innilegar þakkir fyrir stuðninginn. Hann skiptir öllu máli. 


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?