Kristín Sigurðardóttir 18. maí 2016

Sjúklingamiðuð þjónusta. Við getum-ég get

  • Kristín Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, MSc og stjórnarmeðlimur í fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga
    Kristín Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, MSc og stjórnarmeðlimur í fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga

Alþjóðasamtökin gegn krabbameini (UICC)  skora nú á þjóðir heims að taka þátt í að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini undir slagorðunum We Can -  I Can eða VIÐ GETUM - ÉG GET.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga á Íslandi fagnar í ár 20 ára starfsafmæli sínu og stendur fyrir röð greina í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands undir heitinu VIÐ GETUM - ÉG GET. Fyrst greinin birtist í Fréttablaðinu 4. febrúar og fjallaði um forvarnir og einkenni krabbameina. Í þessari annarri grein er fjallað um sjúklingamiðaða þjónustu.

VIÐ GETUM – stuðlað að sjúklingamiðaðri þjónustu

Að greinast með krabbamein hefur áhrif á líf þess sem veikist og fjölskyldu hans. Allir finna fyrir einhverri vanlíðan í þessum aðstæðum. Við greiningu krabbameins fer oft flókið ferli í gang, meðferðin er gjarnan margþætt og þjónustan oft veitt af mörgum fagaðilum á mismunandi stöðum í heilbrigðiskerfinu. Hætta er á brotakenndri þjónustu og  einstaklingurinn og fjölskylda hans hafa mikla þörf fyrir faglega leiðsögn og stuðning á þessu tímabili.

Víða í heiminum hefur verið hafin vinna við að innleiða sjúklingamiðaða þjónustu (patient centered care) til þess að bæta gæði þjónustunnar í gegnum allt veikindaferli krabbameinssjúklinga strax frá greiningu sjúkdómsins.  Áhersla er lögð á óskir og þarfir sjúklingsins og að öll samskipti og fræðsla séu einstaklingsmiðuð. Einnig er lögð áhersla á að meta og meðhöndla einkenni og líðan með markvissum hætti og að stuðla að samfellu og samhæfingu í þjónustunni.  Í rannsóknum á sjúklingamiðaðri þjónustu hafa komið fram vísbendingar um að hún geti aukið ánægju með þjónustu, bætt lífsgæði, bætt sálræna líðan, minnkað óvissu og fækkað vandamálum sem tengjast sjúkdómnum og meðferðum við honum.

Mismunandi þjónustuform, sem hafa það markmið að veita sjúklingamiðaða þjónustu, hafa verið þróuð og er algengt að hjúkrunarfræðingar séu lykilaðilar í þjónustunni. Leiðsögn veitt af hjúkrunarfræðingi (nurse navigation) og umsjónarhjúkrun (nurse case management) eru dæmi um sjúklingamiðaða hjúkrunarþjónustu og hefur það fyrrnefnda verið að ryðja sér til rúms víðsvegar í heiminum og þá sér í lagi fyrir krabbameinssjúklinga og fjölskyldur þeirra. Leiðsögn veitt af hjúkrunarfræðingi er einstaklingsmiðuð þjónusta fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra sem miðar að því að veita heildræna þjónustu, allt frá  greiningu til sjúkdómsloka. Á Íslandi er víðast veitt einstaklingsmiðuð þjónusta en í fæstum tilfellum er um formlegt sjúklingamiðað þjónustuform að ræða þar sem leiðsögn er veitt af hjúkrunarfræðingi frá greiningu.

ÉG GET- verið virkur þátttakandi í mínu krabbameinsferli

Í sjúklingamiðaðri þjónustu er lögð rík áhersla á sjálfseflingu og að sjúklingurinn sé virkur þátttakandi í sínu krabbameinsferli. Hlutverk fagaðila er meðal annars að hvetja sjúklinginn og fjölskyldu hans til sjálfseflingar og að sníða fræðslu og upplýsingar að óskum þeirra og þörfum til að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Markmiðið með sjálfseflingu er meðal annars að sjúklingurinn og fjölskylda hans eigi auðveldara með að aðlagast breyttum aðstæðum og búi yfir færni til að bregðast fljótt við vandamálum sem geta komið upp og leiti sér aðstoðar tímanlega. Þannig getur sjálfsefling stuðlað að bættri líðan og betri lífsgæðum.

Samtök evrópskra krabbameinsfélaga hafa hvatt aðildarfélög sín til að gera áætlanir varðandi þjónustu við krabbameinssjúklinga. Öll Norðurlöndin nema Ísland hafa birt slíkar krabbameinsáætlanir. Til þess að styðja við sjúklingamiðaða þjónustu þá er m.a. í sænsku krabbameinsáætluninni mælt með að allir sem greinast með krabbamein fái úthlutað hjúkrunarfræðingi sem lykilaðila (kontaktsjuksköterska) strax við greiningu og í Danmörku var þetta tekið skrefinu lengra og sett í lög að sjúklingar fái slíkan lykilaðila. Á Íslandi hefur verið unnið að gerð krabbameinsáætlunar á vegum velferðarráðuneytisins. Niðurstaða þeirrar vinnu hefur enn ekki verið birt en það er von fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga að þessi áætlun fjalli um sjúklingamiðaða þjónustu í takt við aðrar þjóðir.

Kristín SigurðardóttirHjúkrunarfræðingur, MSc og stjórnarmeðlimur í fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga

Heimildir

  •  Association of European Cancer Leagues www.epaac.eu/national-cancer-plans
  • Canadian Partnership Against Cancer (2012) http://www.cancerview.ca/idc/groups/public/documents/webcontent/guide_implement_nav.pdf
  • Institute of Medicine http://www.nap.edu/catalog/18359/delivering-high-quality-cancer-care-charting-a-new-course-for
  • Oncology Nursing Society (2014) https://www.ons.org/store/books/oncology-nurse-navigation-delivering-patient-centered-care-across-continuum
  • Statens offentliga utredningar http://www.epaac.eu/from_heidi_wiki/Sweden_National_Cancer_Strategy_Swedish.pd
  • Velferðarráðuneytið í Danmörku (lög) https://www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=131918
  • Velferðarráðuneytið á Íslandi http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34627
  • Wagner o.fl. (2014) http://jco.ascopubs.org/content/early/2013/11/25/JCO.2013.51.7359.full.pdf+html
  • World Cancer Day  http://www.worldcancerday.org/

Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?