Ása Sigríður Þórisdóttir 28. feb. 2024

Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Stuð og stemmning og stuðningur við baráttuna gegn krabbameinum hjá körlum.

Við hvetjum þig til að taka þátt í Mottumarshlaupinu og endilega til að hvetja vini og fjölskyldu til að taka þátt með þér.

Rannsóknir sýna með afgerandi hætti að regluleg hreyfing dregur úr líkum á ákveðnum krabbameinum. Einnig vegnar þeim betur eftir greiningu krabbameins sem hafa stundað hreyfingu eða halda því áfram í og eftir krabbameinsmeðferð.

Það er ekki nóg að vita þetta, við þurfum að sýna það í verki. Þess vegna stendur Krabbameinsfélagið fyrir Mottumarshlaupinu sem er frábært tækifæri til að sýna hvað maður getur hlaupið hratt, til að sýna þeim stuðning sem eru að takast á við krabbamein eða til að taka fyrstu skrefin. Svo er hlaupið frábært tækifæri til að skarta nýjustu Mottumarssokkunum!

Hreyfum okkur saman!

https://www.youtube.com/watch?v=nnjWBctWGN0

 

 

- Hér eru praktískar upplýsingar um hlaupið og undirbúning -

 

Mottumars-5K_1000_hlaupakort-minna-copy_1708944406787


Hvernig fer hlaupið fram?

Hlaupið markar upphaf Mottumars og er haldið á hlaupársdag, fimmtudaginn 29. febrúar. Dagskrá hefst kl. 17:30 þar sem Eva Ruza og Hjálmar Örn munu koma þátttakendum í rétta gírinn fyrir hlaupið. Hlaupið verður ræst kl. 18:00 við Fagralund í Kópavogi og lýkur á sama stað. Hlaupaleiðin liggur um Fossvogsdalinn. Boðið er upp á 5 km löglega mælda braut, með eða án tímatöku. Þeir sem ekki vilja tímatöku geta hlaupið eða gengið styrri vegalengd, allt eftir vilja og getu. Mottumarshlaupið er nefnilega ólíkt öllum öðrum hlaupum - þeir sem vilja mega nefnilega stytta sér leið!

Boðið verður upp á upphitun fyrir hlaup og drykki að loknu hlaupi.

Fjöldi útdráttarverðlauna, enn er að bætast við:

  • Laugar spa – gjafabréf í baðstofuna.
  • Sky Lagoon - 2 x Sky gjafabréf og 2 x Pure gjafabréf
  • Train station – 4 x 3 mánaðarkort
  • Sportvörur – 2 x gjafabréf að verðmæti 10.000 kr.
  • Eirberg - Altra FWD Experience hlaupaskór
  • Hvammsvík – 5 x gjafabréf með aðgangi fyrir tvo.
  • Serrano - 4 x gjafabréf.
  • Unbroken - gjafapoki.

 

Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Hlaupstjóri er Inga Dís Karlsdóttir.

Hvar skrái ég mig?

Skráningargjald er 5000 krónur fyrir 12 ára og eldri, Mottumarssokkar fylgja með, og 1500 krónur fyrir börn 11 ára og yngri, Mottumarsbuff fylgir með.

Þátttakendur fá frítt í sund í Kópavogslaug, við Borgarholtsbraut, að hlaupi loknu.

Hlaupagögn verða afhent þann 28. og 29. febrúar hjá Krabbameinsfélaginu, Skógarhlíð 8 milli kl. 09:00 - 16:00.  

Er þetta eitthvað fyrir mig?

Hlaupið hentar öllum, ungum og öldnum, reyndum hlaupurum og þeim sem eru óvanir eða jafnvel að stíga sín fyrstu skref í almenningshlaupi en líka þeim sem vilja ganga í góðum félagsskap. Hægt er að hlaupa hratt og hægt, með tímatöku eða ekki, ganga alla leið eða blanda saman göngu og hlaupum og meira að segja stytta sér leið. Þú ræður ferðinni. Aðal málið er að taka þátt! 

„Við hvetjum klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópa, félagsmenn, karlakóra, frímúrara, fótboltalið, hlaupahópa og alla hina til að mæta undir eigin „flaggi og fána”, vera sýnileg og setja þannig skemmtilegan svip á viðburðinn. Svo verðum mjög gaman að sjá hversu margir verða með mottu og hversu vel sýnilegir Mottumarssokkarnir verða“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Hvernig undirbý ég mig?

Besti undirbúningurinn er einfaldlega að reima á sig skóna og fara út að ganga eða skokka! Betra er að fara rólega af stað og hreyfa sig daglega (eða næstum því) heldur en að fara of geyst og lenda í ógöngum. 

Þarf ég sérstakan vetrarbúnað?

Hlaupið verður í Fossvogsdalnum, bæði Reykjavíkur- og Kópavogsmegin, sem verður ruddur og saltaður ef aðstæður krefjast þess en auðvitað vonumst við eftir góðu veðri og auðum stígum. Það ætti vel að duga að vera í venjulegum íþróttaskóm eða utanvegahlaupaskóm ef þú átt slíka. Ef þér finnst öruggara að vera með brodda undir skónum skaltu ekki hika við það. Þú þarft hvorki að fjárfesta í utanvegahlaupaskóm með vatnsvörn og grófum botni, hlaupabroddum né endurskinsvesti fyrir sjálft Mottumarshlaupið, þó það gæti komið sér vel í undirbúningnum eða ef þú heldur áfram að hlaupa/ganga í kjölfarið.

Hvernig á ég að klæða mig?

Klæddu þig í hvaða íþróttaföt sem þér líður vel í, en taktu veðrið þann 29. febrúar með í reikninginn. Líklegt er að þér hitni eitthvað á leiðinni og algengustu mistökin eru að klæða sig of mikið. 

Bílastæði 

Við hvetjum öll sem ætla að koma og hlaupa eða hvetja hlaupara að mæta tímanlega. Dagskrá hefst kl. 17:30. Takmarkað er af bílastæðum við Fagralund, en hægt er að leggja við Fossvogsskóla og ganga yfir í Fagralund eða við Víkingsheimilið og rölta/skokka yfir.

Fjölmennum í Mottumarshlaupið!

Við hvetjum þig til að taka þátt í Mottumarshlaupinu og hvetja þitt fólk til að taka þátt líka. Skráðu þig núna í hlaupið!

Aðalverðlaunin eru að taka þátt og við vonumst auðvitað til þess að Mottumarshlaupið nýtist þér sem hvatning til áframhaldandi hreyfingar. Regluleg hreyfing er mikilvægur þáttur í að draga úr líkum á krabbameinum!

Fjölmennum í Mottumarshlaupið!

 


Fleiri nýjar fréttir

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?