Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 7. mar. 2019

Útfærsla hugmynda um breytingar á skimun áhyggjuefni

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Stjórn Krabbameinsfélags Íslands hefur sent frá sér bókun um fyrirhugaðar breytingar á framkvæmd skimana sem fram koma í minnisblaði landlæknis og í tillögum skimunarráðs. 

Félagið telur margar hugmyndirnar góðar, en að veruleg vinna sé eftir við að fullgera og hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem væntanlega verða teknar á grundvelli tillagnanna. Í þeim er að finna hugmyndir um breytta skipan á staðsetningu, stjórn og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum og krabbameinsskrá.

Heilbrigðisráðuneytið hefur aðeins tíu mánuði til að taka endanlegar ákvarðanir um þetta þýðingarmikla efni og koma þeim í framkvæmd, þá rennur þjónustusamningur Sjúkratrygginga við félagið út. Ljóst má vera að alvarleg hætta er á að misbrestir geti orðið við yfirfærslu verkefnisins.

„Margar hugmyndanna eru góðar, til dæmis gjaldfrjáls skimun sem hefði átt að vera búið að taka upp fyrir löngu síðan, stjórnstöð sem heldur í alla þræði, sem nauðsynlegt er þegar framkvæmdin á að færast á margar hendur og lagasetning sem mun styrkja starfið. Hins vegar eru hugmyndirnar afar óþroskaðar og langt frá því að vera að fullu útfærðar. Þetta er mikið áhyggjuefni, þar sem einungis 10 mánuðir eru eftir af samningi Sjúkratrygginga við félagið um skimunina. Almennningur þarf að geta gengið að skimuninni vísri, auk þess sem starfsmenn eru alveg í lausu lofti,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Engin kostnaðaráætlun fylgir minnisblaði landlæknis og ekki heldur tillögum skimunarráðs. Enn sem komið er hefur heilbrigðisráðuneytið ekki gert grein fyrir því hvort og þá hvernig viðbótarfjármagns verður aflað.

Ráðuneytið hefur heldur ekki gert grein fyrir áhrifum breytinganna á starfsmenn og starfsmannafjölda eða hvort starfsöryggi þess fólks sem vinnur við skimun og krabbameinsskrá á grundvelli sérþekkingar er tryggt.

Þá er ónefnd aðstaða og nauðsynlegur sérhæfður búnaður til skimunarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um framtíð skimana fyrir krabbameinum eftir 31. desember næstkomandi. Það er óþolandi og óásættanleg staða í ljósi þeirra miklu hagsmuna almennings og starfsmanna, sem í húfi eru. Krabbameinsfélag Íslands mun beita sér fyrir að þessu verkefni verði framhaldið af fullum metnaði eins og tillögur þess hafa miðað að.

Fjárveiting ríkisins hefur ekki dugað fyrir fjármögnun skimunar

Krabbameinsfélag Íslands hefur borið ábyrgð á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands, sem byggður er á ítarlegri kröfulýsingu. Núgildandi samningur hefur verið framlengdur sjö sinnum frá árinu 2013. Fjárveiting ríkisins hefur langt frá því dugað til fjármögnunar þjónustunnar.

Á aukaaðalfundi félagsins sem haldinn var þann 16. september 2018 var stjórn þess veitt umboð til að verða við ósk Sjúkratrygginga Íslands í umboði heilbrigðisráðherra um að framlengja samningi um skimanir fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum út árið 2019. Auk þess samþykkti félagið að leggja til starfseminnar allt að 75 milljónum á árunum 2018 og 2019.

Í nóvember 2018 kynnti félagið heilbrigðisráðherra tillögur sínar að framtíðarfyrirkomulagi skimana og óskaði eftir viðræðum um þær. Tillögur Krabbameinsfélags Íslands fólu í sér róttækar breytingar á skimunum fyrir krabbameinum til að mynda stofnun skimunarmiðstöðvar. Félagið lagði áherslu á að gengið yrði frá samningi til tveggja eða þriggja ára til að tryggja að engin röskun yrði á starfseminni meðan á undirbúningi og innleiðingu breytinga stæði svo breytingarnar yrðu til að hámarka árangur og gæði skimana. Ekki var orðið við óskum um þær viðræður.

Með sjöundu framlengingu þjónustusamnings Sjúkratrygginga Íslands og Krabbameinsfélags Íslands í september 2018 var skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi aðeins tryggð til ársloka 2019. Um nokkra hríð hefur því ríkt fullkomin óvissa um skipulag og framkvæmd þessa mikilvæga verkefnis í íslenskri heilbrigðisþjónustu frá og með næstu áramótum.


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?