Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 24. sep. 2019

Velferðarnefnd í heimsókn

Sjö nefndarmenn velferðarnefndar Alþingis komu í heimsókn til Krabbameinsfélagsins í gær og var þeim kynnt starfsemi félagsins. 

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, kynnti helstu þætti starfseminnar fyrir þeim Ólafi Þór Gunnarssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson og Vilhjálmi Árnasyni og sérfræðingar félagsins svöruðu fyrirspurnum. 

„Það var afar ánægjulegt að velferðarnefndin skyldi þiggja boð um heimsókn til félagsins. Okkur hjá Krabbameinsfélaginu sem erum málsvarar þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra, skiptir auðvitað miklu máli að geta átt regluleg og milliliðalaus samtöl við stjórnvöld. Krabbameinstilvikum fjölgar mikið, jafnt og þétt, fyrst og fremst vegna þess að þjóðin er að eldast, og til að halda þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í greiningu og meðferð krabbameina er mikilvægt að sofna hvergi á verðinum, hvorki í forvörnum né þeim þáttum sem lúta að meðferð og endurhæfingu,“ segir Halla.

Félagið telur íslenska krabbameinsáætlun gríðarlega mikilvægt leiðarljós í öllu sem viðkemur krabbameinum og fagnar því stóra skrefi sem heilbrigðisráðherra tók í byrjun árs þegar hann samþykkti áætlunina.

„En áætlunin ein og sér er ekki nóg, það verður að láta verkin tala. Á fundinum gátum við rætt mikilvægi gæðaskráningar, gæðavísa og samfelldrar þjónustu, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein, sem starfsmenn og fulltrúar aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins telja forgangsmál í markmiðum Krabbameinsáætlunarinnar. Nefndarmenn voru áhugasamir um fjölbreytta starfsemi félagsins og það var gaman að geta lýst fyrir þeim í stuttu máli Ráðgjafarþjónustu félagsins, Vísindasjóði og fleiru auk þess sem tækifæri gafst til að fara vel yfir þann góða árangur sem náðst hefur í að auka þátttöku kvenna í skimunum og forsendur hans. Vonandi verður hægt að endurtaka þennan fund að ári.”

Nefndarmenn hlýddu af áhuga á kynningu framkvæmdastjóra af starfi félagsins.  


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?